27.01.1956
Neðri deild: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

144. mál, tollafgreiðsla

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og sagt er frá í grg. þessa frv., er gert ráð fyrir, að næstu daga verði sett lög um ýmsar hækkanir á aðflutningsgjöldum. Það hefur verið ljóst um alllangt skeið, að þetta mundi verða gert, en þó augljósara síðustu dagana, eftir að birt var, hvað ríkisstj. ætlaðist fyrir í málefnum útvegsins. En það er auðvitað, að þegar þetta hefur verið á almannavitorði, hafa allir innflytjendur vafalaust reynt að láta tollafgreiða þær vörur, sem komnar hafa verið inn í landið. Það er vitað mál, því að allir hafa búizt við, að þá og þegar kæmi að því, að þessi nýju gjöld yrðu lögð á svo að segja á svipstundu.

Auðvitað væri æskilegast, að hægt væri að leggja á slík gjöld á örstuttum tíma, þannig að menn gætu ekki komið viðskiptum sínum neitt fyrir með tilliti til þess, sem verið er að gera. En það er ekki hægt, eins og ástatt er hér hjá okkur, að koma því við. Það tekur einhvern tíma að afgreiða slík mál, og þá er um að gera að reyna að draga úr þeim óróa í viðskiptalífinu, sem af því stafar, eftir því sem mögulegt er. Nú hefur ríkisstj. átt tal um þetta mál undanfarna daga við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, og það hefur verið rætt, hvað hægt væri að gera til þess að minnka hættuna á óróa og misrétti, sem af því gæti stafað, að það tekur nokkurn tíma að afgreiða tekjuöflunarfrumvörp. Og eitt af því, sem mönnum hefur komið saman um, er, að það væri eðlilegt að banna tollafgreiðslu á vörum einhverja daga, og stingur stjórnin upp á, að það sé gert dagana 28.–31. jan., í því trausti, að þá verði meðferð þessara mála lokið, þ. e. a. s., að þetta bann gildi fyrir morgundaginn og svo áfram þar til að kvöldi 31. janúar.

Leiðtogar stjórnarandstæðinga hafa heitið því stuðningi sínum, að þetta frv. næði fram að ganga, og heitið að greiða fyrir því, að það gæti orðið nú í kvöld, áður en starfsdagur hefst í fyrramálið.

Ég skal taka það fram vegna orðalagsins á frv., sem kemur máske sumum nokkuð ókunnuglega fyrir, að í lögunum um tollskrá er tekið fram, að þegar aðflutningsgjaldabreytingar séu gerðar, skuli línan dregin þannig, að tollafgreiðsla hafi farið fram, ef hlutaðeigandi hefur skilað öllum skjölum og ekkert vantar í, áður en að þeim tíma kemur, að nýju aðflutningsgjöldin taka gildi. Það er talin tollafgreiðsla, enda þótt tollstofnunin hafi ekki komið því við að taka við peningunum. Innflytjandinn á ekki að gjalda þess, þó að vegna annríkis tollstofunnar eða einhvers dráttar hennar hafi ekki verið búið að taka á móti peningunum, ef allt er í lagi, sem með þarf frá hans hendi.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að greina nánar frá málinu. Ég býst við, að allir séu sammála um, að það sé skynsamlegt að gera þessa ráðstöfun. Það er vitað mál, að ef frumvörp liggja fyrir um verulegar hækkanir á tollum, þá veldur það miklum óróa og áróðri á bankastofnanir og fleiri stofnanir; menn vilja þá endilega koma sínum tollafgreiðslum í gegn. Það getur skapazt í því sambandi ýmiss konar misrétti, og svo er auðvitað æskilegra, að hin nýju aðflutningsgjöld geti komið til framkvæmda með sem minnstum fyrirvara og birgðir þær, sem liggja í landinu og afgreiddar hafa verið með lægri tollum, séu sem minnstar. En vitaskuld hefur verið alveg ómögulegt að fyrirbyggja, að undanfarið hefur verið mjög mikið tollafgreitt, þar sem svo mikið hefur verið talað um, að það ætti að leggja á nýjar álögur. Þannig hlýtur það alltaf að verða, þegar slíkt liggur í loftinu. Það er vitanlega ekki hægt að stöðva viðskiptin, vikum saman, þó að það sé hægt að gera það nokkra daga, meðan mál eru afgreidd á Alþingi.

Ég vona, að menn geti fallizt á þetta frv. Sé ég ekki ástæðu til, að því verði vísað til n., þar sem það hefur verið skoðað sameiginlega af stjórninni og leiðtogum allra stjórnarandstöðuflokkanna.