23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (2747)

95. mál, endurskoðun skattalaga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlazt til þess að ræða efnislega mál í fyrirspurnatíma. En vegna þess að mér fannst, að það mundi vera hægt að misskilja þær upplýsingar, sem komu frá hæstv. ráðh., á þann veg, að n. muni ekki hafa á sínum tíma rætt við Samband íslenzkra sveitarfélaga, áður en hún samdi sínar tillögur, þá vildi ég geta þess hér, að áður en till. n. voru sendar til rn., höfðu þær verið bornar undir framkvæmdastjóra Sambands íslenzkra sveitarfélaga, svo að honum var fullkunnugt um þetta mál, og hann hafði látið uppi álit sitt við nefndina um tillögurnar. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram til þess að fyrirbyggja þann misskilning, að nefndin hafi gengið fram hjá svo þýðingarmiklum aðila.