21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (2831)

179. mál, jarðhiti

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. landbrh. fyrir þær ýtarlegu upplýsingar, sem hann hefur hér gefið um þau atriði, sem fsp. fjallaði um. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan, geri ég mér fullkomlega ljóst, að hér er um mjög yfirgripsmikið mál að ræða, sem hlaut að taka langan tíma að ljúka við. Það er ljóst, að þessar athuganir hafa staðið alllengi, enda var okkur flm. þál. kunnugt um það, að hafin hafði verið athugun á ýmsum þessum greinum, þegar hún var flutt, en einmitt niðurstöður þeirra athugana bentu ótvírætt í þá átt, að eðlilegt væri og rétt að útfæra þær sem mest, þar sem líkur bentu til, að mjög miklir möguleikar væru hér fyrir okkur í sambandi við nýtingu jarðhitans.

Upplýsingar hæstv. ráðh. leiða glöggt í ljós, að það hefur verið unnið af jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar mjög gott verk í sambandi við þessi mál, og niðurstöður þeirra rannsókna sýna okkur ljóslega, að hér er um mjög fjölþætta möguleika að ræða í sambandi við jarðhitann, svo sem hæstv. ráðh. greindi frá í sinni ræðu.

Það kom fram í skýrslu hans, að það væri áætlað, að jarðhitanotkun í sambandi við hitaveitur sparaði þjóðinni nú þegar um 28 millj. kr. á ári. Er af þessu augljóst, hversu þýðingarmiklar hitaveiturnar eru, bæði hvað varðar gjaldeyrissparnað, sem er okkur auðvitað feikilega mikils virði, og enn fremur hitt, sem allir vita, er við hitaveitur búa, hversu geysimikil þægindi þar er um að ræða. Hér fer því þetta tvennt saman, að geta veitt fólki aukin þægindi, sem jafnhliða fylgi mikill sparnaður, og er því vitanlega sjálfsagt að nýta það svo sem kostur er á og leggja á það alla áherzlu að leitast við að hagnýta jarðhitasvæðin sem bezt í því skyni, að sem allra flestir landsmenn geti fengið notið jarðhita til upphitunar í húsum sínum.

Hæstv. ráðh. gat um það í sambandi við endurskoðun á löggjöfinni um jarðhita eða um setningu heildarlöggjafar í því efni, að hún hlyti að verða að byggjast á þeim rannsóknum, sem fram færu, og þeirri reynslu, sem við þær fengist. Ég er honum sammála um það og sé enga ástæðu til þess að vera að finna að því, að þetta hafi dregizt neitt úr hömlu hvað snertir bæði undirbúning löggjafarinnar og rannsóknarinnar að þessu leyti. En ég tel mikinn feng að því, að Alþ. skuli fá að kynnast, hvernig þetta mál nú stendur, og ég þykist mega segja það fyrir hönd allra hv. þingmanna, að það er vafalaust von þeirra eigi síður og jafnframt von allrar þjóðarinnar, að reynt verði, svo sem föng eru á, að hagnýta þessar dýrmætu orkulindir íslenzkrar náttúru til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar á sem allra flestum sviðum.