15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (2788)

138. mál, framkvæmd launalaga

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir ummæli hv. 8. þm. Reykv. um það, að mér þótti þessi skýrsla, sem hæstv. fjmrh. flutti hér, allmerkileg, og sömuleiðis er ég sömu skoðunar og hv. 8. þm. Reykv. um það, að mér þótti næsta fróðlegt að heyra það, að þessum launamismun, sem þarna er um að ræða, skyldi nú eiga að halda áfram.

Það er vitað, að það hefur verið svo á undanförnum árum, að ríkisvaldið, sem hefur húsbóndarétt í þessum málum, kaupgjaldsmálum til opinberra starfsmanna, handjárnar þinglið sitt hér á Alþingi til þess að ákveða launalög að sinni vild, hefur reynt að mismuna opinberum starfsmönnum með því að borga þeim launauppbætur í formi bílastyrkja eða húsaleigustyrkja, því að þeir hafa litið svo á, þessir herrar, að það færi betur á því þannig og það mundi valda minni óánægju hjá opinberum starfsmönnum, þó að hinir hæst launuðu þar fengju styrkina og launabæturnar í því formi. Það er náttúrlega augljóst mál, að það er ákaflega þægilegt fyrir þá, sem taka á móti þessum sporzlum, að fá þær í þessu formi, því að þegar þeir taka við bílastyrkjum sínum, þá er það skattfrjáls peningur, og ég hygg, að sumir bílastyrkirnir, sem um er að ræða, séu það ríflegir, að bílkostnaður viðkomandi manna sé ekki jafnmikill. Ég veit dæmi þess, að maður fékk bílstyrk úr ríkissjóði eingöngu til að keyra bílinn sinn á milli vinnustaðar og heimilis, allríflegan. Þessi styrkur var upplesinn hér áðan. Ef hann þurfti að nota bíl í þágu starfsins, þá tók hann bíl á stöð og lét ríkissjóð borga.

Nú var það svo, að það var viðurkennt af öllum, bæði mér og öðrum, að áður en launalagabreytingin síðasta fór fram, voru laun opinberra starfsmanna ákaflega lág og algerlega óviðunandi í mjög mörgum tilfellum. Ríkisstj. viðurkenndi þetta á þann hátt að borga svona styrki til þeirra hæst launuðu. Þegar svo launalögunum var breytt hér á þingi, var það gert á þann veg að færa þá, sem tóku hæstu launin, upp um heilan launaflokk og hækka þannig laun þeirra alveg sérstaklega.

Nú skyldi maður ætla, og ég stóð í þeirri meiningu, að þessi styrkjapólitík, sem rekin var, áður en launabreytingin fór fram, hefði verið gerð vegna þess, að það dróst að breyta launalögunum, en þegar sú breyting kom fram og þessir menn, sem höfðu notið þessara fríðinda sem launauppbótar, fengu laun sín verulega hækkuð, þá yrðu að sjálfsögðu þessi fríðindi tekin til baka. Þetta var alveg eðlileg og rökrétt hugsun, og það breytir engu um það, hvað hæstv. fjmrh. segir hér, þó að hann sé nú að reyna að verja þetta. Auðvitað verður hann að gera það. Enginn bjóst við því, að hann mundi gagnrýna þetta eða ráðast á þetta. Vitanlega hlaut hann að reyna að klóra í bakkann og reyna að verja þessa pólitík, en hún er jafnranglát og óverjandi þrátt fyrir það, sem hann segir hér um þessi mál. Þess vegna er það líka rangt hjá hæstv. fjmrh., þegar hann segir, að það sé eitthvað skakkt hugsað hjá hv. 8. þm. Reykv. að hafa búizt við því, að það mætti vænta breytinga í þessu efni, og að hann hefði búizt við því, að svar ráðherrans yrði eitthvað á aðra lund en þá, að öllum þessum fríðindum skyldi haldið áfram til þeirra manna, sem mesta hækkun fengu með breytingu launalaganna nú fyrir jólin.

Ég sé, að ég er búinn með minn tíma hér, og ætla ekki að fara fram yfir hann.