19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

Tollgæslumál

fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Af sérstökum ástæðum gat ég ekki verið nema mjög lítið á fundi Nd. í gær, en hef orðið var við, að þar var rætt nokkuð um tollgæzlu. Ég hef þess vegna farið fram á það við hæstv. forseta að fá að gefa hér stutta yfirlýsingu utan dagskrár um tollgæzlumál í tilefni af þeim umr., sem hér fóru fram í gær. Ég mundi hafa gefið þær upplýsingar, sem ég nú ætla að gefa, í gær, ef ég hefði verið viðstaddur umr. í hv. Nd.

Mér þykir ástæða til að taka þetta fram: Fjmrn. er ljóst, að tollgæzlan er eigi svo öflug sem skyldi. Og forráðamönnum tollgæzlumála er þetta einnig ljóst og hafa á þetta bent. Hafa þessi mál þráfaldlega verið rædd af hálfu fjmrn. við forráðamenn tollgæzlunnar í Reykjavík sérstaklega og athugaðar ýmsar leiðir til úrbóta. Hafa sumar þeirra nú þegar komið til framkvæmda, og vonum við, að þær beri einhvern árangur nú á næstunni.

Út af þrálátum orðrómi um, að ólöglega innfluttar vörur væru á boðstólum í verzlunum í Reykjavík, hefur fjmrn. óskað þess, að tollstjórinn léti athuga, hvort slíkt hefði við rök að styðjast og hægt væri að koma fram ábyrgð á hendur hlutaðeigendum. Hafa athuganir þegar verið gerðar, en ráðuneytinu er tjáð af forráðamönnum tollgæzlunnar, að mikil vandkvæði muni reynast á því að sanna, að um ólöglegan innflutning sé að ræða, m.a. vegna þess, að öruggar lagaheimildir vantar til þess að láta menn, sem hafa vörur á boðstólum, gera fyrir þeim alveg fullnægjandi grein.

Á vegum fjmrn. er nú verið að semja frv. til breytinga á núgildandi lögum um tollheimtu og tolleftirlit til þess að reyna að styrkja framkvæmd tollgæzlunnar. Munu þessar till. m.a. fela í sér auknar skyldur manna til að gera grein fyrir þeim vörum, sem þeir hafa til sölu í verzlunum sínum, og auknar skyldur skipafélaga til þess að sjá tollgæzlunni fyrir stórum bættri aðstöðu frá því, sem nú er, til vöruskoðunar og eftirlits með innfluttum vörum. En aðstaðan er mjög erfið í þessu tilliti, eins og sakir standa. Verður frv. um þetta mál lagt fyrir Alþ. það, sem nú situr, í því trausti, að það fái góðar undirtektir.

Þá stendur yfir athugun á auknu samstarfi löggæzlu og tollgæzlu, og er einnig gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til tollgæzlu á frv. því til fjárlaga, sem nú liggur fyrir.

Ég vildi gefa hv. Alþ. þessar upplýsingar strax, hefði gert það í gær, ef ég hefði haft aðstöðu til að fylgjast með umr. En vitaskuld verður tækifæri til þess að ræða þessi mál öll í heild, þegar nefnt frv. kemur fram, en ég vona, að ekki verði mjög langt að bíða eftir því.