05.01.1956
Sameinað þing: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnast nú þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. hefur gefið, þó að af skornum skammti séu, nægja til þess að sýna þeim þingmönnum, sem ekki hefðu verið sannfærðir um það fyrir fram, fram á, að þessi hæstv. ríkisstj. er ekki fær um að stjórna landinu. Það er orðið alveg auðséð, að það er ekki orðið nokkur stétt í landinu, sem ber traust til hennar. Maður veit, hvernig er hjá verkamannastéttinni, fjölmennustu stéttinni, það hefur sýnt sig. Og nú er svo komið, að atvinnurekendastéttin, sem þessi hæstv. ríkisstj. þó fyrst og fremst hefur talið sig fulltrúa fyrir, virðist ekki að neinu leyti hlíta hennar ráðum eða ríkisstj. vera fær um að ná samkomulagi við hana. Meira að segja hæstv. forsrh., sem sjálfur er tvímælalaust einhver mesti áhrifamaður hjá atvinnurekendum í sjávarútveginum, getur nú sem forsrh. þessarar stjórnar ekki einu sinni útkljáð þessi mál svo, að togararnir annars vegar gangi, þannig að það sé á einn eða annan hátt staðið undir því, að þeirra rekstur geti haldizt, og hins vegar er bátaflotinn bókstaflega stöðvaður af sjálfum atvinnurekendunum í þeirri atvinnugrein, ákvörðun tekin af samtökum atvinnurekenda um að stöðva bátaflotann. Það hefði eitthvað sungið í, ef það hefði verið af okkar völdum, sem þetta hefði verið ákveðið. En þegar það eru samtök, sem flokkur hæstv. forsrh. er mjög sterkur í, þá er ekki sagt sérstaklega mikið við því, og svo er jafnvel látið skína í, að það eigi kannske að láta bátaflotann stöðvast mikið til í janúar og þegar hann byrji kannske í febrúar, þá stöðvist hann út af vinnudeilum, af því að fiskverðssamningunum er sagt upp.

Ég verð að segja, að mér finnst þetta ekki nein vinnubrögð í að stjórna einu landi. Ég held, að það hefði mátt hafa ráð um að reyna að semja þannig á milli jóla og nýárs, að hægt væri að koma flotanum af stað, semja bæði þannig, að búið væri að semja við sjómennina og að búið væri að tryggja það, sem þyrfti af hálfu ríkisins. En það sér hver maður, að með því að láta þetta ganga svona, tapast meira með hverri vikunni sem þannig líður heldur en það, sem það kostar þjóðina á eftir að halda þessu uppi. Ég fæ þess vegna ekkert annað séð en að þetta leiði í ljós, hvílíkt algert öngþveiti stjórnarfarið er komið í, og er raunverulega undarlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki þegar vera búin að taka afleiðingunum af því.

Þá er viðvíkjandi þessu svokallaða áliti hagfræðinganefndarinnar. Það er nú orðið svo undarlegt, að hæstv. ríkisstj. er farin að afsaka sig með því, eftir að hún þó sjálf er búin að setja upp eða þeir flokkar, sem að henni standa, sérstakt kerfi, Framkvæmdabankann, til þess að hafa eftirlit með þjóðarbúskapnum og safna skýrslum um hann, þá er farið að afsaka sig með því, að það sé ekki hægt að finna ráð til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins, vegna þess að það vanti skýrslur viðvíkjandi sjávarútveginum, og það verði að láta útveginn meira eða minna stöðvast allan saman, vegna þess að það sé ekki að neinu leyti búið að vinna úr þessum skýrslum. Það urðu nokkrar umræður um þessi mál hérna fyrir jólin, og hæstv. forsrh. komst í nokkrar mótsagnir í sínum umsögnum um það, en eitt er víst, að þetta ástand er hreinasta hneyksli, að skýrslur um ástand þjóðarbúskaparins skuli yfirleitt ekki liggja þannig fyrir á hverjum tíma, að meira að segja sjálf ríkisstj. geti gert sér nokkurn veginn hugmynd um, hvernig þjóðarbúskapurinn stendur.

Það er rétt, að þetta er búið að vera alllengi í vitleysu hér á Íslandi. Það eru lélegri hagskýrslur um þjóðarbúskap hér og koma seinna en í nokkru öðru nágrannalandi okkar, og hvað snertir afkomu atvinnugreina og einstakra fyrirtækja, þá er hægt í flestum löndum að gera sér alveg grein fyrir þeim og það nokkurn veginn nákvæmlega í hagskýrslum, sem hver einasti maður á opinberlega aðgang að. Hérna aftur á móti virðist það vera svo, að meira að segja skýrslurnar um, hvernig þjóðarbúskapurinn standi og hinar einstöku greinar í honum, við skulum segja frystihúsareksturinn annars vegar og togara- og bátarekstur hins vegar, þetta virðist helzt eiga að vera leyndarmál, sem aðeins stjórnarflokkarnir eigi að hafa hugmynd um. M.ö.o.: Það, sem menn, hvort sem væri á Norðurlöndum eða í Bandaríkjunum, gætu flett upp ákveðnum opinberum skýrslum um, hver einasti borgari þjóðfélagsins, á hér að vera sérstakt leyndarmál fyrir stjórnarflokkana, sömu stjórnarflokkana sem siðan krefjast stórframlaga af almenningi til þess að úthluta til þeirra aðila, sem þeir segja að tapi, á sama tíma sem þeir veita gróðanum frá viðkomandi atvinnuvegum til annarra.

Ég held þess vegna, að það sé viðhára, sem sýnir aðeins, í hverju óefni yfirleitt hagskýrslurnar eru hér, að ríkisstj. skuli geta afsakað sig með þessu og geti þar að auki reynt að halda þessu sem leyndarmáli.

Ég verð nú að segja það, að þó að mikið sé sótzt eftir þessu hagfræðingaáliti um þessar rannsóknir, og náttúrlega væri mjög fróðlegt að fá það í hendur, sérstaklega til þess að sjá, hvernig mennirnir rannsaka, þá hef ég ákaflega litla trú á sjálfri rannsókninni á þessu. Ég hef nokkrum sinnum séð slíkar rannsóknir áður, þegar þær hafa verið lagðar hér fyrir okkur, eins og í sambandi við till. um gengislækkun, og þær hafa alltaf sýnt sig að vera ákaflega takmarkaðar, það hefur vantað ákaflega mikið í þær. Það er eins og það séu ákveðin svið, sem þessir hagfræðingar vilja alls ekki rannsaka, heldur haldi sér bara alveg fast í ákveðna „teoríu“, sem þeir víki ekki frá, og það er eðlilegt, ef við skulum segja t.d., að hagfræðingarnir, sem eiga að rannsaka þjóðarbúskapinn núna, sleppa allri rannsókn á því, hvaða afleiðingar það tiltæki ríkisstj. hefur haft að láta hækka húsnæði, veigamesta liðinn í kaupgjaldinu, eins fram úr öllu hófi og gert hefur verið, láta festa fé í gömlum íbúðum, sem ganga í brasksölu, svo áð það skiptir tugum eða jafnvel hundruðum milljóna, ef þeir sleppa allri rannsókn á því, á afleiðingunum yfirleitt af öllum þeim tiltækjum, sem ríkisstj. hefur haft í því að sleppa öllu lausu, og ef þeir svo þar að auki rannsaka ekki að neinu leyti gróðann hjá heildsölunum, gróðann hjá frystihúsunum eða gróðann hjá bönkunum, þá get ég náttúrlega vel skilið, að niðurstöðurnar verði nokkuð einkennilegar. Þess vegna held ég, að það sé það minnsta, sem hæstv. ríkisstj. gæti gert, að birta öllum þingmönnum þessar rannsóknir, hvernig þær eru og hve víðtækar þær eru. Um niðurstöðurnar verð ég að segja það, að ég hef enga trú á þeim, — það er farið nú þegar að kvisast manna á milli, því að það má ríkisstj. vita, að hennar þingmenn þegja ekki svo sérstaklega vel, hvorki í þessu máli né öðrum, og þó að þeim sé trúað fyrir þessum málum, þá berst þetta út, og ef ríkisstj. finnst betra að láta allt mögulegt kvisast í þessum efnum og myndast alls konar orðróm og fara svo að bera á móti honum, þá getur hún fengið að hafa þann háttinn á, — en í þessum niðurstöðum hagfræðinganna, sem nú liggja fyrir, er því, að því er sagt er þegar í bænum, haldið fram, að það komi ekki til greina að breyta neitt um þá svokölluðu „frjálsu verzlun“, og verður þó að setja hana innan gæsalappa, eins og hún er nú, ég meina innflutningshöft íhaldsins, — það komi ekki til greina að breyta neinn þar, það komi ekki heldur til greina að setja neinar verðlagsákvarðanir, það eigi að ganga út frá þessum „teoríum“, sem núna undanfarin ár eru að leiða íslenzkan þjóðarbúskap út í hreina vitleysu og strand. Ef það er rétt, að þetta séu einhverjar höfuðniðurstöður hjá hagfræðingunum, þá skal míg náttúrlega ekkert undra, þó að hæstv. ríkisstj. vilji liggja á þessu áliti og hindra, að það komist út. En eitt er víst, að það er a.m.k. ekki hægt að ætla að fara að telja neinum þeim, sem þekkir yfirleitt bæði rannsóknaraðferðirnar og niðurstöðurnar í þeim plöggum, sem undanfarið hafa komið út, trú um, að það sé þörf að biða eftir hvorki þeirri rannsókn né þeim niðurstöðum, þangað til eitthvað sé gert í þessum málum.

Ég vildi sem sé mælast til þess, af því að það verður óhjákvæmilegt á einn eða annan hátt hér á Alþingi, að umr. um þessi mál verði teknar upp, hæstv. ríkisstj. getur ráðið því sjálf, hvort þær verða teknar upp almennt, ýmist utan dagskrár, í sambandi við dagskrármál eða með sérstökum hætti, sem stjórnarandstaðan hefur náttúrlega alltaf möguleika til að knýja fram, hvort hún vill afhenda a.m.k. rannsóknarhluta hagfræðingaálitsins til þingmanna, sem trúnaðarmál þá, meðan það væri nauðsynlegt, þannig að menn hafi a.m.k. að einhverju leyti sameiginlegt álit ríkisstj. og hennar sérfræðinga að leggja til grundvallar við þær umr., sem fram færu. Annars hafa menn eigið álit á þessum málum, þær hugmyndir, sem menn skapa sér við að reyna að rannsaka þetta eitthvað sjálfir, og það, sem kvisast út um þetta.

Það kom greinilega í ljós, þegar ýtarlegasta og lengsta sérfræðingaálitið var lagt fyrir við afdrifaríkustu aðgerðina hér, 1950, þ.e. gengislækkunina, að þar voru beinar skekkjur í, rökleysur, það var reiknað vitlaust, og það var ekki nóg, að þær væru þannig í hugsuninni í þessu, heldur var þetta líka þannig hreint reikningslega, að það gleymdist að taka tillit til ákveðinna hluta, eins og t.d. að víssu leyti falls sterlingspundsins, þannig að það var sýnt fram á það einmitt Benjamín Eiríkssyni, sem þá var ráðunautur ríkisstj., að hann hefði gert vitleysur í sinni stóru höfuðbók, þegar þetta var tekið fyrir, og hann treysti sér sjálfur ekki einu sinni til þess að mótmæla því. En niðurstöðurnar voru þvingaðar fram með flokkspólitísku valdi hér á Alþingi engu að síður.

Ég held nú, að það væri ekkert lakara fyrir ríkisstjórnina, þó að hún gæfi þingmönnum almennt tækifæri til þess að ræða þessa hluti við hana, áður en hún semur innbyrðis um lausn á þessum málum. Ef hún hins vegar er jafnvel í vandræðum að semja innbyrðis og ef hún ætlar að láta þjóðarbúskapinn stöðvast á meðan, þá sé ég ekki betur en henni væri þá nær að segja alveg af sér og gefast upp við þetta.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að það gefist hér tækifæri til skjótra umræðna um þessi mál og helzt á þeim grundvelli, að a.m.k. þær rannsóknir, sem hún ætlar að byggja á, liggi fyrir þingmönnum almennt, það er betra að ræða þetta á þeim grundvelli, en ef ekki, þá a.m.k. ýtarlegar umr. öðruvísi en svona utan dagskrár.