07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. 2. þm. Reykv. gat um, hefur því nú verið lýst yfir opinberlega, að álag á bátagjaldeyrí hefur verið hækkað mjög verulega, eða um 16–17% á sterlingspund og dollar og um 40% á clearing-gjaldeyri. Þegar spurzt var fyrir varðandi þetta mál hér á Alþ. á fimmtudaginn var, hafði hæstv. viðskmrh. furðulega litlar upplýsingar að gefa um málið, og var helzt á honum að skilja, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki neina hugmynd um, hvað hér væri á ferðinni. Nú mun hún þó hafa aflað sér einhverra upplýsinga um þetta mál, og kemur það m.a. fram í Morgunblaðinu í gær í viðtali, sem blaðið átti við hæstv. forsrh.

Enn er reynt að halda því fram í málgögnum hæstv. ríkisstjórnar, að það séu útgerðarmenn einir, sem hafi tekið þessa ákvörðun um stórhækkað bátagjaldeyrisálag án alls samráðs við hæstv. ríkisstj. og jafnvel algerlega að henni forspurðri. Ég verð að taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., að mér þykir það næsta furðulegt, ef svo er. En sé svo, að þetta sé gert að hæstv. ríkisstj. forspurðri og af útgerðarmönnum einum, þá langar mig til að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún hefur ekki hugsað sér að gera eitthvað í þessu máli, hvort hún ætlar að láta það með öllu afskiptalaust.

Ég fæ ekki betur séð, ef hún gerir það, heldur en hún taki þá á sig fulla ábyrgð á þessari ráðstöfun og samþykki hana þar með með þögninni. Jafnframt vil ég mjög eindregið beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún telji ekki algerlega sjálfsagt og óumflýjanlegt, ef þessi ráðstöfun verður látin haldast, að sjómenn fái sinn hlut í auknum bátagjaldeyri með hækkuðu fiskverði.