07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (2824)

170. mál, yfirljósmóðurstarf

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Við getum öll verið ánægð, ef réttlætinu er fullnægt, og ég efast ekki um, að hv. fyrirspyrjandi hefur það helzt í huga. En ég vil segja, að það mætti vekja hér upp marga drauga, ef farið væri að rifja upp og athuga allar embættaveitingar í landinu, frá því að við öðluðumst sjálfstæði. Það gæti meira að segja verið, að þessi hv. fyrirspyrjandi gæti höggvið nokkuð nærri sjálfum sér eða sínum flokksbræðrum.

Hins vegar hlýtur svo að vera, úr því að ákveðið er í lögum, að ráðherra hafi veitingarvaldið, að hann hafi það vald til þess að meta og vega, hver á að fá starfið. Ég álít, að það sé skylda ráðherra að veita ekki starf öðrum en þeim, sem er talinn hæfur til starfsins af sérfróðum mönnum, sem spurðir eru ráða.

Um starfið, sem hér er spurt um, var um þrjá umsækjendur að ræða. Stjórnarnefnd ríkisspítalanna var spurð, deildarlæknir fæðingardeildarinnar var spurður, og landlæknir, sem er formaður stjórnarnefndarinnar, var þess vegna einnig spurður.

Hv. fyrirspyrjandi las hér upp bréf frá deildarlækninum, Pétri Jakobssyni. Læknirinn telur, að einn umsækjandinn komi ekki til greina, en tveir umsækjendurnir séu þannig, að milli þeirra megi velja. Hins vegar telur deildarlæknirinn, að hann mæli eindregið með öðrum umsækjandanum fremur, vegna þess, hversu vel hann þekkir hana, vegna þess, hversu lengi hún hafi unnið á fæðingardeild landsspítalans, og einnig vegna þess, að þessi stúlka hafi kynnt sig vel og ágætlega í öllum sínum störfum og hafi hin ágætustu meðmæli. Það er fjarri mér að vera að kasta nokkurri rýrð á þann umsækjanda, á þá stúlku, sem hafði öll meðmæli í fyllsta lagi. En það hafði einnig sú stúlka, sem fékk starfið. Pétur Jakobsson deildarlæknir telur hana hæfa. Ég hef rætt við deildarlækninn um þetta, og ég vissi vel, hvað ég var að gera, þegar ég veitti þetta starf. Ég vissi vel, að stúlkan var hæf og að deildarlæknirinn gat vel sætt sig við að vinna með þessari stúlku, þótt hann hefði kosið hina frekar, vegna þess að hann þekkti hana betur.

Það er talað um langan starfstíma hjá frk. Guðrúnu Magnúsdóttur. Það er rétt, hún hefur langan og lengri starfstíma á landsspítalanum en frk. Magnea. En hún hefur ekki lengri starfstíma alls. Frk. Magnea hefur unnið annars staðar, og hún hefur það fram yfir Guðrúnu, að hún hefur verið sjálfstæð ljósmóðir og þurft að vinna verkin á eigin ábyrgð í sex ár, enda þótt fæðingar í sveit séu færri en á fæðingardeild landsspítalans. Ég ætla, að ljósmæður í sveitum, sem verða að treysta á sjálfar sig, þar sem oft er erfitt að ná í lækni og ekki fyrr en seint, öðlist nokkra reynslu fram yfir hinar, sem alltaf eru við hlið læknisins.

Ég tel, — það er kannske ljótt að segja það, — að það sé hræsni að vera að tala um, að hér hafi veitingarvaldinu verið misbeitt, að hér hafi verið brotin regla, að hér hafi verið farið inn á einhverja nýja braut, sem áður er óþekkt. Þetta er skinhelgi, þetta er hræsni. Þessi hv. þm. veit betur, hvað hefur tíðkazt í embættaveitingum hér á landi undanfarið. Og það er alveg víst, að ráðherra hefur veitingarvaldið. Ef ráðherra verður alltaf að fara eftir því, sem þeir, sem aðspurðir eru um meðmæli, helzt leggja til, þá er veitingarvaldið raunverulega ekki hjá ráðherra. Veitingarvaldið er ekki hjá heilbrmrh., ef hann verður að fara eftir tillögum stjórnarnefndar ríkisspítalanna og landlæknis. Ráðh. verður að ganga úr skugga um, að hann skipi ekki í starfið annan en þann, sem er hæfur og getur gegnt því vel og fullkomlega. Og þannig er þessi kona, sem hefur fengið yfirljósmóðurstöðuna við fæðingardeild landsspítalans.

Hv. fyrirspyrjandi var að tala um meðmælin hér áðan, að meðmælin, sem frk. Guðrún Magnúsdóttir hefði, væru miklu fullkomnari en þau meðmæli, sem frk. Magnea hefur. Báðar þessar stúlkur hafa hin fullkomnustu meðmæli, prýðileg meðmæli. Ég nenni ekki að lesa þau upp, en þau eru ekki færri hjá frk. Magneu, og þau eru ekki lakari.

Ég ætla, að það sé ástæðulaust að hafa þessi orð öllu fleiri. En í sambandi við 3. lið fsp. má geta þess, að í sambandi við landsspítalann hafa ráðherrar yfirleitt ekki veitt mörg embætti. Ráðherra hefur aðeins fjallað um fáar starfsmannaráðningar við ríkisspítalana. Yfirlæknisstörfin, sem um leið eru prófessorsstörf, veitir menntmrh., sbr. Eystein Jónsson núverandi fjmrh., sem veitti yfirlæknisstarf við lyflæknisdeildina 1947. Það getur vel verið, að hann hafi farið nákvæmlega eftir tillögum háskólaráðsins, ég man það ekki. Það mætti kannske líka tala um veitingu prófessorsembættisins fyrir styrjöldina, sem Haraldur Guðmundsson veitti. Það getur vel verið, að hann hafi farið þar eftir áliti meiri hluta þeirrar n., sem mælti með embættinu. Hv. fyrirspyrjandi getur rannsakað það í bókum sínum. Annars verð ég að segja, að síðan ég varð ráðherra, hef ég veitt mörg embætti, og það hefur gengið árekstralítið. Samvinna milli mín og landlæknis hefur yfirleitt verið góð. Ég man þó, að í sambandi við héraðslækninn á Selfossi fór ég alveg gegn tillögum landlæknis, og hv. 1. landsk. sá ekki ástæðu til þess að gera fsp. til mín út af því.

Ég held, að ég hafi þessi orð ekki fleiri. Ég tel, að það sé vel, að frk. Magneu hafi verið veitt yfirljósmóðurstaðan við fæðingardeild landsspítalans, enda þótt hinn umsækjandinn, frk. Guðrún Magnúsdóttir, hefði að sjálfsögðu einnig verið ágæt.