28.03.1956
Efri deild: 107. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

Starfslok deilda

forseti (GíslJ):

Þessu þingi er nú að verða lokið. Er þetta síðasti fundur þessarar hv. deildar að þessu sinni. Það hafa verið afgreidd hér mörg lög, sem munu marka tímamót í sögu þjóðarinnar og verða nýr og merkur áfangi á framfarabraut hennar, ef framkvæmd þeirra tekst vel og viturlega, og er það ósk mín, að svo megi verða.

Það kjörtímabil, sem hófst að loknum kosningum 1953, hefur nú fyrir rás viðburðanna verið stytt um eitt ár og nýjar kosningar boðaðar á þessu ári. Þessi fundur er því jafnframt síðasti fundur deildarinnar á yfirstandandi kjörtímabili. Að honum loknum hverfum við allir deildarmenn af þingi, sumir væntanlega aðeins um stundarsakir, aðrir ef til vill fyrir fullt og allt.

Ég hef sérstaka ástæðu til að þakka samstarf um mörg liðin ár, bæði í deildinni, í nefndum og sem forseti þau ár, sem ég hef gegnt því starfi. Ég flyt einnig öllu starfsliði þingsins þakkir fyrir störf þess, en þó alveg sérstaklega leyfi ég mér að flytja skrifstofustjóra Alþingis, sem nú lætur af störfum á þessu ári, þakkir fyrir hans framúrskarandi lipurð og samvizkusemi í öllu hans starfi um áratugi. Veit ég, að allir hv. alþm. taka undir það með mér og óska honum og hans fjölskyldu allrar blessunar á komandi árum.

Ég óska öllum hv. dm., þeim er utanbæjar búa, góðrar heimfarar og góðrar heimkomu, óska öllum hv. þm. og fjölskyldum þeirra og starfsliði þingsins gleðilegs sumars. Þeim hv. þm., sem hingað koma aftur að loknum kosningum, óska ég allrar blessunar og að þeim megi auðnast að leysa á viturlegan og drengilegan hátt sérhvern þann vanda, sem að höndum ber á hverjum tíma, þjóð og landi til blessunar. Ég endurtek þakklæti mitt til allra hv. þingmanna fyrir gott samstarf. Lifið heilir.