28.03.1956
Sameinað þing: 54. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

Þinglausnir

forseti (JörB) :

Ég vil svo leyfa mér að þakka hv. þm. fyrir samstarfið á þessu þingi. Sérstaklega þakka ég þeim, hvað þeir hafa gert mér auðveld störfin og á allan hátt af sinni hálfu reynt að greiða fyrir því, að þau gætu gengið sem greiðast og verið sem minnst til tafar störfum þingsins. Ég vil árna hv. þm. allra heilla í framtíðinni og óska utanbæjarþingmönnum góðrar heimferðar og heimkomu.

Þá vil ég þakka starfsfólki þingsins fyrir vel unnin störf. Sérstaklega vil ég beina þakklæti mínu til skrifstofustjóra Alþingis, sem þannig er nú ástatt um, að hann mun ekki gegna störfum hér í Alþingi lengur sem skrifstofustjóri. Hann hefur nú starfað í þessari stofnun í nær 40 ár og mestan þann tíma sem skrifstofustjóri Alþingis. Ég þarf ekki að fjölyrða um það, hvernig þingmönnum hefur fallið samstarfið við hann, því að það vita allir frá fyrstu tíð, hve einkar vel og samvizkusamlega hann hefur rækt sitt starf og af sérstakri kostgæfni og alúð greitt götu þingmanna í einu og öllu. Þetta hefur farið því betur úr hendi hjá honum, þar sem hann er sérstökum hæfileikum gæddur sem smekkmaður, sem listfengur maður á íslenzkt mál, og hefur þess vegna á allan hátt verið hinn bezti starfsmaður í Alþingi. Persónulega vil ég færa honum sérstakar þakkir fyrir samstarfið alla þá stund, sem við höfum verið hér saman. Ég veit, að ég mæli þetta fyrir munn allra hv. alþm., og ég vil árna honum og vandamönnum hans alls hins bezta og heilla í framtiðinni.