06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að láta í ljós furðu mína á því, ef svo á að vera nú eins og í gærdag, að hæstv. ríkisstj. ætli alveg að skjóta sér hjá því að ræða við alþm. um þau mál, sem eru efst á dagskrá og vissulega ofarlega í hugum allra Íslendinga nú. Eins og hv. alþm. vita, var gerð hér á Alþingi í gær fsp. um mjög mikilvægt málefni, og hæstv. forsrh. lét sér sæma að svara með hálfgerðum skætingi, þegar hann loksins fékkst hingað upp í ræðustólinn, og nú í dag, þegar gerð er fsp. um mál, sem ekki snertir Íslendinga síður, þó að nokkuð með öðrum hætti sé, þar sem er landhelgismálið, þá virðist svo sem enginu hæstv. ráðh., þeirra sem þó eru hér staddir, ætli að svara aukateknu orði. Mér virðist, að það sé full nauðsyn á því fyrir Alþingi, að skýr svör fáist við því í fyrsta lagi, hvort hæstv. ríkisstj. standi í einhverri samningsgerð varðandi friðunarlínuna eða landhelgismálið, og í öðru lagi, hvort þau mál hafi verið eða séu á dagskrá hjá einum eða öðrum alþjóðlegum aðilum, Efnahagssamvinnustofnun Evrópu eða öðrum.

Þetta eiga alþm. að fá að vita alveg ákveðið og skýlaust og þjóðin öll. Það er með engum hætti sæmandi hæstv. ráðh. að þegja um slíkt mál sem þetta. Sú friðunarlína, sem ákveðin var á sínum tíma 4 sjómílur, er að sjálfsögðu byggð á löggjöfinni um vísindalega friðun landgrunnsins, og með þeirri löggjöf var svo til ætlazt, að hægt væri innan ramma hennar að ákveða friðunarlínuna hverju sinni eftir því, sem möguleikar væru á, og alls ekki ætlunin að slá henni fastri um aldur og ævi miðað við 4 sjómílur.

Ég held, að meginþorri þjóðarinnar liti þannig á, að okkur sé lífsnauðsyn að nota hvert tækifæri til þess að færa friðunarlínuna út, og það sé þess vegna með öllu óverjandi, ef nokkur ádráttur er gefinn eða nokkrir samningar gerðir um að binda þessa linn við 4 sjómílur, eins og nú er gert.