05.01.1956
Sameinað þing: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég sé, að hæstv. forseti vill endilega, að ég svari einhverju. Það er tæplega, að mér þyki taka því. Ég álít, að hv. 4. þm. Reykv. geti lesið sín blöð, og þá sér hann allan sannleikann, eins og hann liggur fyrir, og þarf ekki að vera að spyrja.

En ef hann trúir mér betur en sínum blöðum, þá er frá því að segja, að ríkisstj. tilkynnti þann 30. des. útvegsmönnum, að hún sæi ekki fram á, að hægt væri að ljúka hinu umfangsmikla máli fyrir áramót, og gerði þá að tillögu sinni, að útgerðin yrði ekki stöðvuð, heldur yrði haldið áfram við óbreytt bátagjaldeyriskerfi og af ríkisstjórnarinnar hendi gefið fyrirheit um að viðurkenna það álag, sem nú er á því, til janúarloka í von um, að fyrir þann tíma mætti auðnast að binda endi á þetta mál, sem allir eru nú svo dæmalaust undrandi yfir að skuli ekki löngu vera búið að ráða til lykta.

Hins vegar get ég gefið honum þær upplýsingar, að togararnir halda yfirleitt áfram veiðum og hafa ekki gert neinar ákvarðanir um stöðvun, a.m.k. ekki í bili. Þeir, sem ekki hafa orðið að stöðva vegna fjárhagsvandræða, halda áfram sínum rekstri, eftir því sem ég bezt veit.

Ég vil svo segja þessum hv. þm., að ég tel ekki, að mér beri nein skylda til að afhenda honum nein þau plögg, sem ég fæ í hendur frá mönnum, sem ég hef kvatt eða ríkisstj. hefur kvatt sér til ráðuneytis og tekið fram í öndverðu, þegar þessi nefnd var sett, að þeirra störf skyldu skoðuð sem algert einkamál. Ég tel mig ekki hafa neina skyldu til þess að lána þau plögg eða tilkynna öðrum um það frekar en mér sýnist. Ég mundi að sjálfsögðu gera það, ef einhver í ríkisstj. óskaði eftir því, en ekki þó að stjórnarandstaðan vilji fá fregnir af þessu fremur en öðru, sem gerist í stjórnarherbúðunum.