16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

154. mál, glersteypa

Einar Olgeirsson:

Ég er satt að segja ekkert óvanur því, að ráðh. kinoki sér stundum við að svara mínum fyrirspurnum. Það hefur komið fyrir hérna áður, að bornar hafa verið fram fyrirspurnir, sem Alþ. hefur samþykkt og enginn hefur borið brigður á að væri sjálfsagt að svara, og ráðherrarnir hafa látið sig hafa það að svara þeim samt ekki.

Hæstv. fjmrh. vildi segja, að Framkvæmdabankinn heyrði ekki sérstaklega undir fjmrh., hann væri rétt eins og aðrir bankar. Ég ætla að leyfa mér að upplýsa hæstv. fjmrh. um það, ef hann hefur ekki vitað það fram að þessu, að aðrir bankar ríkisins heyra undir bankamálaráðherra, hans sessunaut, að þegar skipt er sér af bönkunum af hálfu ráðherranna, þá er það sérstakur ráðherra, sem hefur með bankana að gera, Landsbankann, hlutabréfin í Útvegsbankanum og annað slíkt, sem er bankamálaráðherra. En í l. um Framkvæmdabankann er sérstaklega fram tekið, að fjmrh. skuli hafa afskipti af honum. Í fyrsta lagi stendur í 14. gr.: „Fjmrh. skipar varamann fyrir skrifstofustjóra fjármálaráðuneytisins. Fjmrh. ákveður þóknun til bankaráðsmanna.“ Það stendur í 19. gr., að fjmrh. skuli skipa endurskoðanda. Það stendur í 9. gr., að fjmrh. sé heimilt að ábyrgjast lán og svoleiðis nokkuð og hafa allt samband við bankann viðvíkjandi þeim málum. Það stendur í 11. gr., að Framkvæmdabankinn skuli, ef fjmrh. óskar þess, annast ákveðna hluti fyrir ríkissjóð. Það stendur í 23. gr., að fjmrh. skuli gefa út reglugerð. M. ö. o.: Þessi banki heyrir undir fjmrh., þveröfugt við alla aðra banka ríkisins, sem heyra undir bankamálaráðherra. Svo vill hæstv. fjmrh. halda því áfram að segja, að þessi banki hafi enga sérstöðu og að það sé tóm illkvittni, ef það sé farið að spyrja, — ja, það væri líklega illkvittni, ef ég færi að spyrja og biðja um upplýsingar um það, hvernig vissu fé væri varið úr fjmrn.

Ég verð að segja honum það, að það er ekki til neins að koma fram og slá svona hlutum fram. Þó að ég hafi verið á móti þessum einkabanka fjmrh., þegar hann var settur, þá hef ég sama rétt og aðrir þm. til þess að fylgjast með því og heimta upplýsingar, ef mér finnst það nauðsynlegt, um rekstur þessarar sérstöku stjórnarráðsdeildar. Það má vel vera, að hann og hans lið geti fellt hér að taka þessa fsp., en það eru aðrir möguleikar til, sem ég get þá tekið upp. Alþ. hefur sinn möguleika, deildir þess, að setja rannsóknarnefndir til þess að rannsaka svona hluti, rannsaka allan rekstur Framkvæmdabankans, ef hæstv. fjmrh. finnst það betra, og það getur vel verið, að það verði gripið til þess. Ég vona, að hæstv. forsrh. sé ekki hræddur um, að við förum að rannsaka fleiri banka. Og yfirleitt vildi ég óska þess, að hæstv. ríkisstj. væri ofur lítið rólegri. Þó að hún sé að falla, þá þarf hún ekki að láta bera svona mikið á því.

Svo vil ég að síðustu minna á, að í 31. gr. þingskapanna stendur, að eftir að búið sé að útbýta þskj., eigi forseti á næsta fundi Sþ. að bera undir atkvæði umræðulaust, hvort fsp. á listanum skuli leyfð eða ekki. Hér hafa nú orðið umræður, sem hæstv. forseti hefur leyft að vera utan þingskapa, en það er ekki til þess ætlazt.