15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í D-deild Alþingistíðinda. (2796)

207. mál, aukagreiðslur embættismanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get ekki varizt því, að mér finnst dálítið einkennilegt snið á tali hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) um þessar fyrirspurnir. Hann sagði áðan og sagði enn, að það gengi þrálátur orðrómur um, að opinberum starfsmönnum væri greitt fyrir ýmis störf, sem þeir inntu af höndum í þjónustu ríkisins, umfram þeirra laun. (GilsG: Háar fjárhæðir.) Háar fjárhæðir, já. Þrálátur orðrómur um greiðslur. Það var eins og hv. þm. væri að tala um, að hann hefði orðið áskynja um einhvern glæp, sem hefði verið drýgður, eitthvert furðulegt athæfi, sem ætti sér stað. Nú veit þessi hv. þm. það, og það vita allir hv. þm., að algengt er og hefur verið frá fyrstu tíð, að ef embættismaður, eins og hver annar borgari, vinnur eitthvert starf fyrir það opinbera, sem honum er ekki skylt að vinna sem embættismanni, og vinnur það á öðrum tíma en þeim starfstíma, sem hann leggur ríkinu fram, þá fær hann fyrir það greiðslu eins og hver annar. Það er því algerlega ástæðulaust fyrir hv. þm. að vera með þetta Leitis-Gróu-tal, þetta sífellda stagl um þrálátan orðróm, sem menn hafa orðið varir við í þessu sambandi. Það er blátt áfram móðgandi í garð opinberra starfsmanna að viðhafa þannig ummæli og þannig snið á framkomu sinni eins og hv. þm. hefur haft í sambandi við þessa fsp.

Fsp. er þannig:

„Hverjir embættismenn hafa undanfarin fimm ár notið sérstakrar greiðslu fyrir undirbúning og samningu lagafrumvarpa, matsgerðir og álitsgerðir á sérsviði sínu, og hverju hafa numið árlegar greiðslur til hvers þeirra á því tímabili?“

Eins og menn heyra, tekur fsp. til þess, hverjir hafi fengið greiðslur fyrir þessi efni á sérsviði sínu. Ég held því fram og kem að því ofur lítið bráðum, að þessi fsp. sé brot á þingsköpunum ekkert síður en sú, sem áðan var rædd, en hún er að því leyti alvarlegra brot, að þessi fsp. er svo óglögg, að henni er ekki hægt að svara. Mat á því, hver störf skuli teljast til sérsviðs embættismanns, er óframkvæmanlegt. Það tekur enginn að sér að skera úr því, hvað sé sérsvið embættismanns í þessu sambandi, enda hvergi nærri ljóst, hvað átt er við með sérsviði.

Upplýsingar um aukagreiðslur til embættismanna, sem reynt væri að byggja á slíkri skiptingu, mundu verða algerlega af handahófi og gefa alveg rangar upplýsingar um greiðslur yfirleitt til starfsmanna ríkisins fyrir störf, sem þeir hafa unnið í þjónustu ríkisins fyrir utan embættisstörfin. Og ef það verður dregið í efa af hv. fyrirspyrjanda, að rétt sé, að þetta sé ekki hægt, þá mun ég færa að því nánari ástæður.

Fjmrn. hefur snúið sér til hinna ráðuneytanna út af þessari fyrirspurn og beðið þau um að gefa upplýsingar út af henni fyrir þeirra leyti, og þau hafa ekki talið sér fært að leggja út í að gera mat á því, hvaða greiðslur séu fyrir störf á sérsviði og hverjar ekki. Fyrirspurnin er líka að þessu leyti alveg óskiljanleg. Fjmrn. er hinum ráðuneytunum sammála um þetta, og er svar mitt við þessari fsp. því á þá leið, að hún sé svo óákveðin, að ekki sé hægt að gera sér grein fyrir því, við hvað sé átt með henni, og því ekki hægt að gefa við henni önnur svör en þau að benda á það.