23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (2745)

95. mál, endurskoðun skattalaga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í ágústlok fékk fjmrn. sendar tillögur frá mþn. í skattamálum varðandi skattlagningu félaga til ríkissjóðs og bæjar- og sveitarsjóða, og var jafnframt tekið fram, að nefndin hefði þó enn þá til athugunar nokkur atriði í skatta- og útsvarslöggjöfinni, þ. á m. atriði, sem varða skatt- og útsvarsgreiðslur félaga, og að n. gerði ráð fyrir að koma saman til að ræða þau mál, sem eftir væru, um það leyti sem fundir Alþingis hæfust í haust.

Samkvæmt till. n., sem borizt hafa, var gert ráð fyrir því m. a. að gerbreyta útsvarslögunum að því er varðar greiðslur félaga til bæjar- og sveitarsjóða auk fleiri þýðingarmikilla breytinga. Af þeim ástæðum taldi ég alveg óhjákvæmilegt að senda till. n. til umsagnar stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Álit hennar á till. fékk ég nú fyrir nokkrum dögum, og er það álit þannig vaxið, að ráðuneytið telur alveg nauðsynlegt að senda það mþn. í skattamálum til athugunar, og það var gert án tafar.

Ég get ekki fullyrt um það á þessu stigi, hvort mögulegt verður að koma saman frv. um frambúðarlausn þessa vandasama og mjög yfirgripsmikla máls, sem ríkisstjórnin beiti sér fyrir á þessu þingi. Ég get ekki fullyrt það á þessu stigi málanna. Málið er ekki svo langt komið enn þá, að um þetta verði sagt, en mér er sem áður ljós nauðsyn þess að fá ný lagaákvæði um skattlagningu á félög og hef áður lýst þeirri skoðun minni og vinn að því að reyna að leysa málið.

Ég lýsti því yfir í fyrra, að ég mundi beita mér fyrir því, að mþn. í skattamálum skilaði áliti, jafnvel þó að hún kæmi sér ekki saman. Á hinn bóginn fullyrti ég ekkert um það þá, hvort ég mundi geta á þessu þingi lagt fyrir frv. að frambúðarlausn þessara mála, en að því vinn ég. En jafnvel þó að ekki tækist að ná samkomulagi um frv., sem gæti orðið afgr. á þessu þingi um þessi þýðingarmiklu mál, þá verður að sjálfsögðu á þinginu lagt fram frv. um skattlagningu félaga, því að það er ekki hægt að mínum dómi eða a. m. k. mjög óheppilegt að hafa hana eins og hún yrði, ef ekkert væri gert af þingsins hendi.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi að gefa upplýsingar um, hvað er í till. þeim, sem mþn. sendi ráðuneytinu, þar sem málið er á rannsóknarstigi enn þá og hefur ekki verið tekið fyrir í ríkisstj. á þann hátt, sem ég tel rétt að gera, áður en þær till. væru gefnar út.