07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli hv. þdm. á ákveðnum hlut, sem hefur gerzt og ég raunar hef nokkuð oft gert hér að umræðuefni. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar er svo mælt fyrir, að engan skatt megi leggja á nema með lögum, og þegar talað er um skatt í þessu efni, er átt við tolla og allt annað slíkt. Í þeim lögum, sem samþykkt voru um skipan innflutningsmála, gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o.fl., er tekið fram í 1. gr., að ríkisstj. hafi heimild til að setja skilyrði um innflutning og gjaldeyrissölu, sem nauðsynleg kunni að verða vegna viðskiptasamninga eða af öðrum ástæðum, svo sem til stuðnings atvinnuvegunum eða einstökum greinum þeirra. Samkvæmt þessari mjög svo víðtæku heimild í 1. gr. hefur verið gefin út reglugerð um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna, og í þeirri reglugerð er ákveðnum aðilum í landinu veittur einkaréttur til þess að selja innflutningsleyfi fyrir ákveðnar vörutegundir.

Nýlega vakti ég athygli á því, og þá í sameinuðu þingi, að það hefði verið stöðvuð sala á þessum skírteinum, og mér virtist þá hæstv. ríkisstj. koma þetta nokkuð á óvart. Nú vildi ég leyfa mér hér utan dagskrár, af því að þetta mál þolir enga bið, að spyrjast fyrir um það, og vil taka það fram, að þó að þær almennu skriflegu fyrirspurnir, sem ráðherrum er skylt að svara, séu hugsaðar fyrir sameinað þing og ætlaðar fyrir það, þá hafa þingmenn alltaf rétt til þess að bera fram fyrirspurnir, hvar sem þeir vilja og hvenær sem þeir vilja, þótt ráðherrum hins vegar beri ekki skylda til að svara þeim, nema þær séu bornar fram í Sþ. Hins vegar hefur komið fyrir, að ráðherrum hefur haldizt uppi að svara ekki slíkum fyrirspurnum.

Nú vildi ég, af því að síðan ég bar fram þessa fyrirspurn á fimmtudaginn var, er það nú orðið opinbert, að þeir, sem hafa með bátagjaldeyrisskírteinin að gera; eru búnir að hækka gjaldið fyrir skírteinin, leyfa mér að spyrja hæstv. viðskmrh., fyrst hann er hér: Er þetta gert með leyfi ríkisstj. og í samráði við hana, eða er það komið svo, að þeir menn eða þeir aðilar, sem ríkisstj. afhendir einkarétt til innflutnings eða til að veita innflutningsleyfi fyrir ákveðnum vörum, fái frá ríkisstj. einkarétt til að leggja á eins og þeir vilja? Það er vitanlegt mál, að formlega mun þetta horfa þannig við, að þessir menn hafa fengið þennan einkarétt frá ríkisstj. samkvæmt þessari mjög hæpnu lagabeimild og reglugerðarákvæðunum, svo að eftir að lögin um verðlagseftirlitið og verðlagsákvörðunina voru raunverulega afnumin að mestu leyti, virðast þessir menn hafa rétt til þess að leggja á eins og þeim þóknast. Hins vegar hefur hingað til verið gengið út frá því, að þessir menn ákvæðu ekki prósenttöluna, sem þeir legðu á, þegar þeir seldu skírteinin, nema í samráði við ríkisstjórnina. Ég nú vil ég leyfa mér að spyrja: Er komið svo, að þessir embættismenn, sem ríkisstj. hefur útnefnt til þessa, geti leyft sér að leggja á eins og þeir vilja, eða eru einstakir embættismenn ríkisstj. farnir að taka sér það vald að leggja á í trássi við hana eða til þess að beygja hana á eftir undir þeirra ákvarðanir? Það er ekki að ófyrirsynju, að það er spurt, hvers konar stjórnarfar þetta sé.

Ég sé að vísu í Morgunblaðinu, að hæstv. forsrh. ræðir um þetta við Morgunblaðið án þess að segja samt nokkuð um, hvort ríkisstj. hafi lagt blessun sína yfir þetta, og færir þar ýmis rök fyrir, að hann álíti, að það sé nú kannske ekki óeðlilegt, að þessir aðilar hækki sitt gjald. Ég vil hins vegar benda honum á um leið, að ekki er alveg óhugsandi, að sjómenn líti margir svo á, sem á bátum vinna, að þeim beri hækkað fiskverð; þegar gjaldið á bátagjaldeyrisskírteinunum er hækkað; og það geti haft sínar afleiðingar viðvíkjandi kaupkröfum og öðru slíku. M.ö.o.: Það er ekkert óeðlilegt, þó að við þingmenn viljum gjarnan fá að vita, hvað sé raunverulega lög og stjórn í þessu landi. Og ég þykist hafa alveg sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á þessu og bera fram fyrirspurnir um þetta, því að ég hef hér í mörg ár varað við því fyrirkomulagi, sem var tekið upp viðvíkjandi bátagjaldeyrinum, fyrst meðan hann var algerlega ólöglegur og var innheimtur í um tvö ár, án þess að nokkur lagabókstafur væri fyrir því, og síðan nú, eftir að hann að vísu byggist á nokkuð hæpinni lagagrein, en á aðferðum, sem nú sýna sig að gefa einstökum aðilum í landinu ótakmarkað vald til skattálagningar á almenning. Þegar það svo stendur í stjórnarskránni, 40. gr., að ekki megi leggja skatt á nema með lögum, þá vil ég vekja athygli hv. deildar á því, hvar komið er, þegar ríkisstj. er búin að afhenda einstökum aðilum í landinu vald til þess raunverulega að leggja á tolla eða skatta eins og þeim þóknast, jafnvel án þess að ríkisstj. fái þar við ráðið.