11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (2763)

113. mál, samningar um landhelgina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hinn 7. þ. m. gaf ríkisstjórn Íslands út svo hljóðandi tilkynningu til blaða og útvarps:

„Eins og kunnugt er, hafa vandkvæði þau, er stafa af löndunarbanninu á íslenzkum fiski í Bretlandi, hvað eftir annað komið til umræðu í Efnahagssamvinnustofnuninni í París (OEEC). Umræður þessar urðu til þess, að stofnunin skipaði nefnd til þess að kynna sér málið frá öllum hliðum og freista þess að finna lausn á því. Í nefndinni hafa nýlega komið fram tillögur um lausn málsins, og eru þær nú í athugun hjá ríkisstjórn Íslands.“

Við þetta hef ég ekki á þessu stigi málsins öðru að bæta en því, að ríkisstjórnin hefur ekki látið sér til hugar koma að færa inn núverandi friðunarlínu né að semja um hana sem frambúðarlausn á friðunarráðstöfunum Íslendinga. Þetta er samhuga álit og ákvörðun allra núverandi ráðherra.