28.01.1956
Efri deild: 52. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ríkisstj. og meiri hl. fjvn. eru sammála um, að ekki sé mögulegt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög nema með því að afla ríkissjóði viðbótartekna.

Þetta frv. er lagt fram til þess að afia þeirra tekna, sem þessir aðilar eru sammála um að þurfi til þess að ná endunum saman á fjárlagafrv. Það eru um 47–49 millj. kr.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér innihald fjárlaganna, en vísa um þörfina á þessu fjármagni til fjárlagafrv. og þeirra skýringa, sem við það hafa verið fluttar, bæði í grg. þess og eins í nál. meiri hl. hv. fjvn.

Ég ætla að víkja örfáum orðum að því, hvernig ætlazt er til samkvæmt þessu frv., að þessara fjármuna sé aflað.

Fyrst er till. um, að vörumagnstollur verði innheimtur með 340% álagi í stað 250% álags. Ég hef látið athuga, hvað vörumagnstollurinn ætti að vera innheimtur með háu álagi, til þess að hann væri jafnhár í hlutfalli við framfærsluvísitölu og verðlag í landinu og hann var árið 1951, þegar hann var ákveðinn að grunni til. Hagstofan segir, að þá ætti álagið að vera 336%, en hér er stungið upp á 340% álagi, og verður vörumagnstollurinn þá því sem næst hlutfallslega jafnhár og hann var, þegar hann var lögfestur að grunni til, eins og ég sagði áðan. Gert er ráð fyrir, að þetta ákvæði gefi 6–7 millj. í tekjur yfir árið.

Þá er lagt til, að verðtollsálagið verði hækkað úr 45% í 80%. Verðtollsálagið var í nokkur ár 65%, en var lækkað á þinginu 1950 niður í 45% og hefur staðið þannig síðan. Nú er stungið upp á, að þetta álag sé sett nokkru hærra en það var fyrir 1950, eða 80%. Er þetta gert vegna þess, hve brýn nauðsyn er á að afla tekna til ríkisins, og var komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki fært að gera það með öðru skárra móti til viðbótar öðrum þeim ráðstöfunum, sem í frv. greinir, en með því að hækka verðtollsviðaukann. Það er gert ráð fyrir því, að þetta ákvæði færi ríkissjóði yfir árið um það bil 35 millj. kr. tekjur.

Þá er næst lagt til, að sérstakt innflutningsgjald af benzíni verði hækkað um 20 aura. Innflutningsgjald af benzíni hefur staðið óbreytt hér síðan árið 1949, 31 eyrir af hverjum lítra, en vörumagnstollur sem svarar 15 aurum af hverjum lítra og hefur líka staðið óbreyttur frá 1949. Ef benzínskatturinn ætti að færast til samræmis við breytt verðlag í landinu samkvæmt framfærsluvísitölu, ætti að hækka aðflutningsgjöld á lítra um 47 aura rúmlega, og yrðu þau þá jafnhá í hlutfalli við framfærsluvísitölu og þau voru árið 1949, þegar þau voru sett. En hér er þó aðeins lagt til, að innflutningsgjaldið hækki um 20 aura.

Er gert ráð fyrir því, að 5 aurar af þessari hækkun renni í brúasjóð og mundu það verða um 2½ millj. kr. viðbótartekjur fyrir brúasjóð, og 5 aurar verði notaðir til að koma upp nýjum sjóði til þess að standa undir kostnaði við að leggja vegi á milli byggðarlaga. M. a. er gert ráð fyrir því, að Austurvegur njóti þar verulega góðs af. Sá sjóður mundi þá hafa árlegar tekjur nálægt 2½ millj. kr. Hinir 10 aurarnir eiga að renna til ríkissjóðs, og mundi það nema yfir heilt ár sem næst 5 millj. kr., sem til hans rynni.

Rétt er að geta þess, að svo ört hækkar hér kostnaður við vegamálin, að á fjárlagafrv. mun kostnaður við vegamál, þegar það verður endanlega afgreitt, ekki verða undir 12 millj. kr. hærri en hann var á síðustu fjárlögum. Svo ört hækkar kostnaðurinn við þessi mikilsverðu mál. Og það er óhugsandi annað en að umferðin verði að bera meira en hún hefur borið hingað til af þeim kostnaði.

Ég vil taka fram, að þótt þessar hækkanir séu gerðar á benzínskattinum, verður hann samt lægri hér en í nokkru nálægu landi, að undanskildu Hollandi, og miklum mun lægri en á Norðurlöndum.

Þá er næsti liður eða sá fjórði og síðasti. Það er uppástunga um að hækka bifreiðaskatt og gjald af hjólbörðum og slöngum, en þau gjöld voru síðast ákveðin með lögum nr. 68 1949 og hafa staðið óbreytt síðan. Hér er gert ráð fyrir að tvöfalda þessi gjöld, og er m. a. við það miðað, að þá yrðu þau jafnhá að tiltölu, miðað við verðlag og framfærsluvísitölu, og þau voru, þegar þau voru sett, en þessi gjöld eru tiltekin í krónutölu og miðuð við þunga. Þau hafa ekki breytzt með breyttu viðhorfi í verðlagsmálum, heldur staðið föst í krónutölu og því raunverulega lækkað ár frá ári. Það er gert ráð fyrir að færa þau nú til samræmis við verðlagið og tvöfalda þau. Þó er sú undantekning frá þessu, að ekki er gert ráð fyrir, að skattur af vöru- og sérleyfisbifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín, hækki nema um 50% frá því, sem hann er nú, og verða þó greiðslur af þessum bifreiðum ákaflega lágar til ríkisins og vegamálanna, samanborið við greiðslur af þeim bifreiðum, sem nota benzín til eldsneytis. Hér er því mjög vægilega farið í sakirnar, enda þá við það miðað, að dieselbifreiðar eru nú mjög tíðkaðar til vöruflutninga og afar áríðandi að hækka ekki meira kostnaðinn við vöruflutningana en minnst er hægt að komast af með. Því er þessi hækkun höfð helmingi minni en hækkun bifreiðagjaldsins á almennum bifreiðum.

Bifreiðaskattur verður að teljast hér ákaflega lágur, enda staðið óhreyttur öll þessi ár þrátt fyrir þá gífurlegu verðhækkun, sem orðið hefur í landinu. Af 6 manna fólksbifreið, sem algeng er hér á landi, nemur skatturinn 504 kr. og verður eftir hækkunina 1008 kr. Til samanburðar er fróðlegt að geta þess, að skattur af sams konar bifreið í Noregi er 1256 kr. íslenzkar, eða um 25% hærri en hann verður hér eftir þessa hækkun.

Það skal tekið fram, að bifreiðaskatturinn nær ekki til vörubifreiða, sem nota benzín, ekki til skólabifreiða og ekki til jeppabifreiða að því leyti, að eigendur þeirra eiga rétt á endurgreiðslu bifreiðaskatts, ef þeir sanna með vottorðum frá skattanefndum, að þeir hafi notað bifreiðarnar að mestu eða öllu leyti við framleiðslu- og jarðvinnslustörf. Gert er ráð fyrir, að bifreiðaskattsviðaukinn gefi um 6 millj. á heilu ári. Um gjaldið af gúmmíi og hjólbörðum gildir alveg sama og bifreiðunum sjálfum að því leyti, að það hefur staðið óbreytt jafnlengi og er með þessu fært til samræmis við verðlagið.

Þegar við leggjum saman þær tölur, sem ég hef nefnt, sjáum við, að á heilu ári gæti þetta frv. gefið 51–53 millj. í tekjur. En nú er janúarmánuður liðinn og því ekki hægt að gera ráð fyrir, að þetta frv. gefi meira en 47–49 millj. kr. í tekjur á því ári, sem yfir stendur, og við það eru ákvæði þess miðuð.

Eins og fram kemur af því, sem ég þegar hef sagt, eru þrjú af aðalákvæðum þessa frv. miðuð við að hækka gjöld, sem hafa verið miðuð við magn og því undanfarið staðið óbreytt að krónutali, til samræmis við verðlagshækkanir í landinn, og í engu falli þessara þriggja er gengið lengra en að færa þau til samræmis við það, sem verðlag er orðið nú, samanborið við það, sem það var, þegar þau voru sett á, en mun skemmra um benzínskattinn. Aftur á móti verður ekki þetta sama sagt um verðtollinn. Álagið á hann er hækkað, enda þótt hann hafi að sjálfsögðu breytzt í samræmi við breytingar á erlendu verðlagi. Samt sem áður hefur verðtollurinn vitanlega alls ekki hækkað að krónutölu að tiltölu við verðlag í landinu, vegna þess að verðlag í landinu hefur hækkað miklu meira en erlenda verðlagið. Að sumu leyti má því segja hið sama um hann og magntollana, að hann sé færður til samræmis við verðlag innanlands, en ekki verður sagt, að svo sé að öllu leyti, þar sem hann hefur þó verið miðaður við verðlag erlendra vara.

Ég hef athugað, eftir því sem hægt er, hvað skatta- og tollalækkanir þær, sem núverandi stjórn og þingmeirihluti, sem hana styður, hafa beitt sér fyrir undanfarin ár, muni nema miklu árlega samanborið við þessar hækkanir, sem nú eru á ferðinni. Það er ekki gott að segja þetta með nákvæmni, en það er mín skoðun, að þær álögur, sem í þessu frv. felast, séu sáralltlu meiri en þær skatta- og tollalækkanir, sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum. Það muni því láta nærri, að þegar búið er að samþykkja þessa tekjuauka, búi þjóðin við álíka skattabyrði til ríkissjóðs og hún bjó við 1950.

Að lokum vil ég taka fram, að í þessu frv. eru ákvæði um, að benzínskattur og gjald af hjólbörðum og slöngum skuli greiðast af þeim verzlunarbirgðum, sem liggja í landinu. Það hefur ætíð verið haft svo, þegar breytt hefur verið álögum á þessar vörur, benzín, hjólbarða og slöngur. Það er engum vafa undirorpið, að ef ekki verður búið að ganga frá þessu máli, áður en viðskipti byrja á mánudag, hefjast óeðlileg innkaup á þessum vörum, á meðan væri verið að koma frv. í gegnum þingið. Af þessum ástæðum hef ég rætt það við forustumenn stjórnarandstæðinga, að mikil nauðsyn væri á því að tefja ekki afgreiðslu þessa máls, heldur að það gæti fengið lagagildi í kvöld eða nótt. Ég geri mér vonir um, að þeir muni ekkert gera til þess að tefja málið, og er ég þakklátur þeim fyrir það.

Það hefur líka verið reynt að greiða fyrir því, að menn gætu áttað sig á málinu, með því að afhenda forustumönnum stjórnarandstæðinga þetta frv. sem trúnaðarmál í gær, til þess að þeir gætu kynnt sér það ýtarlega, áður en það kæmi fram, og undirbúið afstöðu sína sem bezt fyrir fram.

Ég vona, að það takist að koma afgreiðslu málsins vel fyrir, og beini því til hæstv. forseta, að hann geri sitt til þess, að svo geti orðið. Ég hef raunar talað við hæstv. forseta um þetta og veit, að hann mun svo gera. Hinu sama beini ég til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, sérstaklega vegna þess, að ég hef haft samband við nm. einmitt í dag um málið á ýmsa lund í því fundarhléi, sem var gert frá því kl. 1½ og til kl. 4. Finnst mér, að það ætti þess vegna að mega gera sér vonir um, að nefndin geti verið mjög fljót að ganga frá málinu.

Ég óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari 1. umr.