23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (2744)

95. mál, endurskoðun skattalaga

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur verið starfandi milliþinganefnd við endurskoðun skattalaganna undanfarin þrjú ár. Þessi nefnd skilaði áliti á næstsíðasta þingi um annan meginkafla laganna, þ. e. einstaklingskaflann, og var lögunum breytt í samræmi við það. Annar meginkafli laganna er enn óbreyttur að mestu leyti frá því, sem hann var í skattalögum frá 1935. Skattstiginn er enn óbreyttur, frá því að þau lög voru sett, en eins og kunnugt er, hefur viðbótarskatti og stríðsgróðaskatti verið bætt í lögin.

Nú er það svo, að eins og komið er verðlagi í landinu, er þessi skattstigi, sem nú er notaður, gersamlega úreltur og stendur atvinnulífinu í landinu stórkostlega fyrir þrifum. Auk þess er óhætt að segja, að núverandi ástand í skattamálum í sambandi við félagskaflann ýtir mjög undir ýmsa eyðslu, vegna þess að skattarnir ásamt útsvörum nema burt svo að segja tekjur félaga að mestu eða öllu leyti. Sérstaklega er þetta þungbært að því er snertir veltuútsvar, sem nú er lagt á um allt land, í öllum kaupstöðum og sveitarfélögum, sökum þess að veltuútsvarið er ekki að neinu leyti lagt á í samræmi við tekjur manna. Þetta er tekjuöflun, sem segja má að tekin hafi verið upp að neyð af bæjarfélögunum, því að sýnilegt er, að það getur ekki gengið til frambúðar að leggja á atvinnureksturinn í landinu skatta hreinlega af handahófi, eftir því, hve mikil fjárvelta hefur verið hjá gjaldendum, án nokkurs tillits til þess, hvað fyrirtækin hafi borið úr býtum, enda er vitanlegt, að fjöldamörg fyrirtæki geta sýnt það, að þau hafa orðið að borga í ríkisskatta og útsvör meira en tekjur þeirra hafa numið á árinu. Nú er eitt atriði nýtt í þessu veltuútsvarsmáli, sem mikið hefur verið um rætt, og það er, að öll líkindi eru til þess samkvæmt úrskurði, sem nýlega hefur verið upp kveðinn í máli á milli Reykjavíkurbæjar og Sambands ísl. samvinnufélaga, að samvinnureksturinn í landinu verði undanþeginn veltuútsvari. Ef þessi úrskurður verður staðfestur í hæstarétti, er sýnilegt, að þá skapast geipilegt misrétti, sem ómögulegt er fyrir einkareksturinn að rísa undir, ef allur samvinnureksturinn í landinu er undanþeginn veltuútsvari, sem hann hefur einnig stunið undir síðustu ár. Ég bendi bara á þetta.

Hæstv. fjmrh. lofaði á síðasta þingi að leggja fram frv. til endurskoðunar skattalaganna. Þessi fsp. er fram borin í því skyni að fá staðfest hjá hæstv. ráðh., að hann muni leggja fram slíkt frv., og ég vænti þess, að hann geti gefið einhverjar upplýsingar um það, hvort hann muni þá leggja frv. fram í samræmi við þær till., sem sagt er að séu komnar til hans frá milliþinganefnd í skattamálum.