07.12.1955
Sameinað þing: 20. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég sé, að það muni vart verða úr því, að þær fsp., sem ég hef lagt fram, verði ræddar nú, enda óvíst, að sú fyrri þeirra, viðvíkjandi landhelgismálunum, hefði verið rædd á þessum fundi. Ég vil þess vegna leyfa mér hér utan dagskrár að segja nokkur orð um þetta, án þess að það skoðist sem nokkur fsp.

Mér er það ljóst, að það muni ekki verða úr því, að fsp. um landhelgina sé svarað, sökum þess að forsrh. sé erlendis, og ég verð að segja, að mér finnst það út af fyrir sig dálítið varhugavert, að forsrh. landsins skuli fara utan og það jafnvel hugsanlega til samninga við aðrar þjóðir, án þess að Alþingi og þjóð sé látin vita áður. Ég kann ekki við slíkar leyniferðir, og við höfum slæma reynslu af því hér á Alþingi, þegar slíkar ferðir eru farnar. Í tveim blöðum í bænum, Þjóðviljanum og Morgunblaðinu, hafa verið fluttar fréttir af samningum viðvíkjandi landhelginni, stuðzt við ýmist Fishing News eða fréttaritara í París, og í blaði forsrh., Morgunblaðinu, er sett að fyrirsögn spurningin um sættir, hvort sættir séu að komast á á milli Englendinga og Íslendinga viðvíkjandi löndunarbanninu og að Íslendingar skuldbindi sig til þess að gera ekki ráðstafanir viðvíkjandi stækkun friðunarlínunnar. Ég vil láta það alveg hiklaust og ótvírætt í ljós, að hverjir þeir samningar sem fram kunna að vera að fara um þessa hluti nú séu á engan hátt bindandi fyrir Alþingi eða þjóðina og gerðir að Alþingi og þjóðinni forspurðri. Ég álít, — og það held ég áreiðanlega að meiri hl. þjóðarinnar álíti, — að landhelgin sé ekkert samningamál fyrir okkur, friðunarlínan sé ekkert samningamál fyrir okkur, þar sé um að ræða rétt okkar Íslendinga sjálfra og okkar Íslendinga einna til þess að taka ákvarðanir. Og ég vil minna á, að þegar upphaflegu lögin voru samþykkt um friðunarlínuna, var því lofað, að það yrði aldrei neitt gert nema í samráði við alla flokka þings, og þó að þau loforð hafi ekki verið haldin, stendur samt sem áður sú stefna, að um þetta á að vera samráð allra aðila á Alþingi.

Ég vil enn fremur taka það fram viðvíkjandi þeim fréttum, sem fram hafa komið, og ég hef gert það hér áður viðvíkjandi löndunarbanninu, að okkur Íslendingum er enginn hagur í því, að þessu löndunarbanni sé aflétt. Brezka auðvaldið ætlaði að gera okkur illt, þegar það setti þetta löndunarbann á, en það hefur orðið okkur til góðs, og nú sem stendur hafa engir aðrir aðilar á Íslandi áhuga fyrir því að aflétta löndunarbanninu en þeir, sem vilja geta smyglað gjaldeyri út, eða þeir, sem vilja reyna að koma á atvinnuleysi á Íslandi.

Það er bezt, að þetta löndunarbann Breta fái að standa sem lengst sem dæmi um, hvernig sú Atlantshafsbandalagsþjóð hagar sér gagnvart minnstu þjóðinni í því bandalagi, hvernig hún reynir að kúga það, þó að vopnin snúist í höndum hennar. Ég álit þess vegna vera alveg fjarri lagi að láta fara að gera einhverja samninga við Breta, jafnvel þó að Evrópuráðið kunni að reyna að gangast fyrir slíku, og sízt af öllu að við förum að binda okkar hendur nokkurn skapaðan hlut í sambandi við slíka samninga.

En ég álít það óviðfelldið, svo að vægt orð sé notað, að það fáist ekki einu sinni talað um svona mál, og ef forsrh. landsins er erlendis í svona erindum, þá sé ekki falað einu sinni við Alþingi áður. Það er vika síðan ég bar þessa fyrirspurn fram og nægileg tækifæri af hálfu forsrh. til þess að koma með og gefa skýrslu hér á Alþingi um þessa hluti, og þau tækifæri hafa ekki verið notuð. En því vil ég lýsa yfir, að sé verið að gera einhverja samninga, sem eiga að binda Ísland í þessum efnum, þá álít ég það algert brot, ekki aðeins á öllum lögum gagnvart okkur þm., heldur líka á stjórnarskránni hvað snertir 21. gr., um kvaðirnar á landi og landhelgi. Mér þykir mjög leitt, að þetta mál skuli ekki fást rætt. Þetta er áreiðanlega það mál, sem þjóðin er mest sammála um af öllum málum, og mér þætti hart, ef það ætti nú líka að fara að koma aftan að henni í þessu sjálfstæðismáli, sem hún er öll sammála um, eins og gert hefur verið í öðrum sjálfstæðismálum, sem hún er meira skipt um.

Ég vil þess vegna mótmæla því, að nokkuð sé gert í þessum landhelgismálum, án þess að þing og þjóð hafi áður tækifæri til þess að leggja sinn dóm á aðgerðir í þeim málum. Ég kynni illa við, ef það ætti að taka þær aðferðir upp að láta okkur þm. standa frammi fyrir fullgerðum staðreyndum í þessum efnum og handjárna svo þingmennina á flokkatryggð á eftir.