09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (2739)

205. mál, diplómatavegabréf

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans við fyrirspurnum mínum. Hann sagði, að engar aukareglur hefðu verið gefnar út um diplómatísk vegabréf, aðrar en þær, sem greinir í þeirri reglugerð, sem hann og ég nefndum, og taldi það mundu hvíla á misskilningi eða missögn, ef talið væri, að þær reglur hefðu verið brotnar eða sniðgengnar með einhverjum hætti. Um þetta er að sjálfsögðu ekki hægt að staðhæfa, nema því aðeins að fyrir liggi skrá um þá menn, sem fengið hafa útgefin slík vegabréf á undanförnum árum, en um einstök nöfn í þessu sambandi sæmir að sjálfsögðu ekki að ræða hér á þessum stað. Þó tel ég, að tölur þær, sem hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu um útgáfu bréfanna s. l. fimm ár, gefi nokkuð örugga vísbendingu um, að frjálslega muni hafa verið haldið á um útgáfu þessara vegabréfa, þar sem tala útgefinna diplómatavegabréfa nemur t. d. 1954 71 bréfi, en hún hefur numið frá 30 og upp í 71 bréf árlega. Mér hefur ekki unnizt tími til að leggja það saman, en það eru yfir 200 bréf, sem gefin hafa verið út á þessum s. l. fimm árum.

Ef hv. alþm. renna augunum yfir reglugerðina, er alveg augljóst, að diplómatísk vegabréf eiga ekki aðrir að hafa í höndum í stórum dráttum en forseti landsins, ráðherrar og nánustu fylgismenn ráðherra, forseti sameinaðs Alþingis, hæstaréttardómarar, starfsmenn utanrrn. og fulltrúar í opinberum diplómatískum sendinefndum og aðrir opinberir fulltrúar í stjórnarerindum samkvæmt umboði frá forseta Íslands. Ég hygg hins vegar, að það hafi tíðkazt allmikið, að ýmsir menn, sem farið hafi utan í ýmsum erindum fyrir stjórnarvöld, hafi fengið útgefin diplómatísk vegabréf í sambandi við ferðir sínar, og ég hygg einnig, að það hafi tíðkazt allmikið, að menn hafi haldið þessum vegabréfum sínum og noti þau áfram, þegar þeir fara í einkaerindum til útlanda. Hvort tveggja er að sjálfsögðu sniðganga á þeim reglum, sem skýrum stöfum eiga um þetta að gilda.

Það er nauðsynlegt, að ungt ríki eins og Ísland gæti fyllstu forma í efnum eins og þessum. Það er kunnugt, að ýmis ung ríki hafa orðið sér til minnkunar á alþjóðavettvangi á þann hátt að umgangast alþjóðasiðvenjur á sviði eins og þessu með losarabrag. Það tel ég að eigi ekki að henda hið unga íslenzka lýðveldi. Fyrirspurn mín er fram borin til þess að vekja athygli á því og hvetja hæstv. ríkisstj. til þess að framfylgja þeim reglum, sem settar hafa verið og ég hef ekkert út á að setja í sjálfu sér, út í yztu æsar, en það er ég viss um að hefur ekki verið gert. Er mér persónulega kunnugt um ákveðin dæmi, þar sem hvorki er um misskilning að ræða né heldur missögn, að beinum ákvæðum reglugerðarinnar hefur ekki verið fylgt.

Ég vil hvetja hæstvirta ríkisstj. til þess að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að þessum ákvæðum reglugerðarinnar verði haldið í heiðri. Það er ekki smámál, að formum eins og hér er um að ræða sé hlýtt út í yztu æsar.