11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (2771)

113. mál, samningar um landhelgina

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér finnst nú dálítið skrýtið, þegar ráðherrarnir koma fram hver fyrir annars hönd og segja, að svör hins hafi verið fullnægjandi. Það má vel vera, að svör hæstv. forsrh. hafi verið fullnægjandi meðráðherrum hans, af því að þeir vita um, hvað hefur gerzt í málinu, en það er þannig vaxið, að þingheimur hefur ekki enn þá látið í ljós, að hann teldi svörin fullnægjandi, og það var þingheimur, sem var að spyrja hæstv. ráðherra. Það er því einskis vert að fá að vita að svör hæstv. forsrh. séu fullnægjandi meðráðherrum hans.

Þingmenn langar til þess að fá að vita um það m. a., hvort það er rétt, að hæstv. ríkisstj. hafi veitt ádrátt um eða gefið loforð um eða tekið þátt í samningum eða samningsundirbúningi um, að landhelgislína Íslands verði ekki fyrst um sinn færð út fyrir þær 4 mílur, sem hefur verið ákveðið fyrir nokkrum árum, og ætli að láta sér það nægja sem bráðabirgðalausn í landhelgismálinu. Ég er alveg viss um, að það mundi þykja bein árás á lífsmöguleika Vestfirðinga a. m. k., og mundi syngja þannig víðar í hv. kjósendum, ef það vitnaðist.