11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (2764)

113. mál, samningar um landhelgina

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans, svo langt sem þau ná. Ég álít samt, að hann hefði átt að gefa okkur ýtarlegri upplýsingar viðvíkjandi þeim samningum, sem fram hafa farið í París. Ég álít, að hann hefði átt að gefa okkur upplýsingar um, hvort íslenzkir aðilar hafi verið þar við riðnir, hvort fulltrúar íslenzkrar ríkisstjórnar hafi að einhverju leyti talað fyrir hönd ríkisstj. í þeim samningum, sem sé hvort ríkisstjórnin hafi tekið þátt í þeim. Ég álít enn fremur, að hann hefði átt að segja okkur alveg greinilega það, sem við höfum annars staðar frá fregnað, að það hafi komið fram tillögur, og þá ætti að greina frá hverjum, um það, að Englendingar afléttu löndunarbanninu gegn því, að íslenzka ríkisstjórnin lýsti því yfir, að hún léti sér nægja núverandi friðunarlínu og mundi ekki gera tilraunir til að færa hana út. Ég álít, að við eigum rétt á því að fá að vita, hvað gert hefur verið og hvað fram hefur komið af tillögum í þessum málum. Það er t. d. fróðlegt fyrir okkur að vita ekki aðeins, hvaða afstöðu Bretar og þeirra fulltrúar taka í þessu, heldur líka hvaða afstöðu aðrar þjóðir, þær sem ef til vill hafa komið eitthvað nærri því að reyna það, sem kallað var að miðla málum í þessu, Norðmenn eða aðrir slíkir, hafa tekið. Við megum gjarnan fá hugmynd um það hvaða uppástungur hafa komið fram frá þessum aðilum.

Hins vegar vil ég eindregið lýsa ánægju minni yfir þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. hér gaf og ég skil svo, að það komi ekki til mála í fyrsta lagi, að Íslendingar semji um það á nokkurn hátt að færa inn núverandi friðunarlínu, og það býst ég við, að allir hafi líka verið sammála um, og í öðru lagi komi ekki heldur til mála að semja um núverandi friðunarlínu sem neina framtíðarlausn, m. ö. o. komi ekki til mála að ræða um eða fallast á þær tillögur, sem fram hafi komið í Efnahagsstofnuninni.

Þá liggur ákaflega nærri að spyrja: Hvernig stendur á því, að í þessari efnahagsstofnun þessara þjóða, sem hæstv. ríkisstj. er sífellt að tala við, skuli vera rætt um og koma yfirleitt fram tillögur, sem hlýtur að hafa verið vitað að íslenzka ríkisstj. mundi ekki ljá máls á að tala um?

Það er ákaflega ánægjulegt, að þetta komi fram núna, sem hæstv. forsrh. lýsti yfir, og gott, að þær þjóðir, sem við þar erum í samstarfi við, fái að vita okkar afstöðu þannig. Það hefði verið enn betra, að þetta hefði komið fram fyrr, að þessi yfirlýsing hefði legið fyrir, áður en menn fóru yfirleitt að tala um það í París eða annars staðar, að svona miðlunartillaga væri ef til vill einhver miðlun og hefði einhvern möguleika á því að hljóta samþykki á Íslandi. Eins ánægjulegt og það er að heyra þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. nú gefur, þá hefði verið enn ánægjulegra, að slík yfirlýsing hefði verið gefin strax og fór að kvisast um þessi mál og tekin hefðu verið af öll tvímæli um, að þær svokölluðu miðlunartillögur, sem þarna væri um að ræða, væru hlutir, sem Íslendingar létu ekki bjóða sér.