07.12.1955
Sameinað þing: 20. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég er hæstv. forseta þakklátur fyrir það, að hann hefur hér heitið því, að þetta mál skuli verða rætt hér á Alþingi, og ég vænti þá, að slíkar umræður gætu t.d. farið hér fram í þinginu á morgun, því að það er full ástæða til þess að hraða umræðum um þetta mál, eins og það stendur nú, og í trausti þess skal ég aðeins segja hér örfá orð. Ég verð að segja, að það eru heldur einkennileg vinnubrögð í þessu máli, að eftir að fsp. hefur komið fram á Alþingi, fsp., sem eðlilega heyrir undir forsrh., um landhelgismálið, ef það er rétt, þá þjóti hann af landi brott án þess að svara Alþ. um þá fsp., sem lögð hefur verið fram, engar upplýsingar gefnar um það hér af hálfu ríkisstj., hvort svo er eða ekki. Sannast sagna virðist ákaflega einkennilegt, að forsrh. fari erlendis nú á þessum tíma, þegar aðeins nokkrir dagar eru til jóla og ekki ýkja margir dagar eftir fyrir Alþ. til þess að ljúka æði miklum störfum, nema stórmál kalli til. Það er því alveg full ástæða til þess að spyrja þann hluta ríkisstj., sem enn er eftir í landinu, og það munu væntanlega vera fimm ráðherrar, því að þeir hljóta líka að vita, hvað er að gerast í þessu máli, — spyrja þá um það, hvað stendur til í þessum efnum. Á að virða algerlega að vettugi vilja þingsins? Hér liggja fyrir tillögur, sem hvorki meira né minna en 16 alþm. standa að, um breytingar á friðunarlinunni kringum landið. Allir þingmenn af Austfjörðum og allmargir af Vestfjörðum og Norðurlandi standa að tillögum um þetta. Hins vegar virðist svo helzt ætla að verða ofan á, að samið verði við erlenda aðila um þessi mál og þá á þá lund, að komið verði gersamlega í veg fyrir, að nokkrar þær breytingar, sem þingmenn almennt óska eftir og landsmenn almennt óska eftir á friðunarlínunni, geti náð fram að ganga. — En ég skal sem sagt ekki hafa orð mín fleiri að þessu sinni í fullu trausti þess, að hæstv. forseti sjái um, að þetta mál verði rætt hér á þinginu og ríkisstj. hljóti þá að gefa skýrslu hér um málið, væntanlega á morgun.