03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hér var rætt mikið um bátagjaldeyrinn í gærdag. Mætti þess vegna ætla, að ekki væri ástæða til þess að fara nú utan dagskrár að ræða um hann.

Það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan um stöðvun á sölu á bátagjaldeyri, held ég að geti tæplega komið til greina, vegna þess að ég hef ekki orðið var við, að innflytjendur hafi kvartað um, að þeir hafi ekki fengið keyptan bátagjaldeyri. Hins vegar vil ég benda hv. 2. þm. Reykv. á að lesa þingsköpin. Þau mæla fyrir um, hvernig fyrirspurnir skuli lagðar fram hér í hv. Alþ., og þegar hann hefur gert það, þá mun ég vitanlega svara þessu eða einhver annar hæstv. ráðh.