10.10.1955
Sameinað þing: 1. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

Minning Stefáns Stefánssonar

Aldursforseti (JörB):

Áður en störf þessa fundar hefjast að nýju, vil ég minnast nokkrum orðum látins fyrrverandi þingmanns, Stefáns Stefánssonar í Fagraskógi. Hann andaðist í sjúkrahúsi hér í bænum í fyrradag, laugardaginn 8. október, 59 ára að aldri, eftir langvinna vanheilsu.

Stefán Stefánsson fæddist í Fagraskógi á Galmarströnd í Eyjafjarðarsýslu 1. ágúst 1896. Faðir hans var Stefán Baldvin alþingismaður og bóndi þar Stefánsson prests, síðast á Hálsi í Fnjóskadal, Árnasonar, en kona Stefáns alþingismanns og móðir Stefáns yngra var Ragnheiður Davíðsdóttir prófasts á Hofi í Hörgárdal Guðmundssonar.

Hann brautskráðist úr menntaskólanum í Reykjavík 1918 og lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1923, gerðist þá fulltrúi bæjarfógetans í Reykjavík og gegndi því starfi til 1925, en þá reisti hann bú í Fagraskógi að föður sínum látnum og bjó þar rausnarbúi til æviloka. Um skeið, eftir að hann kom norður, gegndi hann fulltrúastarfi hjá bæjarfógetanum á Akureyri, en helgaði sig brátt að mestu bóndastarfinu einu saman, hafði þó á hendi, auk þingmennsku í samtals rúman áratug, hreppsstjórn frá 1926 og átti sæti í sauðfjársjúkdómanefnd frá 1943. Hann var landskjörinn þingmaður 1937–1942 og 2. þm. Eyfirðinga frá hausti 1947 til 1952, en varð að hverfa af þinginu og láta sæti sitt í hendur varamanni 1951 sakir heilsubrests, sem hann hafði kennt alllengi, en þá var mjög tekinn að ágerast. Alls sat hann á 14 þingum.

Stefán Stefánsson var umsvifamikill bóndi og bar mjög fyrir brjósti hag bændastéttarinnar. Orð er á því gert, hvílíkt karlmenni hann var og hamhleypa til vinnu, að hverju sem hann gekk, meðan hann hélt heilsu. En eins og á var drepið, laust hann á miðjum aldri, fyrir nærfellt tíu árum, fátíður sjúkdómur, sem ekki varð bót á ráðin, en elnaði smám saman, unz til bana dró, og olli honum, þegar fram í sótti, miklum líkamlegum og andlegum þjáningum.

Stefán Stefánsson var áhugasamur um stjórnmál og héraðsmál, og honum var létt um, meðan heilsan leyfði, að setja fram skoðanir sínar í ræðu. Á þingi þótti hann athugull og tillögugóður í almennum málum, en þar var hann þó framar öllu ötull talsmaður stéttarbræðra sinna, bænda landsins Hann var maður vel gefinn, fyrirmannlegur og fríður sýnum, trygglyndur og vinsæll.

Ég vil biðja þingheim að votta minningu þessa merka bónda virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingheimur reis úr sætum.]