15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (2784)

138. mál, framkvæmd launalaga

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Því er ekki að leyna, að um skeið hefur sá orðrómur legið á, að ýmsir opinberir embættismenn hafi orðið aðnjótandi allverulegra fríðinda og launauppbóta í einu og öðru formi umfram það, sem launalög ákveða. Telja ýmsir, að þetta hafi færzt töluvert í vöxt hin síðari ár og þeir menn einkum orðið slíkra fríðinda aðnjótandi sem voru í hinum hærri eða hæstu launaflokkum, og er þó langt frá því, að slíkt hafi gengið jafnt yfir eða um það verið fylgt föstum reglum, að því er talið er. Hér er einkum talað um fríðindi í formi bílastyrkja, húsaleigustyrkja eða risnu.

Nú er mér ekki um það kunnugt, að lög heimili sérstaklega slíkar kaupuppbætur, nema þá í sárafáum undantekningartilfellum. Það er að vísu rétt, að undanfarin ár hefur kaup opinberra starfsmanna verið tiltölulega lágt, miðað við verðlag í landinu og miðað við tekjur ýmissa annarra þjóðfélagsþegna, en það réttlætir þó ekki þá aðferð að hygla einstökum embættismönnum og þá helzt mönnum úr hinum efstu launaflokkum, án þess að séð væri, að annað ríkti þar en handahóf eða jafnvel aðrar enn hæpnari forsendur.

Nú hafa ný launalög verið sett, og enda þótt þau séu gölluð á marga lund, þá er það tvímælalaust vilji löggjafarvaldsins, að þau ákvarði laun opinberra starfsmanna. Verði hins vegar haldið áfram að veita tilteknum embættismönnum sérstök fríðindi utan launalaga, sé ég ekki betur en grundvöllur þeirra raskist gersamlega, þar sem embættismenn í sama launaflokki gætu þá haft mjög mismunandi launakjör. Ég hef því leyft mér, til þess að þetta mál geti legið nokkru ljósar fyrir en ella, að bera fram nokkrar fsp. varðandi þau atriði, sem ég hef nú drepið á. Þær fsp. eru á þskj. 282, og vænti ég þess að fá við þeim greið svör.