07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (2825)

170. mál, yfirljósmóðurstarf

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp. minni, þó að ég viðurkenni með engu móti, að hann hafi réttlætt þessa ráðstöfun sína í ræðu sinni eða flutt fram rök fyrir henni.

Ég sagði áðan, að ég hefði hreyft málinu vegna þess, að hér væri um nýmæli að ræða, og það staðfesti hæstv. ráðherra. Það hefur ekki komið fyrir áður, að ráðherra hafi gripið þannig inn á starfssvið yfirlæknanna við ríkisspítalana að „skikka“ þeim aðstoðarmenn. Hingað til hefur það verið talið sjálfsagt og er líka sjálfsagt, að yfirlæknar spítalanna fái að ráða starfsfólki sínu. Þeir eiga að bera ábyrgð á störfum þess, og þeir eru dómbærastir um, hverjir eru hæfastir til þess að gegna störfunum. Það er ekki hæstv. heilbrmrh., sem vakinn er upp á nóttunni, ef vandræði ber að höndum á spítölunum, svo að ég noti orð, sem hann mun sjálfur hafa heyrt af hálfu þeirra manna, sem hlut eiga að máli þarna. Það eru yfirlæknarnir, og það eru þeir, sem verða að bera ábyrgð á því starfsfólki, sem þar er starfandi, en ekki ráðherrann. Það er þessi regla, sem nú virðist eiga að fara að breyta, og það er þess vegna ástæða til að stinga við fótum. Ráðherrann lagði áherzlu á, að hann hefði veitingarvaldið. Um þessi störf hefur það hingað til verið form eitt, að ráðherra hefur skrifað undir veitingarbréfið til æðstu starfa á spítölunum. Það hefur aldrei komið fyrir og engum dottið í hug, að það gæti komið fyrir, að ráðherra sendi inn á ríkisspítalana annað starfsfólk en það, sem yfirlæknar óskuðu eftir að þangað kæmi.

Hæstv. ráðh. lagði áherzlu á, að honum bæri ekki skylda til annars en að veita störfin þeim, sem væru hæfir. Ég vil segja: Honum ber skylda til að veita þau þeim, sem eru hæfastir. Í þessu máli getur engum manni með heilbrigða dómgreind blandazt hugur um, að af þeim tveimur, sem til greina komu, var ungfrú Guðrún miklu hæfari en sú, sem veitt var starfið, hvort sem litið er á starfstíma, reynslu, próf eða meðmæli. Ráðherrann leggur áherzlu á vald sitt í þessu sambandi. Hann gleymir því, að honum ber skylda til að sjá svo um, að þau störf, sem undir hann heyra, hljóti þeir, sem eru hæfastir til að gegna þeim, að þeir, sem eru hæfastir, séu ekki sniðgengnir við veitinguna, því að hvernig á annars að tryggja, að þeir, sem hæfastir eru, haldi áfram að búa sig undir störfin, ef þeir geta átt von á þvílíkri meðferð eins og hæfasti umsækjandinn hefur hér ómótmælanlega orðið að sæta?

Hæstv. ráðh. segir, að yfirlæknirinn hafi talið ungfrú Magneu hæfa. Um það hefur yfirlæknirinn ekkert sagt í umsögn sinni. Hann hefur aðeins sagt, að hún hafi tilskilin próf. Jafnvel þó að hún væri hæf, sem ég skal ekki draga í efa, þá er það ekki mergurinn málsins, heldur hitt, að um starfið sótti önnur kona, sem var ómótmælanlega hæfari.

Ráðherrann sagði, að sú, sem starfið fékk, hefði unnið sjálfstæð störf. Ég gat þess áðan, að hennar sjálfstæðu störf voru þó ekki meiri en það, að hún stundaði í full tvö ár algerlega óskylt starf, barnakennarastarf. Hverjum dettur í hug að meta sjálfstæð ljósmóðurstörf við fæðingu 35–40 barna til jafns við það að vera starfandi yfirljósmóðir á landsspítalanum, þar sem á sama tímabili fæðast hátt á níunda þúsund barna?

Ég vísa því alveg á bug þeim ummælum hæstv. ráðh., að það hafi verið of stór orð af minni hálfu að segja, að veitingarvaldinu hafi hér verið misbeitt. Það hefur ekkert komið fram, sem hrekur þá umsögn mína. Því hefur verið misbeitt og það er alvarlegt, ef það táknar upphaf þess, að ráðherra ætli sér að halda áfram að „skikka“ yfirmönnum deildanna á ríkisspítölunum starfsmenn þeirra. Það er alvarlegt, ef það ástand skapast, að yfirmennirnir treysta sér ekki til þess að bera ábyrgð á störfum undirmannanna. Það er annað, þó að deila hefjist um störf sjálfra yfirmannanna, því að segja má, að þeir starfi á ábyrgð ráðherra, á ábyrgð sjálfrar heilbrigðisstjórnarinnar. En þegar deilur hefjast um starfsemi undirmannanna á spítölunum, sem starfa á ábyrgð yfirmannanna, þá er það alvarlegt, ef yfirmönnunum hafa verið sendir undirmenn, sem þeir vilja ekki og geta ekki borið ábyrgð á.