05.12.1955
Efri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

8. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er, eins og þdm. sjálfsagt rekur minni til, gamall kunningi. Frv. var rætt mjög mikið hér á þingi 1953, og kom þá fram um málið nokkur ágreiningur, þó aðallega þess efnis, að áður en lagafrv. væri samþ., væri rannsakað, hvernig reynzt hefði í framkvæmd innganga Íslands í Bernarsambandíð, og enn fremur, hvernig svo fámenn þjóð sem við íslendingar erum geti bezt og hagkvæmast skipað gagnkvæmri vernd rithöfundaréttar o. s. frv.

Þessi dagskrá var samþ., og samkv. henni beitti menntmrn. sér fyrir því, að skipuð var 5 manna nefnd til þess að rannsaka þau atriði, sem í dagskránni greinir, og reyndar fleiri atriði. Voru skipaðir í n. af rn. hálfu Jón Ásbjörnsson hrd. og Þórður Eyjólfsson hrd. Aðrir menn í n. voru Sigurður Reynir Pétursson, Tómas Guðmundsson skáld, en Bóksalafélagið skipaði Gunnar Einarsson prentsmiðjustjóra. Jón Ásbjörnsson hrd. var svo skipaður form. nefndarinnar.

Þessi n. tók til athugunar þau atriði, sem í dagskránni greinir og ég minntist á hér áðan, og n. hefur komizt að samhljóða niðurstöðu um, að það sé eðlilegt, að við tökum þá ákvörðun, sem deilt var um í sambandi við þetta frv., þegar það kom fram hér 1953, en hún er sú, að Ísland gerist aðili að milliríkjasamningi um vernd höfundaréttinda, sem undirritaður var í Genf 6. sept. 1952. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er nauðsynleg samræming á íslenzkri löggjöf, um leið og við undirritum þennan samning, og allir þessir nm., sem eru mjög hæfir menn, álíta Íslandi hag í því að vera í þessu sambandi, og sýna fram á, að í þetta samband hafa flestar menningarþjóðir gengið, m. a. Norðurlandaþjóðirnar, sem er nú oft til vísað, þegar við erum að ræða um einhverjar fyrirmyndir okkur til handa.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa frekari framsögu um þetta mál með tilliti til þess, hve mikið var rætt um það hér 1953, og einnig með tilliti til þess, að því fylgir grg., sem er svo ýtarleg, að ég efast um, að öðru frv. hafi fylgt öllu ýtarlegri grg. hér á Alþ.

N. leggur, eins og nál. ber með sér, samhljóða til, að frv. verði samþ.