11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (2765)

113. mál, samningar um landhelgina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér skilst það á því, sem hér hefur komið fram frá hæstv. forsrh., að það sé nú í rauninni ekki ósk ríkisstj. að ræða þessi mál að nokkru ráði á þessu stigi, og kunna að liggja til þess einhverjar ástæður. En ég veitti því athygli, að hann komst þannig að orði, að allir núverandi ráðherrar væru sammála um það, að ekki kæmi til mála að semja um núverandi friðunarlínu sem frambúðarlausn í þessum efnum. Fyrir mér er þetta orð og þar með þessi yfirlýsing öll nokkuð óákveðin, með sérstöku tilliti til þess, sem blöð og fréttastofur hafa einmitt skýrt frá þessu máli. Það hefur sem sé komið fram, að lagt mundi vera til, að Íslendingar féllust á að lofa því að breyta ekki núverandi friðunarlínu, a. m. k. á meðan Efnahagssamvinnustofnunin væri enn að fjalla um málið.

Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að öll loforð í þeim efnum séu alveg fráleit. Hins vegar lít ég einnig þannig á, að þetta orðalag hæstv. forsrh., að stjórnin sé sammála um, að hún muni ekki semja um núverandi friðunarlínu sem frambúðarlausn, segi ekkert til um það, að hún sé ekki að hugsa um að lofa því, að núverandi friðunarlína skuli standa óbreytt um einhvern tíma.

Nú vildi ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh., hvort e. t. v. megi skilja þessi orð þannig, að ríkisstj. hugsi sér ekki heldur að gefa nein loforð um það, að núverandi friðunarlína skuli gilda um neinn tiltekinn tíma, ekki heldur til bráðabirgða. Rétt er að athuga það, að hér liggja fyrir tillögur frá um 16 alþingismönnum um að breyta núverandi friðunarlínu strax, svo að loforð ríkisstj. um að hreyfa ekki við henni skiptir vitanlega mjög miklu fyrir alþingismenn og þjóðina alla. Það að lofa því, að Íslendingar muni ekki semja um núverandi friðunarlinu sem frambúðarlausn, segir í mínum eyrum heldur lítið.