11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (2768)

113. mál, samningar um landhelgina

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur áður verið mælt, að það er nokkru miður, að hæstv. forsrh., sem einnig fer með sjávarútvegsmálín, skuli ekki vera mættur hér í þessum umræðum nema til að gefa þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér við upphaf umræðnanna. En þar sem í þeirri yfirlýsingu hans fólst það, að ríkisstj. öll stæði að gangi þessara mála, þá vildi ég mega vænta þess, að af ríkisstjórnarinnar hálfu verði gefin greið svör um það, sem þeir hv. 11. landsk. þm. og hv. 8. þm. Reykv. hafa spurt um: Má skilja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig, að á vegum íslenzku ríkisstj. verði ekki samið við einn eða neinn um það, að núgildandi reglur verði látnar standa, meðan vilji Alþingis hefur ekki komið í ljós í þessu efni?

Ég er einn þeirra þm., sem hafa lagt fram till. á þingi, bæði á þessu þingi og á s. l. þingi, um breytingar á íslenzkri landhelgislínu. Það hagar alveg sérstaklega til um þá till., sem ég hef lagt hér fram. Breytingar þær, sem í henni felast, eru ekki aðrar en þær, sem hægt er að gera samkv. þeim meginreglum, sem íslenzka ríkisstj. lýsir yfir að hún hafi dregið landhelgina eftir og væri samkv. mínum till. hægt að víkka landhelgina nokkuð án þess að breyta grundvallarreglunum. Ekki einu sinni þessi till. mín hefur fengizt afgreidd hér á þinginu, hvorki í fyrra né heldur nú.

Hæstv. forsrh. hefur átt tal við hv. allshn. sameinaðs Alþingis, sem hefur allar þessar till. til meðferðar, og hefur óskað eftir því, eða óskaði eftir því í fyrra, að þær mættu bíða nokkuð enn þá. Ég vil aðeins undirstrika það, að ég tel það fullkomið ábyrgðarleysi af íslenzkri ríkisstj. að biðja Alþingi og einstakar nefndir þingsins um frest á afgreiðslu mála án þess að gefa nokkrar viðhlítandi eða fullnægjandi skýringar á því, hve lengi á að bíða og eftir hverju á að bíða. Þetta hefur hins vegar skeð, og ég leyfi mér að víta stjórnina fyrir það ábyrgðarleysi að láta svo ganga árum saman, að hún standi í samningamakki við erlenda aðila um einhverja hluti, sem Alþingi fær ekki að vita um, hverjir eru.

Ég álít, að það sé fullkomlega komið að því, að Alþingi verði að krefjast þess af ríkisstj., að hún hætti að halda aðgerðum sínum leyndum fyrir þingheimi a. m. k., og í rauninni hefur hún ekki rétt til þess að halda þeim leyndum fyrir þjóðinni allri. Henni ber fullkomin og ótvíræð skylda til þess að gefa Alþingi skýrslu um það, hvernig þessi mál raunverulega standa. Og ég vil sömuleiðis beina þeirri ásökun, sem ég hef nú fellt á ríkisstj., til hennar stuðningsmanna hér á Alþingi, að þeir hafa ekki heldur neinn siðferðislegan rétt til þess frammi fyrir íslenzkri þjóð að neita að afgreiða mál hér á Alþingi, af því að ríkisstj. er eitthvað að pukrast með þau sömu mál úti í löndum.

Í sambandi við það ábyrgðarleysi, sem hér hefur viðgengizt af hálfu ríkisstj. í þessu máli, sem er eitt af stærstu málum aðalatvinnuvegar íslenzku þjóðarinnar, sjávarútvegsins, vil ég einnig koma að því, að ríkisstj., sem getur leyft sér að halda leyndum aðalþáttunum, sem varða aðalatvinnuveg þjóðarinnar, er ekki lengur í neinu samræmi við störf þjóðarinnar. Hún ætti að sjá sóma sinn í því, þegar svo er komið, að nærri allur veiðifloti landsmanna er stöðvaður og síðan telur hún það eitt vera hlutverk sitt að pukrast með grundvallarráð þessa atvinnuvegar úti í löndum, þegja um það þunnu hljóði í sínu landi, svíkjast um skyldur sínar gagnvart þingheimi í sambandi við þessi mál, — sú ríkisstj. ætti, ef það væri einhver dropi eftir af sómatilfinningu í hennar blóði, að segja þjóðinni, að hún sé ekki fær um að stjórna þessu landi, og leggja upp sína laupa.