09.02.1956
Efri deild: 63. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er vegna þess, að nokkur mál, sem ég hef lagt fyrir þessa hv. d., sýnast ætla að fá trega afgreiðslu úr nefndum. Ég vildi aðeins beina því til nefndarformanna, hvað þeim mundi líða.

Það er þá fyrst frv. til laga um prentrétt, sem sent var til hv. allshn. mjög snemma á þessu þingi og mér væri nokkur forvitni á að vita, hvort n. byggist við að afgreiða. Ég veit að vísu, að hv. formaður muni vitna til þess, að hv. þm. Seyðf. sé fjarstaddur, en hann muni athugasemdir hafa að gera við einstök ákvæði frv. Þetta er rétt, en búast má við honum heim a.m.k. innan viku, svo að hann mundi hafa fullt færi á að koma sínum brtt. að, jafnvel þótt n. afgreiddi málið frá sér einhvern næstu daga, hvort sem hún vill vera því sammála eða ekki eða óskar á því frekari athugunar. En hér er um slíkt mál að ræða, að eðlilegt virðist, að n. láti eitthvað uppi um það til leiðbeiningar í framtíðinni, ef hún getur ekki fallizt á meginatriði frv. óbreytt, sem mér er með öllu ókunnugt um.

Þá er það frv. til laga um sálfræðiþjónustu í barnaskólum, sem snemma á þinginu var sent til hv. menntmn. Enginn efi er á því, að hér er um merkilegt nýmæli að ræða og full þörf er á slíkri þjónustu. Mér er ekkert launungarmál, að ég tel, að í þessu frv. felist einungis vísir að því, sem verða muni síðar, en ekki fullkomin framtíðarlausn. Ég velt ekki, hvaða skoðun hv. n. hefur á málinu, en ég tel það a.m.k. merkara en svo, að verjanlegt sé að láta það falla þegjandi niður.

Loks er frv. til laga um ríkisborgararétt, sem lagt var fyrir þingið, eftir að það kom saman að loknu jólafríi, og mun nú vera hjá hv. allshn. Það er ekki hægt að segja, að málið hafi dregizt óhæfilega, en ég vildi þó fremur ýta á eftir afgreiðslu þess.: