28.03.1956
Efri deild: 107. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

forseti (GíslJ):

Það hafa verið boðaðir flokksfundir nú þegar, og er beðið eftir því, að þessum fundi ljúki, enda mun það verða síðasti fundurinn í dag og síðasti fundurinn á þessu þingi í þessari hv. deild. Eins og ég gat um í morgun, mun ég ekki taka til umr. hér nein þau mál á þessum fundi, sem deilu kunna að valda. Nú hefur hv. heilbr.- og félmn. skilað áliti í 83. máli, um félagsheimili. Hefur báðum nál. verið útbýtt, og er n. auðsjáanlega klofin og sýnilegt, að ekki verður tími til þess að afgreiða það mál á þessu þingi, þar sem slíta á þingi nú kl. 5. Sama má raunverulega segja um 192. mál, hnefaleika. N. er að vísu ekki klofin og þó ekki fullkomlega sammála, enda þyrfti tvo fundi um málið. Ég mun því taka 1. og 2. málið út af dagskrá, enda yrði að halda tvo fundi um málið, ef ætti að taka það fyrir, og til þess gefst ekki tími, því að beðið er eftir því, að hv. þingmenn komi á flokksfund.