11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (2777)

206. mál, fyrirætlanir bandaríska herliðsins á Íslandi

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. hefur spurt að því, hvort standi yfir eða hafi verið gerðir samningar við bandaríska herliðið um Njarðvíkurhöfn.

Um þetta mál er það að segja, að með samkomulaginu á milli Íslands og Bandaríkjanna frá 25. maí 1954 var endanlega ákveðið, að gerð yrði höfn í Njarðvíkum, með því skilyrði, að teikningar og staðsetning yrði samþykkt af íslenzkum stjórnarvöldum.

Þetta hefur ekki farið leynt, því að um þetta gat ég í útvarpsræðu hinn 26. maí 1954 og gat þess enn fremur, að sérstök ákvæði giltu um þessa framkvæmd, sem sé að íslenzkir og bandarískir verktakar hefðu jafnan rétt til þess að gera tilboð í byggingu hafnarinnar.

Nú hafa mál skipazt þannig, að samkomulag hefur orðið um staðsetningu, gerð og teikningar hinnar fyrirhuguðu hafnar. Hefur vitamálastjóri séð um gerð teikninganna og ákveðið staðsetninguna, og hefur það sjónarmið ráðið, að hafnargerðin verði íslenzkum hagsmunum að sem mestu gagni. Á þessum forsendum hefur hafnargerðin verið leyfð.

Íslendingar hafa rétt og möguleika á að koma upp bryggjum í höfninni til afnota fyrir útgerð. Enn fremur fá íslenzk skip afnot af aðalhafnargarðinum, sem um leið verður bryggja fyrir stórskip.

Það er ekki gert ráð fyrir því og ekki ætlazt til þess, enda ekki möguleikar á, að í höfninni verði herskipalægi, heldur er hér um að ræða höfn, sem notuð verður í þágu vöruflutninga og til útgerðar.

Nokkrar líkur eru nú til, að eigi verði samkeppnisútboð um hafnargerðina, heldur verði íslenzkum verktaka falin framkvæmdin. Þó er þetta ekki alveg öruggt enn þá.

Hv. 2. þm. Reykv. spyr enn fremur að því, hvort ríkisstj. mundi ljá máls á því að afhenda Bandaríkjunum fleiri radarstöðvar á Íslandi en þegar hefur verið gert.

Fyrirspurnin er eitthvað brengluð, eins og hún er sett fram, en vitanlega mun hv. fyrirspyrjandi eiga við það, hvort Íslendingar mundu leyfa Bandaríkjamönnum að reisa fleiri radarstöðvar á Íslandi.

Mér er ekki kunnugt um, að ósk hafi komið frá nokkrum aðila þess efnis, að reistar verði fleiri radarstöðvar en þær fjórar, sem þegar hafa verið leyfðar. Ég get bætt því við, að ég hef hvergi heyrt um það, að tilmæli hafi komið um þetta, nema í blaðviðtali, sem ritstjóri Þjóðviljans birti og hafði eftir hershöfðingjanum á Keflavíkurflugvelli. Ég hef spurt herforingjann um þetta, en hann segir, að þetta sé algerlega byggt á misskilningi og að hv. ritstjóri muni hafa misskilið sig.