27.01.1956
Efri deild: 49. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

144. mál, tollafgreiðsla

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefur nú um nokkurn tíma verið ljóst, að það mundi þurfa að afla verulegra tekna bæði vegna fjárl. og einkum vegna ráðstafana í sambandi við vandkvæði sjávarútvegsins.

Það hefði náttúrlega verið æskilegast, að hægt hefði verið að afgreiða slíkar tekjuöflunartill. alveg umsvifalaust, t. d. á einni nóttu, til þess að þær þyrftu ekki að valda neinum truflunum í viðskiptalífinu, á meðan þær liggja fyrir þinginu, en það er ekki hægt að hafa þann hátt á. Ekki er hægt að afgreiða svo stór mál í svo hraðri sveiflu, og stjórnin hefur þess vegna átt viðræður um það við leiðtoga stjórnarandstæðinga, hvað hægt væri að gera til þess að draga úr óróa og jafnvel koma í veg fyrir misrétti, meðan á afgreiðslu slíkra mála stæði, og mönnum hefur komið saman um, að það mundi vera skynsamlegt að setja stöðvun á tollafgreiðslu vara í nokkra daga í þessu sambandi. Hefur stjórnin lagt til, að þessi háttur verði á hafður frá því í fyrramálið og þangað til að kvöldi 31. janúar í trausti þess, að á þeim tíma takist að afgreiða þessi mál frá hv. Alþ.

Það er vitanlegt, að menn hafa nú um alllanga hríð séð fyrir, að það hlaut að verða lagt á eitthvað verulegt af nýjum aðflutningsgjöldum, og hafa því vafalaust reynt að hraða innflutningi og fá tollafgreiðslu án tafar og hafa sjálfsagt hert á sér mjög í þessari viku í því sambandi, og sjálfsagt meir og meir með hverjum deginum sem liðið hefur, vegna þess að menn hafa búizt við, að á næstu klukkustund yrðu þessar ráðstafanir gerðar. Það hefur ekki verið hægt að koma í veg fyrir þetta, því að það er ómögulegt að halda viðskiptum föstum í margar vikur, en það hefur verið á almanna vitorði undanfarið lengi, að ráðstafanir yrðu gerðar. Það má þó k>úast við því, að óróinn fari mjög vaxandi í þessu tilliti eftir að frv. sjálf væru komin fram og á meðan þau lægju fyrir til afgreiðslu. Úr því væri hægt að bæta með því að setja ákvæði eins og þau, sem hér er gert ráð fyrir. Auk þess er auðvitað æskilegra, að birgðir geti verið fremur minni en meiri í landinu, þegar slíkar hækkanir öðlast gildi.

Um orðalagið á frv. er það að segja, að það kemur máske sumum dálítið einkennilega fyrir sjónir, að það er þannig tekið til orða, að þessa daga skuli ekki tekið við skjölum til tollafgreiðslu á aðfluttum vörum. En það orðalag byggist á því lagaákvæði í gildandi tollskrá, að það telst tollafgreiðsla, ef innflytjandi hefur skilað öllum nauðsynlegum gögnum, og missir hann engan rétt, þótt staðið hafi á tollstöðinni að afgreiða mál hans og taka við peningunum. Það er sem sagt miðað við afhendingu skjalanna. Þess vegna er þetta orðalag viðhaft.

Nú hafa leiðtogar stjórnarandstæðinga verið í ráðum með að útbúa þetta mál og fylgzt með því og heitið því stuðningi sínum og fyrirgreiðslu, að það geti orðið að lögum nú í kvöld. Þess vegna tel ég ekki nauðsynlegt að gera till. um nefndarskipun hér, fremur en gert var í hv. Nd. Ég vildi biðja hæstv. forseta að greiða fyrir sitt leyti fyrir málinu með því að halda fundi áfram, unz því er lokið.