28.03.1956
Efri deild: 107. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Forseti (GíslJ):

Út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. vil ég taka fram, að það er byggt á algerum misskilningi, að þetta mál hefði átt að takast á dagskrá í gær. Það var ekki tilbúið frá skrifstofunni til þess að taka það þá á dagskrá. Það var þá komið að fundartíma, og var ekki hægt að taka það á dagskrá í gær, svo að skoðun hans um það er byggð á algerum misskilningi, auk þess sem ég hef upplýst, að þessi hv. deild hefur óskað eftir, að frv. til l. um félagsheimili væri endurskoðað, og það getur ekki orðið annað en mjög hörð og löng deila um það atriði, svo að það væri alveg þýðingarlaust að taka málið nú á dagskrá til umræðu.