16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (2811)

154. mál, glersteypa

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagði áðan, að Framkvæmdabankinn væri undir sérstakri stjórn fjmrh. Ég sagði, að þetta væri ekki, því að ég væri í bankaráðinu sem kosinn fulltrúi Alþ. Hv. 2. þm. Reykv. sagði þetta til þess að færa rök að því, að eðlilegt væri að gefa upplýsingar um lánveitingar úr honum, en ekki öðrum bönkum. Það var einn liður röksemdafærslu hjá honum, að af því að þessi banki væri undir sérstakri stjórn fjmrh., væri hann tengdari ríkisvaldinu en aðrir bankar og því ástæða til að gefa upplýsingar um lán úr honum, þótt ekki væri því sama til að dreifa með lánveitingar úr öðrum bönkum.

Það er alveg sama heilasúpan enn. Ef bankinn heyrir undir fjmrh., þá er sjálfsagt að gefa upplýsingar um lánveitingar úr honum, en ef hann heyrir undir bankamálaráðherra, þá kemur slíkt ekki til mála. Þetta er hugsanagangur þessa hv. þm. Það eru ekki tengsl við ríkisvaldið, ef bankinn heyrir stjórnskipulega skoðað undir bankamálaráðherra, að dómi hv. þm., og gefur ekki neina ástæðu til þess, að það megi spyrja um einstakar lánveitingar, heldur aðeins ef bankinn heyrir undir stjórn fjmrh.

Það er auðvitað engin heil brú til í þessu. Ef á að gefa upplýsingar um lánveitingar til einstakra manna úr einum ríkisbanka, þá verður vitanlega að gera það sama um lánveitingar úr öðrum ríkisbönkum. Það er alveg sama, hvernig hv. 2. þm. Reykv. reynir að komast í kringum þetta, það er ekki hægt. Það er ómögulegt að komast í kringum það.