11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í D-deild Alþingistíðinda. (2762)

113. mál, samningar um landhelgina

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er nú orðið alllangt síðan þessi fsp. var fram borin, og síðan er á vissan hátt búið að svara að því leyti því, sem þar er um spurt, að það er vitað, að samningatilraunir hafa staðið yfir að tilhlutan Efnahagsstofnunar Evrópu um þessi mál og eitthvað af slíkum niðurstöðum hefur þegar borizt til íslenzku ríkisstjórnarinnar. Þessi fsp. var hins vegar fram borin meðan þetta mál var á því stigi, að eingöngu var um lauslegar blaðafréttir að ræða í erlendum blöðum, sem hingað höfðu borizt til okkar, og alger þögn ríkti hjá ríkisstjórninni, þannig að ég býst kannske ekki fyrst og fremst við, að það, sem hæstv. forsrh. mundi svara í sambandi við þessa fsp., væri beinlínis orðrétt svar við því, sem hér liggur fyrir, hvort rétt sé það, sem blaðið Fishing News hafi verið að segja, heldur mun nú væntanlega verða gefin hér skýrsla til hv. Alþ. um, hvernig þessi mál standa í heild. Ég vil hins vegar um leið láta þá skoðun í ljós, að það væri ákaflega heppilegt, eins og oft hefur tíðkazt í þessum málum, að þegar svona mál standa yfir, noti hæstv. ríkisstj. tækifærið, án þess að það sé komið fram með sérstakar fyrirspurnir, hvorki utan dagskrár né með þessu móti, til þess að kveðja sér hljóðs utan dagskrár og gefa skýrslur um svona hluti, og að þingmenn geti þá, án þess að vera bundnir af þessum stutta umræðutíma fyrirspurnatímans, 10 mínútna umræðum, tekið til máls um þessi veigamiklu mál.

Viðvíkjandi því máli hins vegar sjálfu, sem hér er um að ræða, vil ég aðeins ítreka það, sem ég hef áður sagt: Ég álít enga þörf fyrir Íslendinga til samninga við Breta um landhelgismálið. Áhrifaríkir brezkir auðmenn hafa kosið að setja löndunarbann á okkur. Þetta löndunarbann hefur ekki orðið okkur að neinu tjóni, þvert á móti. Þetta löndunarbann er hins vegar brezkri alþýðu og brezkri þjóð bæði til tjóns og til vansa. Ég tel bezt á því fara, að Bretar fái sjálfir að glíma við þá brezku auðmenn, sem hafa kosið að reyna að hafa þessa aðferð bæði til að kúga eigin alþýðu og til þess að beita þjóð eins og okkur ofríki. Við erum til allrar hamingju ekki upp á þá komnir. Ég held þess vegna, að við höfum mjög góða aðstöðu til þess að vera þolinmóðir í þessu máli og láta hvergi eitt hænufet undan. Það vildi ég aðeins láta í ljós, um leið og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. í fyrsta lagi segi okkur af þeim samningum, sem nú standa yfir, og í öðru lagi gefi yfirlýsingu um það, sem spurt er um í þriðja atriðinu í þessari fsp., hvort það komi yfirleitt til mála, að ríkisstj. fari að semja um þetta mál án þess að gefa þingi og þjóð tækifæri til þess að ræða málið áður og þinginu til að taka sínar ákvarðanir í því.