16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (2805)

154. mál, glersteypa

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Allir hv. þm., sem hér hafa talað, virðast vera sammála um, að það eigi ekki að taka upp þann sið að bera hér upp á þingi fyrirspurnir um viðskipti einstakra manna við banka landsins eða einstakra fyrirtækja og sé ekki hægt að hugsa sér, að það séu upplýsingar gefnar hér um þess háttar mál. En hv. 2. þm. Reykv. vill þó halda því fram, að fsp. hans sé eðlileg, vegna þess að það gegni allt öðru máli um Framkvæmdabankann og viðskipti einstaklinga við Framkvæmdabankann en nokkurn annan banka í landinu.

Þetta er auðvitað fullkomin fjarstæða, eins og bezt kom fram af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði sjálfur. Hann byggði málflutninginn á því, að það væru nánari tengsl á milli Framkvæmdabankans og Alþ. heldur en annarra banka í landinu. Vitanlegt er, að jafnvel þótt svo væri, að það væru nánari tengsl á milli Alþ. eða ríkisvaldsins og eins banka öðrum fremur, þá mundi það ekki skera neitt úr um þetta. Það mundi ekki vera neitt fremur viðeigandi að fara að gefa upplýsingar um skuldaskipti einstakra manna við hann hér fyrir því. En þetta er það, sem hv. 2. þm. Reykv. vill hengja hatt sinn á. Á þetta verður þó enginn hattur hengdur, ef við athugum málið nánar.

Í fyrsta lagi er það um Landsbankann, að öll yfirstjórn hans er kosin af Alþ. Enginn banki landsins er nánar tengdur við Alþ. en Landsbankinn. Landsbankanefndin er kosin af Alþ., hún kýs bankaráðið — og bankaráðið bankastjórana. Alþ. má því heita yfirstjórn Landsbankans, og enginn banki er eins tengdur þessari stofnun og einmitt Landsbankinn. Það er því alger fjarstæða, að hægt sé að segja, að það eigi að gilda aðrar reglur um einhvern annan banka en Landsbankann, af því að hann sé tengdari ríkisvaldinu en Landsbankinn.

Um Búnaðarbankann er það að segja, að tveir af bankaráðsmönnum — það munu vera þrír bankaráðsmenn í Búnaðarbankanum — eru kosnir af landbúnaðarnefndum Alþ. og einn skipaður af landbrh. Það er ekki hægt að tengja nokkra stofnun fastari böndum við ríkisvaldið en gert er um þessa stofnun. Mundi þó væntanlega engum manni detta í hug, að það gæfi þingmanni rétt til þess að spyrja, hvað Jón Jónsson skuldaði í Búnaðarbankanum og hvaða ástæða væri til þess, að bankastjóranum þar hefði þótt ástæða til að lána Jóni Jónssyni o. s. frv., o. s. frv.

Ég held, að þetta sé alveg nóg til þess að sýna, að þessi fsp. er þannig vaxin, að hana á ekki að leyfa. Verði hún leyfð og verði henni svarað, þá er augljóst mál, að það gefur hvaða þm. sem er rétt til þess að krefjast þess að fá svarað upplýsingum hér á Alþ. um hliðstæð atriði varðandi hvern einstakling eða hvaða fyrirtæki í landinu sem er, í hvaða bankastofnun sem er, a. m. k. þeim bönkum, sem ég hef nefnt.