07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla enga að hrella með fyrirspurnum. Ég ætla aðeins að skýra frá því, að samkvæmt símtölum manna úr verkalýðshreyfingunni víðs vegar um land núna um þessa helgi, síðan þessi tíðindi spurðust, að fámennur hópur útgerðarmanna hér suður í Reykjavík hafi breytt bátagjaldeyrisálaginu, að því er virðist eftir upplýsingum hæstv. forsrh. á eigið eindæmi, vildi ég láta það í ljós, einnig af því, sem fram kom á verkalýðsfélagsfundi hér á Suðurnesjum í gær, sem ég var á, að það eru talin mikil firn, að svona hlutir skuli geta gerzt, og mér er af þessu ljóst, að verkalýðshreyfingin lítur mjög alvarlegum augum á það, sem hér er um að ræða.

Ég fæ ekki betur séð en að þarna virðist það vald liggja í höndum fárra manna að breyta skráningu á íslenzka genginu án afskipta Alþingis og án samráðs, að því er virðist, við ríkisstjórn landsins. Ég hygg, að þetta séu alvarlegri hlutir en menn geri sér ljósa í fljótu bragði, og virðist þá svo sem fólk úti um land í verkalýðshreyfingunni hafi vaknað eins og við vondan draum, þegar þessi frétt barst, og þykir mér allar líkur benda til þess, að verkalýðshreyfingin láti til sín taka út af þessu, ef hæstv. ríkisstj. ekki á einhvern hátt ber þarna klæði á vopn, svo að ekki hljótist ófriður af.