19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

Tollgæslumál

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 8. landsk. (BergS) sagði, að hann hefði borið fram fsp. um þessi mál fyrir nokkru og þá hefði ég tekið henni illa. Þetta er algerlega rangt hjá hv. 8. landsk. þm. Ég tók fsp. mjög vel, eins og vænta mátti, og gaf ýtarlegar upplýsingar um það, hvað gert hefði verið í þeim málum, sem hann spurði um, og ef hann er farinn að ryðga í þessu, þá getur hann lesið þetta upp í þingtíðindunum sér til glöggvunar.

Á hinn bóginn svaraði ég dónalegu orðbragði hv. 8. landsk. þm., sem hann viðhafði þá, alveg viðeigandi orðum. Þau orðaskipti voru alveg óviðkomandi efni fsp. hans og voru út af aðdróttunum ýmsum í sambandi við málið, sem mér fundust óviðeigandi. En það er alveg misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi tekið fsp. illa.

Þá hugleiddi hv. 8. landsk. þm. nokkuð, hvernig það gæti átt sér stað, að smyglaður varningur væri á boðstólum í landinu í stórum stíl.

Í fyrsta lagi er nú það, að hv. 8. landsk. þm. hefur vitanlega engan mælikvarða á smyglaðan varning, það er ekki hægt að vita það, því miður, í hvað stórum stíl hann kann að vera á boðstólum. Því miður er ekki hægt að vita, hverju af þeim varningi, sem er hér á boðstólum, er smyglað og hverju ekki smyglað. Hitt vitum við eða þykjumst vita, að það sé talsvert mikið um smygl. Hvernig á því stendur, að smygl getur átt sér stað, það efni væri í langan fyrirlestur og kemur til umræðu síðar. En vitanlega verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir smygl, hversu hart sem að þessum málum er staðið. Það eru því miður til svo margar leiðir til þess að hafa í frammi smygl, sem mjög erfitt er að loka algerlega. Auðvitað er sjálfsagt að gera allt, sem auðið er, til þess að gera þetta. Hér kemur líka spurningin um það, hvað eigi að leggja mikið í kostnað við tollgæzluna. Það kann vel að vera, að það hafi verið of lítið lagt í kostnað við tollgæzluna, of fátt fólk haft við hana og þurfi að fjölga því. Það er eitt af því, sem við nú höfum í undirbúningi.

Þá sagði hv. þm., að hér væri bannað að flytja inn bjór, en samt sem áður væri hér á boðstólum erlendur bjór í stórum stíl. Ja, ég verð nú að segja, að mér er þetta ekki kunnugt, menn bjóða a.m.k. ekki mér þennan erlenda bjór. Svo mikið er víst. Það kann nú vel að vera, að menn bjóði hann mörgum öðrum fyrr en röðin kemur að mér. Út af þessu vil ég segja við hv. 8. landsk., að ég væri honum ákaflega þakklátur fyrir það, ef hann vildi geta okkur í fjmrn. upp, hvar hann hefði orðið var við erlendan bjór, og þá skyldi ég láta fara fram rannsókn á því, hvernig á því stæði, að hann hefði verið á boðstólum. Að vísu er mér kunnugt um það, og það mun vera hér mjög gamall „praksís“, að sjómenn fá að hafa með sér í land eitthvað af áfengi, þ. á m. erlendan bjór. Það mætti segja mér, að ef hv. 8. landsk. vildi nú hafa samvinnu um þetta, þar sem við höfum áhuga á því báðir, að smygl eigi sér ekki stað, og segði mér, hvar hann hefði orðið var við erlendan bjór, og ég léti fara fram rannsókn út af því, að þá segði hlutaðeigandi, að hann hefði fengið bjórinn hjá einhverjum sjómanni. Þannig mundi það mál vafalaust enda, eða því geri ég ráð fyrir, nema því aðeins að þessar birgðir af erlendum bjór, sem hv. 8. landsk. hefur orðið var við og hann sagði að væru í stórum stíl, væru það miklar, að ekki væri hægt að smjúga út um þessa smugu. Ég vil fara fram á það við hv. 8. landsk., að hann hafi samvinnu við okkur í ráðuneytinu á þann hátt, að hann geti okkur upplýsingar, ef hann verður var við erlendan bjór, það þarf ekki að vera í heyranda hljóði hér í þingsalnum, en segi okkur, hvar hann hefur orðið var við erlendan bjór í stórum stíl, og þá mun ég að sjálfsögðu láta fara fram rannsókn á því máli. Við í fjmrn. erum fegnir öllu slíku samstarfi af hendi þeirra, sem ekki vilja, að smygl viðgangist.