07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér kemur ekki á óvart, þó að menn hreyfi þessu máli og óski skýringa. Ég sé mér ekki fært í stuttu máli að gefa gleggri skýringar en ég gerði í stuttu viðtali, sem Morgunblaðið átti víð mig og er prentað í blaðinu í gær. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, aðeins lesa upp meginkjarna málsins úr því, því að ég hygg, að það skýri betur aðstöðuna en ég að öðru leyti mundi gera í jafnstuttu máli. Þar segir:

„Þegar bátagjaldeyriskerfið var upp tekið snemma árs 1951, fengu útgerðarmenn fríðindi í sambandi við hálft andvirði bátaafurða, að undantekinni síld og þorskalýsi, og leyfi til þess að selja gjaldeyri með álagi, sem þeir réðu sjálfir. Þessi heimild til þess að ráða álaginu var fyrst og fremst miðuð við það, að gjaldeyririnn seldist. Af hálfu ríkisstjórnarinnar var þessi réttur til að ráða álaginu miðaður við það, að útgerðarmenn bæru sjálfir ábyrgð á, hvort gjaldeyririnn seldist eða ekki. Jafnframt var þeim skammtaður takmarkaður listi yfir vörur, sem ekki mátti kaupa fyrir annan gjaldeyri en hinn svokallaða bátagjaldeyri.

Þetta hefur í meginatriðum varðandi vörulista, álag og helmingsréttindi staðið til síðustu áramóta. Hins vegar hafa útgerðarmenn og einkum þó fiskkaupendur oft á þessu tímabili talið, að þeir yrðu að fá aukin réttindi til þess að fá staðizt hækkandi verðlag á fiskinum innanlands, þar sem fiskverð erlendis hefði ekki hækkað eða a.m.k. ekki tilsvarandi. Þessum kröfum var þó synjað, og höfðu menn þá jafnan í huga, að ef í harðbakka slægi, gætu breyttar aðstæður gefið bátagjaldeyriseigendum siðferðislegan rétt til þess að hækka álagið.

Um síðustu áramót ákvað svo ríkisstjórnin í von um bætt aflabrögð vegna friðunarráðstafana og í því skyni að berjast gegn því, að ný kauphækkunaralda rísi, að minnka bátagjaldeyrisfríðindin um 10% yfir vetrarvertíðina, þ.e.a.s. að lækka þann hluta aflamagnsins, sem gjaldeyrisfríðindin næðu til, úr 50% niður í 45% af heildarafla bátanna, að frádregnu lýsi og síld. Þannig stóð málið, þegar gjaldeyriseigendur nú fyrir skömmu tilkynntu ríkisstjórninni, að þeir ætluðu að hækka álagið á bátagjaldeyri.

Rökin, sem útgerðarmenn og gjaldeyriseigendur færðu fyrir þessu, voru í aðalatriðum þessi :1) Sú verðlagsstefna stjórnarinnar, sem lá til grundvallar skerðingu bátagjaldeyrisréttindanna, fór út um þúfur, þegar kaupgjald í landinu hækkaði eftir verkfallið á s.l. vori.

2) Að enda þótt verulegur hluti hraðfrysta fisksins væri þá kominn í hús, þá hefðu saltfiskur og skreið að mestu verið óverkuð. Hin mikla kauphækkun hefði þess vegna lent á þeirri framleiðslu.

3) Hækkandi fiskverð innanlands undanfarin tvö ár réttlætti a.m.k. að nokkru leyti hækkun álagsins, þó að ekki annað kæmi til.

4) Það væri vitað, að bátaflotinn kæmist ekki af með núgildandi fríðindi á næsta ári vegna kauphækkunarinnar á s.l. vori.

5) Yrði álagið ekki hækkað nú, mundu innflytjendur með hliðsjón af framangreindum ástæðum reyna að kaupa upp bátagjaldeyrinn og hækka svo vörurnar eftir áramótin í samræmi við það ástand, sem þá hefði skapazt.

Ýmis fleiri rök færðu útgerðarmenn fyrir málstað sínum, um leið og þeir tilkynntu ríkisstjórninni, að þeir mundu ekki hækka álagið að nýju varðandi bátagjaldeyrisfríðindin á framleiðslu ársins 1955, en eins og kunnugt er, er sala þess gjaldeyris ekki byrjuð enn þá.

Ríkisstjórnin viðurkennir að vísu þörf gjaldeyriseigenda fyrir auknar tekjur, en hún taldi eftir öllum atvikum rétt, að málið biði nánari athugunar og rannsóknar, enda þótt sá gjaldeyrir, sem hér ræðir um, nemi ekki nema 12–15% af innfluttum vörum til landsins.“

Ég sé enga ástæðu til að leyna hv. alþm. því, að ríkisstj. var mjög eindregið andvíg þessu. Hún hlaut eðli málsins samkvæmt að reyna að hindra þessa hækkun, og lagði á það ríka áherzlu, færði fram sín rök gegn þessari hækkun, það fór ekkert skriflegt á milli um þetta, en það var þó séð um, að þau væru í meginefnum bókuð í fundarbækur þeirra manna, sem um þessi mál fjalla. Og ríkisstj. lauk þeim rökum með því að benda gjaldeyriseigendum á, að þeir mundu skapa sér óvinsældir almennings í landinu og gera ríkisstjórninni einnig örðugleika, ef þessi hækkun væri látin fram fara, og taldi eftir öllum atvikum rétt, að málið biði, a.m.k. fyrst um sinn, meðan yfir stendur allsherjarrannsókn á atvinnuástandinu í landinu.

Ég verð hins vegar að viðurkenna, að mér er kunnugt um, að á undanförnum árum, ég held frá 1953, hafa þeir, sem fiskinn kaupa, hvað eftir annað leitt athygli að því, að þeir taki á sig meiri áhættu en eðlilegt sé, þegar þeir hafa þurft að hækka fiskverðið vegna innanlandsverðlags á fiski, án þess að tilsvarandi hækkanir yrðu í útlöndum. Og ég minni menn á þær upplýsingar, sem ég gaf hér á Alþ. s.l. miðvikudag, þar sem það kom fram, að fiskverð til sjómanna hafði á þessum tíma, sem bátagjaldeyrisskipanin hefur staðið, hækkað úr 75 aurum upp í kr. 1.22 kg af slægðum þorski með haus og aðrar tegundir hlutfallslega.

Spurningin var nú aðeins sú, hvort ríkisstj. treysti sér að girða fyrir þessa hækkun með algeru banni. Þeim embættismönnum, sem um þetta mál hafa fjallað fyrir bönd ríkisstj., í samráði við hana og með samþykki hennar, — ég undirstrika það, það er ekki verið að leggja sök hér á neinn annan, — var öllum ljóst, að þessi kvíðbogi, sem fiskkaupendur, hraðfrystihúsin, saltfiskskaupendur og skreiðarkaupendur, höfðu árlega látið í ljós, var barinn niður, ef það er rétt orð, eða úr honum var dregið með ábendingu um, að ef ástæður allar breyttust, hefðu gjaldeyriseigendur þó þennan varnagla að hækka álagið, þó ævinlega með það fyrir augum, að ekki mætti girða fyrir söluna á gjaldeyrinum.

Ég játa manna fúsastur, að þessi hækkun er mjög óæskileg. Ég mínni menn þó á, að það hlaut að vera öllum ljóst, að sú kauphækkun, sem fór fram í apríllok s.l., var líkleg til að draga dilk á eftir sér í þessum efnum sem öðrum. Ég tók til athugunar, hvort hægt væri á siðferðislegum grundvelli, eins og menn segja, að setja hér lög eða fara fram á, að þingið setti lög á einni nóttu, sem hindruðu þessa hækkun, en komst að þeirri niðurstöðu í samráði við þá menn, sem beint höfðu átt viðræður við útgerðarmenn um s.l. áramót, að þetta mundi ekki vera talið kleift eða a.m.k. mjög hæpið, að það yrði þá ekki skoðað sem brigðmæli af stjórninni.

Ef það er nú rétt, að að óbreyttu verðlagi á fiski til sjómanna og að óbreyttu kaupgjaldi í landinu verði ekki hægt að halda áfram bátaútveginum með þeim fríðindum, sem þeir hafa notið, og óbreyttu álagi, eins og það var, þar til það nú hækkaði, þá má segja, að það sé kannske ekki meginatriði, hvort þessi hækkun fór fram nú eða t.d. um næstu áramót. Það má segja kannske, að það sé ekki meginatriði.

Ég skil vel þá andúð, sem kennir hjá mönnum gegn slíkri ráðstöfun. Ég skil það einkar vel, vegna þess að það hefur nú orðið mitt hlutskipti að eiga víðræður við þessa menn, sem gjaldeyrinn áttu, og leggja fram ýmis gagnrök gegn þeirra rökum. Og mér finnst þá ekkert undarlegt, þó að aðrir menn hugsi í þessum efnum á svipaðan hátt og ég gerði, þegar ég var að berjast gegn þessu. Ég minni þó menn bara á, að það kemur dagur eftir þennan dag. Sú stjórn, sem þá verður, og. Alþingi allt getur þurft að horfast í augu við það, hvernig á að halda sjávarútveginum gangandi eftir áramótin við það kaupgjald, sem hann á nú að búa, og við það afurðaverð, sem hann nýtur á erlendum markaði. Það er þess vegna rétt, þegar menn dæma þessar aðgerðir, að þeir hafi það hugfast, hvort líklegt sé, að útvegurinn verði rekinn eftir næstu áramót á ódýrari grundveili fyrir vörukaupendur eða neytendur í landinu en þetta nýja, hækkaða álag ber með sér. Ég tel rétt, að menn hugleiði þetta, áður en þeir dæma þá hart. Ég reyndi að hindra þetta og vildi með öllu móti afstýra því, meðan málið er í athugun, taldi ekki lagalega aðstöðu til að banna það og viðurkenni visst réttmæti þeirra raka, sem fram voru færð.