03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að hvað snertir fyrirspurnirnar, sem ákveðið er um í þingsköpunum, þá leggja þær á herðar ráðh. ákveðna skyldu til þess að svara. Réttur þm. til þess að kveðja sér hljóðs og þar með líka ef þeir álíta, að þeir þurfi að koma fram með fyrirspurn utan dagskrár, er í engu skertur með núverandi þingsköpum. Hitt er rétt, að það er þá bara komið undir velvilja viðkomandi ráðh., hvort hann kýs að svara þeim fyrirspurnum, sem fram koma utan dagskrár. Hann. er hins vegar skyldur til þess, þegar þær eru fluttar samkvæmt þingsköpum, en meira að segja þá skyldu hafa ráðh. látið undir höfuð leggjast að rækja.

Hér var rætt um bátagjaldeyri í gær, og það var kvartað yfir, að það gengi illa með hann, og jafnvel talað um og það réttilega, að þetta kerfi væri að brotna saman. Nú í dag, strax í morgun, bregður svo við, að þeir menn, sem vilja kaupa bátagjaldeyrisskírteini hjá skrifstofu bátaútvegsins, fá þessi bátagjaldeyrisskírteini ekki keypt. Og ef hæstv. ráðh. hefur talað við einhverja slíka menn í morgun, þá mun hann hafa orðið var við það. Það getur hins vegar verið, að hann hafi ekki talað við þá. Það hefur ekki verið kvartað undan þessu nema þá viðvíkjandi einstökum löndum undanfarna daga. Nú í morgun hins vegar virðist þetta allt í einu vera almennt og er tekið sem eins konar reiðarslag hér, því að menn búast þá við öllu mögulegu og óvæntu. Við verðum að gá að því, að það er gengið þannig frá þessum bátagjaldeyrisskírteinum, að Alþ. hefur raunverulega ekkert um þau að fjalla. Það er ekki til lagabókstafur um þau beinlínis, heldur er reglugerðin um þau og þar með alla þá álagningu, sem í þeim felst, gefin út samkv. að mörgu leyti mjög hæpinni heimild í lögum. En það sem enn verra er, það er hægt er að breyta hvaða dag sem vera skal án þess að spyrja Alþingi þeim reglum, sem gilda um bátagjaldeyrisskírteinin. Það er hægt með sama rétti og ríkisstj. nú hefur tekið sér til þess að gefa þau út að hækka þau úr 60 upp í 100 eða hvernig sem vera skal og að teygja þau yfir fleiri vörutegundir.

Ég held þess vegna, að það sé mjög slæmt, að það skuli ekki einmitt fást nú undireins alveg greið svör um það, að ekki sé fyrirhuguð nein breyting í þessu sambandi, að ríkisstj. hafi ekki á prjónunum að breyta nú næstu dagana reglugerð um þetta. Það hefði verið mjög æskilegt að fá þá yfirlýsingu. Það hefði kveðið niður allan ótta um slíkt. En hitt hefði þó náttúrlega verið enn betra, ef hæstv. ráðh. hefði getað sagt, að þetta hlyti að vera bara einhver töf hjá viðkomandi skrifstofu. En sannleikurinn er, að meira að segja það væri engin afsökun. Almenningur í landinu og þeir, sem hafa viðskipti við menn, eiga ákveðinn rétt, og það stendur ekki á bönkunum að afgreiða. Það er sú skrifstofa, sem á að sjá um að afgreiða þetta, og þeir menn, sem á þessari skrifatofu eru, segja bara: Nei, nú afgreiðum við ekki skírteinin. — Það eru einhver takmörk fyrir, hvernig hægt er að meðhöndla almenning, ekki sízt af mönnum, sem fá sérréttindi eins og aðalsmenn til þess að skattleggja almenning. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að við óskum hér eftir skýringum á þessu. Ég tek hins vegar hæstv. ráðh. alveg trúanlegan, að hann viti ekki neitt um þetta. En þá er ástandið í þjóðfélaginu orðið þannig, að aðalskattheimtumenn þjóðfélagsins nú á tímum, sem sé þeir aðalsmenn, sem hafa með það að gera að innheimta þarna þessi sérstöku fríðindi, haga sér eins og þeim þóknast og láta ekki einu sinni ríkisstj. vita. Mér finnst þetta ástand vera farið að nálgast ískyggilega mikið stjórnleysi.