09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (2732)

204. mál, daggjöld landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Brynjólfur Bjarnason):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann svaraði því, sem felst í hinni skriflegu fsp. minni, og upplýsti þar með, að þessi ráðstöfun yrði ekki leiðrétt, og enn fremur, að því er mér skildist, að daggjöld landsspítalans mundu hækka upp í 100 kr. um áramót. En hann svaraði ekki, hvernig á því stendur, að sú aðferð er höfð að tilkynna sjúkrasamlaginu og Tryggingastofnuninni hækkunina fyrst eftir að hún kom til framkvæmda, þrátt fyrir allar þær umkvartanir, sem landsspítalanum og ríkisstj. hafa verið sendar vegna þessara aðferða, sem koma sér ákaflega illa fyrir sjúkrasamlagið.

Hins vegar fer lítið fyrir því, að þessar ráðstafanir hafi verið studdar skynsamlegum rökum hjá hæstv. ráðherra. Hann sagði, að aðstaða sjúkrahúsa úti á landi yrði erfiðari, ef daggjöldum landsspítalans yrði haldið lágum. Þetta skildist mér að væru hans aðalrök.

Ég fæ nú ekki séð, að það bæti neitt hag þessara sjúkrahúsa úti á landi, að daggjöldin á landsspítalanum séu há. Spurningin er aðeins um það, hver á að greiða halla þeirra. En hér gengur ríkissjóður beinlínis á undan öðrum að hækka daggjöldin og hækka þar með dýrtíðina í landinu. Það skiptir engu máli, hvaða reglur hafa áður gilt um hlutföll daggjalda og rekstrarkostnaðar, heldur hitt, hvað er hagsýnt. Það er það, sem máli skiptir.

Ég gat ekki séð, að hæstv. ráðh. gæfi neina fullnægjandi skýringu á því, að daggjöldin þurfi að hækka um yfir 40%, sem er þó miklu meira en sú hækkun á verðlagi og kaupgjaldi, sem orðið hefur í landinu yfirleitt.

Hann sagði enn fremur, að það væri vafasamt, hvort ríkissjóður græddi nokkuð á þessari hækkun daggjaldanna beinlínis, bókhaldslega, og hv. 4. þm. Reykv. upplýsti, að útgjöld ríkissjóðs beinlínis hækkuðu af þessum sökum, nema því aðeins að aðrar ráðstafanir yrðu gerðar. M. ö. o.: Það lítur svo út sem þessi ráðstöfun hafi þann tilgang einan að hækka dýrtíðina í landinu, að þetta sé eins konar verðbólguráðstöfun.

Hvaða áhrif hefur svo þetta á tekjuskiptinguna í landinu? Ef iðgjöld sjúkrasamlags Reykjavíkur hækka um 10 kr., þá hækkar vísitalan um 1.1 stig, og það er sú minnsta hækkun, sem verður um áramót, þ. e. a. s. ef haldið verður fast við þá ráðstöfun að hækka daggjöld landsspítalans upp í 100 kr. Það þýðir, að eftir að sú hækkun tekur að hafa áhrif á kaupgjaldið, tapar fjölskylda, sem hefur 1000 kr. grunnlaun á mánuði, 9 kr. á mánuði, en fjölskylda, sem hefur 3000 kr. grunnlaun, græðir 13 kr. Þeir tekjulágu tapa, þeir tekjuháu græða, og þetta orkar þannig til enn frekari misskiptingar á þjóðartekjunum. Það er tekið frá þeim fátækari til handa hinum efnaðri.

Ég get svo aðeins harmað það, að ríkisstj. skuli ætla að halda fast við þessa ráðstöfun, sem virðist, þegar alls er gætt, helzt hafa þann tilgang að auka dýrtíðina í landinu.