19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

Tollgæslumál

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég vil taka mjög undir með þeim hv. þm., sem hér hafa talað og fagnað þeim tón, sem hefur verið í ræðum hæstv. fjmrh. um það, að nú skuli rösklegar gengið til verks en verið hefur um að hindra, að tollsvik eigi sér hér stað í stórum stíl. Og ég vil líka fagna þeim ummælum, sem hæstv. ráðh. hafði um hönd áðan, þegar hann lýsti því yfir, að ef nokkur maður væri áhugasamur um það í þessu landi, að tollsvik væru ekki rekin hér í stórum stíl, þá væri það hann. Ég minnist þess í þessu sambandi, að í þingbyrjun 1953 bar ég hér fram í Sþ. fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um þessi mál og hvað ríkisstj. hefði aðhafzt í því efni að hindra þessi tollsvik. Hæstv. fjmrh. brást þá allt öðruvísi við en nú. Hann brást mjög illa við þessari fsp., valdi mér hin hraklegustu orð fyrir að vera með órökstuddar dylgjur í þessu efni, eins og hann þá komst að orði, taldi, að mjög lítið væri um það, að vörur væru fluttar til landsins tollsviknar, og notaði ýmis orð í því sambandi, þannig að hæstv. forseti Sþ. sá sig tilneyddan til þess að minna á sæmilegt orðbragð í þingsölum.

En nú hefur hæstv. fjmrh. tekið upp allt annan tón í þessum efnum og er nú hógvær og kurteis, eins og vera ber, og segist vera áhugasamur um, að þetta ástand verði lagfært. Hann segir hins vegar, að það sé mjög erfitt um vik, þar sem tollgæzlan hafi ekki lagaheimild né möguleika til að rannsaka, hvort vörur séu tollsviknar, eftir að þær eru komnar í búðir. Þetta er alveg rétt og mjög skiljanlegt. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig getur það gerzt með eðlilegum hætti, að vörur komi til landsins í jafnstórum stíl og hér virðist vera um að ræða, þegar tollgæzlan hefur alveg takmarkalausar heimildir til þess að hindra, að varan komi til landsins? Hvernig getur það gerzt, eins og tveir hv. þm. hafa lýst yfir, að vörur væru hér boðnar í búðum, sem alls ekki er leyft að flytja til landsins, og í mjög stórum stíl? Ég vil enn fremur bæta því við þær umræður og upplýsingar, sem hér hafa verið gefnar, að það er ýmislegt annað, sem hefur verið tollsvikið hér í stórum stíl og ekki er beinlínis boðið á markaði, en er ákaflega viða hægt að sjá. Það er t.d. erlendur bjór, sem ekki er leyfilegt að flytja til landsins. Ég býst við, að það viti fleiri en ég, að hann er hér mjög viða í mjög stórum stíl í landinu og sérstaklega hér í Reykjavík. Hvernig stendur á því, þrátt fyrir þá heimild, sem tollgæzlan hefur í lögum til að fylgjast með því, að þessar vörur séu ekki fluttar í land, að þær komast í land í jafnríkum mæli og hér um ræðir? Allir vita, að áfengi hefur verið smyglað hér til landsins í mjög stórum stíl. Menn hafa rætt um það sín á milli, að það væri komin upp eins konar áfengisverzlun númer tvö í landinu við hliðina á áfengisverzlun ríkisins, ólögleg að öllu leyti. Og er ekki aðgæzlu tolls og lögreglu eitthvað ábótavant, að þessar vörur og aðrar skuli geta komið til landsins? Þegar tollalögin voru sett á sínum tíma, var talið nægilegt að setja ákvæði um, að þessar vörur skyldi ekki mega flytja til landsins, og gefa tollgæzlunni heimild til þess að sjá um, að svo yrði ekki. Hitt var talið óþarft, að gefa henni heimild til þess að fara í verzlanir og leita þar að tollsviknum vörum. Ég verð að líta svo á, að þetta ætti að vera óþarft, ef árvekni tollgæzlunnar er nógu mikil um það, að vörurnar komi ekki á land.