15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (2799)

207. mál, aukagreiðslur embættismanna

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef fulla ástæðu til að bera af mér sakir. Hæstv. ráðh. sagði hér, að þessi fsp. væri vitanlega til þess fram borin að drótta að vissum embættismönnum, að þeir hafi tekið fé eða reynt að ná sér í fé ófrjálsri hendi, og það ætti að nota slíka fsp. sem þessa sem grundvöll að rógi um ákveðna menn.

Ég vil gersamlega mótmæla þessum tilgátum hæstv. ráðherra og vísa þeim heim til föðurhúsanna. Þetta eru algerlega staðlausir stafir. Það er spurt hér um ákveðin atriði, sem full ástæða er til að fá réttar upplýsingar um. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. sýnt það hér, að hann kærir sig ekkert um, að þessar upplýsingar komi fram. Hann um það. Það kann vel að vera, að ég geri aðra tilraun til að fá svör viðvíkjandi því, sem ég vildi fá upplýsingar um, en ég get ekki verið að karpa lengur við hæstv. ráðh. um svo augljósan hlut sem það, hvort hagfræði er t. d. sérsvið hagfræðings, lögfræði sérsvið lögfræðings, guðfræði guðfræðings eða þar fram eftir götunum. Þetta hélt ég að hver maður skildi og þyrfti ekki að hártoga, nema hann teldi nauðsyn til bera til þess að sleppa við að svara óþægilegri spurningu.