30.01.1956
Neðri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

146. mál, framleiðslusjóður

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í fjhn. urðu menn ekki sammála um afstöðu til þessa frv. Meiri hl., fulltrúar stjórnarf'lokkanna, vildi mæla með samþykkt þess óbreytts. Þó tók einn fulltrúi stjórnarflokkanna í n. fram, svo sem kemur fram í nál. meiri hl., að honum litist í raun og veru alls ekki á þær ráðstafanir, sem hér væri verið að gera. Hann tók það skýrt fram, að þetta væru vandræðaráðstafanir. Hann vísaði til þess, að hann hefði sjálfur flutt till. til lausnar á framleiðslu- og efnahagsvandamálum þjóðarinnar, sem hann teldi miklu betri en þær, sem hæstv. ríkisstj. hefði hugkvæmzt að leggja til í þessu frv. M. ö. o. hefur það gerzt, að einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir vantrausti á henni, hefur tekið fram, að þær till., sem ríkisstj. hefur lagt fram, séu að mörgu leyti lítt merkar og að fara ætti allt aðrar leiðir en hún vill fara til þess að leysa vandann. Er lítill vafi á því, að fleiri stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hugsa eitthvað á svipaða leið og þessi stuðningsmaður hennar, sem tekið hefur kjark í sig og sagt hreinskilnislega, að þessar till. séu öngþveitistillögur.

Mergur þessa máls, sem hér er um að ræða, er tvenns konar: Í fyrsta lagi, hversu mikla aðstoð á að veita útgerðinni, og í öðru lagi, hvernig á að afla nauðsynlegs fjár í nauðsynlega aðstoð.

Ég ræddi málið almennt við 1. umr. þess, og skal ekki endurtaka neitt af því hér, heldur snúa mér að einstökum atriðum málsins, svo sem ætlazt er til við 2. umr. Ég skal þó endurtaka, að ég dreg ekki í efa í sjálfu sér, að nauðsyn sé á víðtækum ráðstöfunum útveginum til stuðnings. Það er augljóst mál, að væri ekkert að gert, yrði hlutur þeirra, sem við útveginn starfa, of rýr, miðað við það, sem þeir bera frá borði, sem vinna hliðstæð störf í þágu þjóðarheildarinnar.

Einhverjar ráðstafanir eru því tvímælalaust nauðsynlegar. Spurningin er fyrst og fremst, hve þessi aðstoð eigi að vera mikil. Ríkisstj. hefur undirbúið eða notað marga mánuði til að gera sér grein fyrir því, hversu aðstoðin ætti að verða mikil. Hún hefur ráðið marga sérfræðinga til þess að annast athuganir í því sambandi. Ríkisstj. skipaði t. d. 4 manna hagfræðinganefnd fyrir mörgum mánuðum til þess að gera athuganir hér að lútandi og skila áliti og tillögum um þessi efni. Hún hefur enn fremur látið ýmsa af ráðuneytisstjórum sínum og fiskimálastjóra vinna að miklum rannsóknum um þessi efni. Hins vegar hefur svo undarlega brugðið við, að hæstv. ríkisstj. hefur neitað stjórnarandstöðunni algerlega um að fá nokkurn aðgang að þeim upplýsingum, sem þessir sérfræðingar hennar hafa aflað og kostnaðurinn við hefur verið greiddur af landsfé. Stjórnarandstaðan hefur talið, að hún ætti rétt á því að fá að sjá niðurstöður þessara rannsókna. Hún hefur tekið fram, að hún ætlaðist ekki til þess að fá að vita um það fyrir fram, hvaða tillögur í einstökum atriðum þessir sérfræðingar gerðu eða hvaða tillögur hæstv. ríkisstj. hygðist gera. En hún hefur talið sig eiga kröfu á að fá aðgang að þeim skýrslum og rannsóknum, sem gerðar eru fyrir opinbert fé. Þær eiga ekki og mega ekki og geta ekki verið einkamál ríkisstj. einnar. Svo hefur hins vegar brugðið við, að hæstv. ríkisstj. hefur talið þessar rannsóknarniðurstöður vera sitt einkamál einvörðungu. Þetta hlýtur að vekja tortryggni í þá átt, að það, sem lagt er fram hér opinberlega sem till. ríkisstj., sé ekki að öllu leyti a. m. k. rökstutt með þeim hlutlausu rannsóknum, sem gerðar hafa verið.

Hæstv. ríkisstj. mun hafa látið stuðningsmenn sína, a. m. k. helztu stuðningsmenn sína hér á hinu háa Alþ., fá aðgang að ýmsum skýrslum, sem um þetta hefur verið safnað. Það hefur orðið þess valdandi, að nokkuð hefur síazt út um, hver t. d. hafi verið niðurstaða hagfræðinganefndarinnar og hvað hún hafi lagt til. Eftir þeim fregnum, sem mér hafa um þetta borizt, lagði hún til, að bátagjaldeyriskerfið í heild væri afnumið, m. ö. o., að einn helzta stefnuatriði núverandi stjórnarflokka varðandi framkvæmd aðstoðarinnar við útveginn skuli breytt, en jafnframt skuli B-skírteini innleyst. Mér hefur skilizt, að hagfræðingarnir hafi enn fremur lagt til, að hliðstæðu gjaldi yrði haldið á þeim vörum, sem fluttar hafa verið inn samkvæmt bátagjaldeyriskerfinu, 60% álagi á vörur fluttar fyrir frjálsan gjaldeyri og 30% álagi á clearing-vöru, og enn fremur hafi þeir lagt til, að 30% gjald yrði lagt á fjölmargar aðrar innflutningsvörur, þó að undanskildum nauðsynjum almennings og útvegsins. Þeir hafa gert ráð fyrir því að afla með þessu móti 220 millj. kr. í útflutningsstyrktarsjóð. Innifalið í honum er það, sem bátagjaldeyriskerfið hefur gefið og reikna má að sé um 110 millj. kr. Þá var afgangurinn um 110 millj., en það, sem afla á samkv. þessu frv., er 137 millj. kr., svo að það virðist vera, ef þessar fregnir, sem ég hef af þessu haft, eru réttar, sem þeir hafi talið, að nauðsynlega þyrfti ekki nema um 110 millj. kr. nýjar álögur, þar sem hæstv. ríkisstj. telur að þurfi næstum 140 millj. kr. nýjar álögur. M. ö. o. hafa hagfræðingarnir talið, að komast mætti af með 30 millj. kr. minni álögur en ríkisstj. hefur nú gert till. um. Þeir gerðu ráð fyrir, að halda ætti áfram að greiða togurum rekstrarstyrk með svipuðum hætti og verið hefur og að bátarnir fengju uppbót í formi ákveðinnar greiðslu á fisk upp úr sjó.

Hver getur verið ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að gera kunnar rannsóknarniðurstöður og till. hagfræðinganefndarinnar? Mig grunar, að meginástæðan sé sú, að í áliti hagfræðinganna hafi falizt mjög veruleg gagnrýni á stjórnina og stefnu hennar, að hagfræðingarnir hafi verið sammála um að gagnrýna ýmis veigamikil atriði í stjórnarframkvæmdum ríkisstjórnarinnar, þeir hafi t. d. talið, að bátagjaldeyriskerfið hafi gengið sér fullkomlega til húðar og það sé óverjandi að halda því áfram. Samt sem áður ætlar hæstv. ríkisstj. að halda því áfram. Enn fremur hefur mér skilizt, að þeir hafi gagnrýnt verulega þá fjárfestingarstarfsemi, sem haldið er uppi og studd af ríkisvaldinn, en engin breyting mun vera í aðsigi á því sviði af hálfu hæstv. ríkisstj.

Hvað sem þessu líður, er það tvímælalaust, að án þess að eiga aðgang að þeim skýrslum og rannsóknum, sem fram hafa farið á vegum ríkisvaldsins, er ógerningur að gera sér nákvæma grein fyrir því, hver er raunveruleg aðstoðarþörf togaraútvegsins og bátaútvegsins. Í sjálfu sér getum við í minni hl. hv. fjhn. því ekki gert brtt. um þær upphæðir, sem hér er lagt til að greiddar skuli í rekstrarstyrki eða uppbætur. Nokkur atriði eru þó hér, sem augljóst er að mætti færa til betra horfs, og hefur hv. 11. landsk. þm. (LJós) þegar gert grein fyrir sameiginlegri skoðun okkar á því máli. Við erum sammála um, að eðlilegra væri að fara aðra leið en þá að kaupa B-skírteini af útvegsmönnum, þ. e. að fara þá leið, sem þeir sjálfir stungu upp á í till. sínum til ríkisstj., að hlutazt væri til um að bankarnir veittu lán, helzt vaxtalaus, með veði í innflutningsréttindunum. Ef það yrði gert, væri óþarfi að framkvæma nokkur kaup á óseldum B-skírteinum. Enn fremur erum við sammála um að fella niður 5. gr., þ. e. að láta það duga, sem þegar hefur verið gert til að afla fjár til greiðslu uppbóta á söluverð saltaðrar reknetasíldar, en um það gilda nú þegar fastir samningar milli útvegsmanna og hæstvirtrar ríkisstjórnar.

Við þessar tvær ráðstafanir minnkar fjáröflunarþörfin í sjóðinn úr 152 millj. í 116 millj. kr. Þar af eru til í bifreiðasjóði frá fyrra ári 15 millj., svo að nýtt fé, sem afla þarf, ætti samkv. því að vera 101 millj. kr. Nú tel ég það vera merg málsins í sambandi við slíkar ráðstafanir allar, að með þeim er tapið á útveginum í raun og veru þjóðnýtt, það er gert að alþjóðarmáli að tap skuli vera á útveginum, ef til engra ráðstafana sé gripið. Hvað liggur þá beinna við en að segja sem svo, ef einhvers staðar í útveginum er ágóði: Á þá ekki einnig að þjóðnýta hann? Er þá ekki a. m. k. eðlilegt, að sá gróði, sem verður á einstökum sviðum í því mikla kerfi, sem útvegurinn er, gangi til þess að mæta því tapi, sem er á öðrum sviðum í útveginum?

Það hefur verið altalað undanfarin ár, að þó að sjálf fiskveiðitækin hafi verið rekin með halla, þ. e. bátarnir og togararnir, hafi verið verulegur gróði af fiskvinnslunni, og sum árin hefur það verið tvímælalaust, að um gróða hefur þar verið að ræða. Leiðin, sem farin hefur verið, hefur verið sú, að tapinu, sannanlegu tapi af rekstri togara og báta, hefur verið velt yfir á herðar alls almennings í landinu, ríkissjóður hefur tekið að sér greiðslu þess taps, en gróðinn í fiskvinnslustöðvunum hefur fengið að renna eftir sem áður í vasa þeirra, sem þær eiga, þangað til á þeim fer að verða tap, þá er ekki ætlazt til þess, að gróði fyrri áranna fari til að borga tapið, heldur er þá komið til ríkisvaldsins og ætlazt til, að tapið verði greitt af almannafé. Þetta er óeðlilegt. Í þessu er fólgin hin fyllsta öfugþróun. Hér verður að jafna á milli ára, gróði eins árs verður að ganga upp í tap annars árs, og hér verður að jafna á milli aðila innan útvegsins, gróði sá, sem einn aðili hlýtur á að fara til að jafna tap, sem annar aðili ber. Ef reynslan sýnir ár eftir ár, að tap er, og ef reynslan sýnir, að tap er á öllum starfsháttum útvegsins, þá er ekkert við því að segja, þó að sótt sé greiðsla á því tapi í almannasjóð. Slíkur undirstöðuatvinnuvegur sem sjávarútvegurinn verður máttúrlega að fá þann hluta af heildarþjóðarframleiðslunni, sem honum ber, til þess að geta séð öllum þeim, sem við hann vinna, fyrir hliðstæðum kjörum og aðrir menn njóta fyrir jafnþjóðnýt störf.

En hvað á að gera til þess, að fyrir það verði tekið, að allt tap sé greitt af hinn opinbera, en gróði, ef hann verður og þegar hann verður, falli í skaut þeim, sem eiga þau fyrirtæki, sem hér eiga hlut að máli?

Mér finnst, að nú, þegar þetta mál er til umr., sé tími til þess kominn að staldra við. Með þessu frv. er gert ráð fyrir langstærstu uppbótargreiðslum til útvegsins, sem nokkurn tíma hefur verið gert ráð fyrir. Nú á að taka af almannafé meira til þess að greiða kostnaðinn við þjóðnýtingu tapsins en nokkurn tíma hefur verið gert áður. Þá finnst mér tími kominn til að gera ráðstafanir til þess að ganga úr skugga um eða tryggja, að sá gróði, sem þarna kann að myndast á einstökum sviðum, fari til þess að mæta tapinu, áður en komið er að ríkissjóðnum, áður en farið er að sækja fé í vasa almennings. Þess vegna tel ég eðlilegt, að nú sé það gert að skilyrði fyrir aðstoð samkv. þessum lögum, að sá ágóði, sem myndast kann á einstökum sviðum útvegsins, sé endurgreiddur í framleiðslusjóðinn, ef athugun sýnir, að um ágóða er að ræða. Hér dugir ekki að veita ríkisstj. rétt eða skylda hana til þess að ganga úr skugga um, hvort um ágóða er að ræða á einstökum sviðum útvegsins. Menn treysta ríkisstj. alls ekki til þess að framkvæma hlutlausa rannsókn á afkomunni á útveginum. Ríkisstj. hefur meira að segja átt í hörðu við hraðfrystihúsin um að fá reikninga hjá þeim, sem þau þó fyrir löngu höfðu skilað skattayfirvöldum, og þegar einstakir atvinnurekendur í útvegsstétt gerast svo baldnir gagnvart ríkisstj. og ríkisstj. er jafnmáttlaus gagnvart þeim og raun ber vitni, dugir ekki annað en að taka málið nokkru fastari tökum. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv., sem er í prentun, en berst væntanlega sem þskj. innan nokkurra mínútna. Þar sem henni hefur ekki verið útbýtt, vil ég leyfa mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta. Hún er um, að á eftir 7. gr., greininni um greiðslu aðstoðarinnar, komi ný gr., svo hljóðandi:

„Skilyrði fyrir aðstoð samkv. lögum þessum er, að útgerðarmenn og eigendur fiskvinnslustöðva séu félagar í sameignarfélagi, sem stofnað sé í hverri verstöð. Stjórn hvers félags skipa þrír menn og skal einn þeirra kosinn af útgerðarmönnum og eigendum fiskvinnslustöðva, annar af sjómannafélögum verstöðvarinnar og hinn þriðji af ríkisstj., og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Stjórnin á aðgang að reikningum allra þátttakenda í félaginu og hefur úrskurðarvald um einstaka kostnaðarliði þeirra. Henni er enn fremur rétt og skylt að rannsaka rekstrarfyrirkomulag sérhvers félags og miða viðurkenningu sína á réttmæti einstakra kostnaðarliða við það, að um hagkvæman rekstur sé að ræða. Komi í ljós, að tekjuafgangur verði hjá félaga sameignarfélagsins, skal hann greiddur framleiðslusjóði, en þó aldrei hærri upphæð en nemur aðstoð þeirri, er hlutaðeigandi hefur fengið úr sjóðnum.“

Ég skal leyfa mér að skýra meginhugsun þessarar brtt. með örfáum orðum. Ég tel algerlega óverjandi að ætla sér að greiða hátt á annað hundrað millj. kr. til útvegsins til þess að mæta tapi innan hans, án þess að það sé jafnframt fullkomlega tryggt, að verði hagnaður í einstökum greinum hans, gangi sá hagnaður fyrst og fremst til þess að mæta tapinu. Ég lít á útveginn allan sem eina heild, þar sem bæta eigi í þann vasann, sem vantar í, úr hinum, sem safnast fyrir í, og ráðið til þess er að gera það að skilyrði fyrir aðstoðinni, að í hverri verstöð sé myndað félag, sameignarfélag útgerðarmanna og eigenda fiskvinnslustöðva, og félagi þessu stjórnað af þrem mönnum, einum frá útvegsmönnum, einum frá sjómönnum og einum frá ríkisvaldinu, og að þessir aðilar eigi fullkominn aðgang að öllum reikningum og öllum upplýsingum um rekstur hinna einstöku fyrirtækja í verstöðinni. Það, sem ég legg sérstaka áherzlu á hér, er það, að sjómenn öðlist aðild að stjórn þessara félaga og þar með rétt til þess að kynna sér rekstur allra fyrirtækja útvegsins í eigin verstöð út í æsar til þess að ganga úr skugga um, hvort um hagkvæman rekstur sé að ræða eða ekki, og fá að vita um það, ef um gróða eða gróðamöguleika er að ræða. Ef það kemur í ljós, að reksturinn er alls staðar þannig, að rekstrarhagkvæmnin verður ekki aukin og að það er tap, þrátt fyrir það að fyllstu hagsýni sé gætt í hvívetna, þá hlýtur sjómaðurinn og allir landsmenn að viðurkenna, að nauðsyn er á opinberri aðstoð til útvegsins. Komi aftur á móti í ljós, að um hagnað sé að ræða á einhverju stigi, t. d. við fiskvinnslu, á að skila þeim hagnaði aftur í framleiðslusjóðinn. Með þessu móti einu bygg ég að hægt verði að sætta almenning í landinu við áframhald á þeirri braut, sem nú er komið út á í þessum efnum. Þjóðnýting á tapinu er því aðeins réttlát, að þeir, sem sjálfir vinna framleiðslustörfin, sannfærist um, að ekki sé hægt að reka framleiðsluna betur en gert er og að sá gróði, sem kann að myndast, fari fyrst og fremst til að jafna tapið, sem verður á öðrum sviðum.

Þá kem ég að hinu meginatriði málsins, hvernig eigi að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegt er að afla í þessu skyni, samkv. þeim styrkjum, sem gert er ráð fyrir í I. kafla frv.

Ég sagði áðan, að ég teldi, að um 101 millj. kr. tekjuöflun í framleiðslusjóðinn nægði til þess að standa straum af þeim verkefnum, sem honum eru falin. Í bifreiðasjóði eru þegar 15 millj. kr., sem ég geri ráð fyrir að gangi í sjóðinn, eins og frv. einnig gerir. Teknanna á samkv. frv. að afla aðallega með fernu móti: í fyrsta lagi — og það er langstærsti tekjustofninn — með 9.9% gjaldi á nær allan innflutning, enn fremur með 30% gjaldi á ýmsa tollvöru, með 40% álagi á ýmsa innlenda tollvöruframleiðslu og með 100% álagi á fob-verð innfluttra bifreiða og bifhjóla. Eina tekjuöflunaraðferðin af þessum fjórum, sem ég get fallizt á, er sú að halda áfram að leggja 100% gjald á fob-verð innfluttra bifreiða, og geri ég því ekki till. um, að þeim ákvæðum verði hreytt. En við erum sammála um það í minni hl. fjhn., að tekjuáætlunin, að upphæð 8 millj., sé of lág og að fyllilega væri óhætt að tvöfalda þá tekjuáætlun og reikna með 16 millj. kr. tekjum af þessu bifreiðaleyfagjaldi. Eftir verður þá nauðsyn á 85 millj. kr. tekjuöflun í framleiðslusjóðinn.

Ég get með engu móti fallizt á, að sanngjarnt sé að afla þessara tekna fyrst og fremst með því að leggja hlutfallslega jafnt gjald, næstum 10%, á nær allan innflutning í landinu, og rökstyð ég það með tvennu móti. Fyrri röksemdin er sú, að með þessu móti er byrðunum af aðstoðinni við útveginn velt á herðar alls almennings hlutfallslega jafnt, hvort sem um nauðsynlega neyzlu er að ræða eða ónauðsynlega, hvort sem hlutaðeigandi er ríkur eða fátækur. Þetta er ranglátt, og þetta er, held ég, í fyrsta skipti, sem stórfjár er aflað í ríkissjóð, án þess að nokkur tilraun sé gerð til þess að miða álögurnar að einhverju leyti við gjaldgetu þeirra, sem þær eiga að bera. Hingað til, er um slíkar stórálögur hefur verið að ræða, hefur alltaf verið reynt með einhverjum hætti að leggja þyngri byrðar á þá, sem breiðari hafa bökin. Hér er það ekki gert, hér skulu allir greiða jafnt, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir hvort sem þeir nota nauðsynlega vöru eða ónauðsynlega. Í þessu sambandi má geta þess, að eftir þeim fregnum, sem ég hef haft, gerði hagfræðinganefndin ekki till. um að fara þannig að. Það gjald, sem hún reiknaði með á innflutninginn og var að vísu hærri hundraðshluti, átti alls ekki að falla á helztu nauðsynjavörur almennings og helztu nauðsynjavörur útvegsins. Hjá þeim var sjónarmiðið auðsjáanlega það að hlífa hinni bráðnauðsynlegustu neyzlu og hlífa framleiðslunni. Ríkisstj. hefur tekið hinn kostinn að leggja jafnþungt á nauðsynlegu neyzluna og að leggja jafnmikið á framleiðsluna. Þetta er óeðlilegt, og á þetta get ég með engu móti fallizt.

Hin meginröksemdin gegn þessu er sú, að hér er verið að taka af framleiðslunni með annarri hendinni það, sem henni er rétt með hinni, því að samkv. vísitölukerfinu, sem er í gildi og á að vera í gildi áfram, hækkar auðvitað verðlag og þar með vísitala og kaup, svo að útvegurinn verður mjög bráðlega að bera hærri kaupgreiðslur en hann hefði þurft, ef nauðsynjavörunum hefði verið hlíft, og er það auðvitað það sjónarmið, sem vakað hefur fyrir hagfræðingunum, er þeir gerðu sínar tillögur.

En þá er spurningin, hvernig eigi að afla þeirra 85 miilj. kr., sem ég fellst á að aflað sé í framleiðslusjóð til bráðabirgða, þangað til séð verður með því fyrirkomulagi, sem ég geri að öðru leyti ráð fyrir í brtt. mínum, hvort ekki verður um gróða að ræða á ýmsum öðrum sviðum útvegsins, sem gæti minnkað þá álöguþörf.

Ég hef leyft mér að flytja till. um, hvernig þess fjár skuli aflað, og er sú till. einnig í prentun, eins og hin fyrri, sem ég nefndi. Ég vil því leyfa mér að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta. Hún er um, að 13. gr. frv. orðist þannig:

Ríkisstj. skipar eftir tilnefningu þingflokkanna 5 manna nefnd til að undirbúa lagasetningu um skatt á verðbólgugróða, og skal hún hafa lokið störfum fyrir 15. febr. n. k. Skatturinn skal lagður á eignarauka, sem orðið hefur á tímabilinu frá 1. jan. 1940 til 30. des. 1955, vera stighækkandi og nema sem næst 85 millj. kr. samtals. Skatturinn skal þó aðeins lagður á þá skattþegna, sem hafa aukið skuldlausa eign sína um meira en 300 þús. kr. á þessu tímabili. Við ákvörðun eignaraukans skal miða við gangverð eigna. Í lögunum skal vera heimild til þess að framkvæma birgðatalningu og skrásetningu verðbréfa.“

Ég legg svo til, að aðrar gr. í frv. um tekjuöflun verði felldar niður.

Megintilgangurinn er að láta þá, sem hagnazt hafa á hinni gífurlegu verðbólguþróun undanfarinna 15 ára, greiða þær 85 millj. kr., sem nauðsynlegt er að útvegurinn fái í sinn hlut, að því er séð verður nú, í stað þess að allur almenningur eigi að greiða þessar 85 millj. af neyzlu sinni á liðandi ári. Á því er ekki nokkur vafi, að gróðamyndun á s. l. 15 árum hér á landi hefur verið gífurleg, nemur mörg hundruð milljónum, ef ekki milljörðum króna. Hvað er eðlilegra, þegar gera þarf hallærisráðstafanir eins og þær sem hér er um að ræða, þegar gerðar eru slíkar öngþveitisráðstafanir útveginum til hjálpar, en að taka féð þar, sem gróði hefur safnazt saman á undanförnum hálfum öðrum áratug. Það á auðvitað að gera, áður en seilzt er ofan í vasa alls almennings, sem nú hefur í ýmsum stéttum ekki meira en rétt til hnífs og skeiðar. Þessa tekjuöflun tel ég margfalt réttmætari og skynsamlegri en að leggja tekjuöflunina á neyzlu manna, hlutfallslega jafnt á alla neyzlu.

Mergurinn málsins er svo auðvitað sá, að það þarf að koma útvegsmálunum í það horf, að ekki þurfi ár eftir ár að grípa til neyðarráðstafana eins og hér er gert. Því verður auðvitað ekki haldið áfram ár eftir ár að taka allt að 100 millj. kr. af eignaraukanum síðan 1940, og það er ekki heldur ætlunin. Mergurinn málsins er sá, að snúið sé við á þeirri óheillabraut, sem mál útvegsins hafa verið á undanfarin ár, þannig að enn þurfi ekki að koma til svipaðra ráðstafana. Það er í trausti þess, að þetta sé í síðasta skipti, sem til slíkra vandræðaráðstafana er gripið, að ég legg til, að þessi aðferð verði viðhöfð, að verðbólgugróði s. l. hálfs annars áratugs sé fyrst og fremst notaður til þess að greiða það, sem útvegurinn nú þarf á að halda. Ég er sannfærður um, að þessar 85 millj. kr. eru ekki nema lítill hluti af þeim feiknagróða, sem safnazt hefur saman á ýmsum sviðum íslenzks atvinnu- og fjármálalífs á undanförnum hálfum öðrum áratug. Ef frv. er afgreitt á þennan hátt, þá held ég, að útvegurinn mætti vel við una. Það er séð fyrir þörfum hans á yfirstandandi ári, en það eru ekki lagðar ósanngjarnar byrðar á almenning til þess að standa straum af nauðsynlegum aðgerðum útveginum til hjálpar.