16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (2807)

154. mál, glersteypa

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er um þingsköp, af því að deila hefur risið hér upp um það, hvort leyfð skuli fsp. sú, sem hér er til umr. Það er óvanalegt, að slíkur ágreiningur rísi upp um það, hvort fyrirspurnir skuli leyfðar, en það er eðlilegt, að það hvarfli að þingmönnum, að fara skuli varlega í þeim efnum að leyfa fyrirspurnir, sem ganga inn á svið, sem að öllum jafnaði eru talin heyra til einkamála, í þessu tilfelli viðskiptamannanna við þann banka, sem um er að ræða. Ég verð satt að segja að játa það, að mér er þetta ekki eins ljóst og vera skyldi. Ég hef heyrt hv. flytjanda till. mæla fyrir henni, og hef heyrt andmæli hæstv. ráðh. móti henni og fleiri hv. þingmanna. En í þessu sambandi og til þess að gera málið fyrir mitt leyti eitthvað ljósara langar mig til þess að spyrja hæstv. fjmrh., sem er í bankaráði Framkvæmdabankans, tveggja spurninga. Sú fyrri er: Eiga nokkrar lánveitingar sér stað í Framkvæmdabankanum án beinna afskipta bankaráðsins, sem stjórnar þeim banka? Hin spurningin, sem ég ætla að bera fram og ég vona að hæstv. fjmrh. verði svo vingjarnlegur að svara líka, er sú: Er það svo, að t. d. í Landsbankanum fari engar lánveitingar fram án beinna afskipta bankaráðs Landsbankans? Með orðunum beinna afskipta á ég við það, að viðkomandi lánveitingar séu beinlínis bornar undir bankaráð hver fyrir sig.

Svarið við þessum spurningum getur haft talsverð áhrif á það, hvaða hugmynd ég get gert mér um það, hvort þessi fyrirspurn eigi rétt á sér eða ekki.