07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í D-deild Alþingistíðinda. (2823)

170. mál, yfirljósmóðurstarf

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í desember s. l. auglýsti heilbrmrn. laust til umsóknar yfirljósmóðurstarf við fæðingardeild landsspítalans. Nú nýlega veitti ráðherrann þetta starf. Í sambandi við þá veitingu bar það til, sem var alger nýlunda, að ráðh. veitti starfið gegn einróma tillögum deildarlæknis fæðingardeildarinnar og stjórnarnefndar ríkisspítalanna.

Mér er ekki kunnugt um, að slíkt hafi gerzt áður, þegar um hliðstæð störf hefur verið að ræða, að ráðh. hafi talið sig dómbærari um það, hver gegna skuli störfum við sjúkrahús landsins, en þeir yfirmenn, sem eiga að bera ábyrgð á störfum hlutaðeigandi undirmanna. Hér er því um stefnumál að ræða. Hér er horfið inn á nýja braut að því er snertir ráðningu við sjúkrahús landsins, og hef ég þess vegna séð ástæðu til að gera málið að umtalsefni á þessum vettvangi og leita eftir rökum hæstv. heilbrmrh. fyrir þessari ráðstöfun hans.

Ég hygg, að bezta skýringin á málinu sé sú, að ég — með leyfi hæstv. forseta lesi bréf yfirlæknis fæðingardeildarinnar, Péturs H. J. Jakobssonar, til stjórnarnefndar ríkisspítalanna, en hún hafði beðið hann að segja álit sitt á þeim þremur umsóknum, sem bárust. Bréfið hljóðar þannig:

„Þann 4. febr. 1956 voru mér sendar til umsagnar þrjár umsóknir um stöðu yfirljósmóður við fæðingardeildina. Umsækjendur eru allar útskrifaðar frá ljósmæðraskóla Íslands og enn fremur frá Jordmoderskolen på Rigshospitalets födeafdeling B í Kaupmannahöfn. Allar hafa þær starfað árum saman við ljósmóðurstörf, og bera þess vitni umsóknir og fylgiskjöl sem hér segir:

1) Frú Bjarnfríður Einarsdóttir, Langholtsvegi 135, Reykjavík. Hún gefur ekki upp aldur og ekki heldur hvenær hún hóf ljósmóðurstörf. Umsókninni fylgja engin meðmæli né fylgiskjöl.

2) Ungfrú Guðrún Magnúsdóttir, Gautaborg, Svíþjóð. Hún er 37 ára gömul og lauk námi við húsmæðraskólann á Hallormsstað, áður en hún lauk námi í ljósmæðraskóla Íslands 1945 með 1. einkunn. Síðan starfaði hún við fæðingardeild landsspítalans sem aðstoðarljósmóðir, þangað til hún sigldi til Noregs og Danmerkur 1949 og stundaði þar framhaldsnám í upp undir eitt ár. Var hún þá fjóra mánuði á Rigshospitalets födeafdeling A á sérstöku námskeiði við stundun sængurkvenna og barna. Síðan starfaði ungfrú Guðrún í fjögur ár sem aðstoðarljósmóðir við nýju fæðingardeildina, en sigldi þá aftur til Danmerkur og starfaði sem ljósmóðir í 11 mánuði á Fröken Rogves födeklinik í Kaupmannahöfn. Loksins stundaði hún í eitt ár nám við danska ljósmæðraskólann og lauk þar fullnaðarprófi 27. sept. 1955 með 1. ágætiseinkunn. Undanfarna tvo mánuði hefur hún síðan starfað við Sahlgrenska sjukhuset í Gautaborg.

3) Ungfrú Magnea G. Guðnadóttir, Reykjavík. Hún er 33 ára gömul og lauk námi við húsmæðraskólann í Staðarfelli og héraðsskólann á Laugarvatni, áður en hún hóf nám í ljósmæðraskóla Íslands 1945. Fullnaðarprófi lauk hún þaðan 1946 með 1. einkunn. Eftir það var hún umdæmisljósmóðir í Austur-Landeyjahrepp í sex ár eða þangað til vorið 1952, að hún sigldi til Danmerkur. Starfaði hún þar sem ljósmóðir í sjö mánuði á Fröken Fiehns födeklinik í Kaupmannahöfn, og síðan stundaði hún nám á danska ljósmæðraskólanum í marz og apríl 1953, en sama haust hóf hún eins árs nám á sama skóla og lauk þaðan fullnaðarprófi 28. sept. 1954 með 1. einkunn. Enn stundaði hún þar nám áfram í tvo mánuði og starfaði síðan í fjóra mánuði sem ljósmóðir við fæðingardeild Sundsvallslasarett í Svíþjóð. Loksins kynnti ungfrú Magnea sér störf og fræðslu ljósmæðra í Finnlandi um eins mánaðar tíma. Undanfarna átta mánuði hefur hún starfað sem aðstoðarljósmóðir við fæðingardeild landsspítalans.

Samkvæmt því, sem fyrr er ritað, get ég ekki séð, að frú Bjarnfríður geti gegnt yfirljósmóðurstörfum. Ungfrú Magnea Guðnadóttir hefur að undanteknum sínum námstíma ekkert unnið hérlendis á fæðingardeild nema undanfarna átta mánuði, og erlendis hefur hún mun skemmri starfstíma en ungfrú Guðrún Magnúsdóttir. Það þarf mikla reynslu til þess að taka að sér umsvifamikið starf á deild með hátt á annað þúsund fæðingar. Ungfrú Guðrún hefur nú starfað árum saman hér á deildinni með sérstakri samvizkusemi og öðlazt mikla reynslu í starfi sínu. Hún hefur 1. ágætiseinkunn frá danska ljósmæðraskólanum og hefur fengið sérstök meðmæli frá prófessor Brandstrup. Hún er sérstaklega vel liðin af öllu starfsfólki deildarinnar og einkar traust til samstarfs og samvinnuþýð. Ég vil eindregið leggja til, að ungfrú Guðrúnu Magnúsdóttur verði veitt yfirljósmóðurstaðan.

Virðingarfyllst.

Pétur H. J. Jakobsson.“

Samkv. þessu gerði stjórnarnefnd ríkisspítalanna einróma að tillögu sinni, að ungfrú Guðrúnu Magnúsdóttur yrði veitt staðan. Engu að síður veitti hæstv. heilbrmrh. Magneu G. Guðnadóttur stöðuna nú nýlega. Hér er um tvo umsækjendur að ræða fyrst og fremst. Út frá hvaða sjónarmiðum ætti nú að meta hæfni umsækjendanna til að gegna starfinu?

Við skulum segja, að fyrst beri að líta á starfstímann. Önnur, ungfrú Magnea, hefur átta mánaða starfstíma við fæðingardeild hérlendis. Ungfrú Guðrún hefur átta ára starfstíma. Engu að síður er ungfrú Magneu veitt staðan. Í öðru lagi er um að ræða reynsluna, sem þær hafa til að gegna starfinu. Um hana er það að segja, að ungfrú Magnea var sex ár yfirljósmóðir í Austur-Landeyjahreppi. Samkv. skýrslu hagstofunnar fæddust á þessum sex árum í allri Bergþórshvolssókn 47 börn, en Austur-Landeyjaumdæmi, sem var hennar umdæmi, er ekki öll sóknin, enda fékkst hún jafnframt við barnakennslu full tvö ár af þeim sex árum, sem hún gegndi yfirljósmóðurstarfinu. Sum árin fæddust aðeins fjögur börn í allri Bergþórshvolssókn. Á sömu sex árum fæddust 8430 börn á landsspítalanum, en þar var Guðrún ekki aðeins í sex ár, heldur í átta ár. Þannig er samanburðurinn á reynslu þessara tveggja kvenna.

Þá mætti enn fremur líta á próf þeirra. Þær hafa lokið hliðstæðum prófum, þó með þeim mun, að Guðrún hefur hlotið ágætiseinkunn á ljósmæðraskólanum í Kaupmannahöfn, en það kemur mjög sjaldan fyrir við þá stofnun, enda hefur hún hlotið alveg sérstök meðmæli prófessors Brandstrups, sem ég hef hér einnig afrit af.

Að síðustu mætti svo um það spyrja, hver hefði fullkomnust meðmæli. Það leikur ekki á tveim tungum, að meðmælin með Guðrúnu eru fullkomin. Þau eru eindregin frá yfirlækni deildarinnar, þau eru eindregin frá stjórnarnefnd ríkisspítalanna, auk þess sem hún hefur meðmæli frá þeim erlendum aðilum, sem hún nú starfar hjá.

Ég get því ekki annað séð en að hér hafi veitingarvaldinu verið misbeitt og það ekki óverulega. Þar sem hér er um að ræða nýmæli á því sviði, sem hér um ræðir, taldi ég rétt að fá að heyra rök hæstv. ráðherra fyrir gerð hans í þessu máli.