28.01.1956
Efri deild: 52. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það er varla hægt að tala um þetta frv. út af fyrir sig. Það er liður í hinum miklu skattahækkunarfrumvörpum ríkisstj., sem eru einhver hin mestu í þingsögunni. Þessari hæstv. ríkisstj. ætlar að takast að slá öll met. Ég bjóst ekki við góðu, en slík firn komu mér samt sem áður næstum á óvart.

Alls verða skattahækkanir stjórnarinnar samkvæmt þessu frv. og frv. um framleiðslusjóð 200 millj. samkvæmt áætlun stjórnarinnar eða rösklega það. Í rauninni verða upphæðirnar miklu meiri. Það er margföld reynsla fyrir því, að áætlanir hæstv. fjmrh. eru alltaf allt of lágar, svo að hvergi er nærri sanni. Þegar þessir skattar hafa verið á lagðir, lætur nærri, að allir þeir skattar, sem á almenningi lenda, þar með ekki taldir stighækkandi skattar, verði um 27 þús. kr. að meðaltali á 5 manna heimili.

Þetta er í fjórða skipti, sem vegið er í sama knérunn frá 1948. Fyrst kom hið mikla álag á verðtollinn og vörumagnstollinn, sem nú er verið að hækka, síðan gengislækkunin, þá bátagjaldeyririnn og svo þessir óskaplegu skattar. Þetta eru aðeins stóru skrefin. Við þetta bætast svo fleiri hækkanir. Og hver hefur árangurinn orðið? Meira en tvöföldun á verði allrar neyzluvöru nú þegar og margföldun húsaleigunnar. Allar þessar stóru ráðstafanir áttu að vera til þess að bjarga útgerðinni. Hefur það tekizt? Reynslan hefur skorið úr um það, svo að ekki verður um deilt. Þessi frv., sem nú eru lögð fram af hæstv. ríkisstj., eru bezta viðurkenning þess, hversu hrapallega það hefur mistekizt og hversu vanhugsaðar allar þessar ráðstafanir hafa verið. Verðlagið hefur verið skrúfað upp, svo að stuðningurinn við útgerðina hefur brátt étizt upp. Að vísu hefur tekizt að lækka kaupmátt launanna í landinu. En á móti því hefur komið æ skefjalausara gróðabrall og auðsöfnun, sem að lokum hefur lent á útgerðinni.

Ég held, að allir séu sammála um það, að því meiri sem verðþenslan er, því ákjósanlegri skilyrði eru fyrir gróðabrallið. Það er ekki gott að reikna út, hvað þessir skattar samanlagt muni hækka verðlagið í landinu, en það hefði verið ákjósanlegt að fá einhverja áætlun um það frá hæstv. fjmrh. Og maður skyldi ætla, að það væri hið fyrsta, sem hæstv. ríkisstj. reyndi að gera sér einhverja grein fyrir, því að það er auðvitað aðalatriðið og mergurinn málsins. Það er ómögulegt að gera sér neina fullnægjandi grein fyrir því og það þegar af þeim ástæðum, að það er leyfð ótakmörkuð álagning, en mér virðist, að þegar þetta hefur undið upp á sig og álagning komin á tollana og skattana, þá sé varla hægt að gera ráð fyrir minna en um 20% almennri verðhækkun á erlendum vörum af þessum sökum auk stórkostlegrar verðhækkunar á innlendum vörum, ef til vill meira. En þar með er þeirri framvindu, sem búast má við að maður eigi í vændum, ekki lokið. Kaup hækkar samkv. vísitölu og þannig heldur skrúfan áfram. Raunar er sýnt, að kauphækkanirnar, sem stafa af því, að kaup hækkar samkv. vísitölu, geta aldrei orðið nema brot af því, sem þarf til þess að vega upp á móti verðhækkununum, og þar kemur hvort tveggja til, að hækkunin á kaupgjaldsvísitölunni kemur langt á eftir hækkunum á verðlagsvísitölunni og að aðeins lítið brot af verðhækkununum kemur yfirleitt inn í vísitöluna. Það er því augljóst, að verkalýðshreyfingin hlýtur þegar að fara að hugsa fyrir því að vinna þetta upp. Það væri óskandi, að það þyrfti ekki að gerast með verkföllum, heldur þannig, að hægt væri að koma þessari hæstv. ríkisstj. frá og mynda aðra, sem hefði náið samband við verkalýðssamtökin og gerði ráðstafanir til þess að bæta verkalýðnum það upp, sem af honum hefði verið rænt af þessari hæstv. ríkisstj.

Það hlýtur því að vera hverjum manni ljóst, að með svona ráðstöfunum er ekki hægt að bjarga útgerðinni eða nálgast það að koma atvinnuvegum landsmanna á heilbrigðan grundvöll. Þegar fram í sækir, mun þetta skapa enn óviðráðanlegri vanda, eins og allar aðrar slíkar ráðstafanir hafa áður gert, enda mun það viðurkennt jafnvel af sjálfri ríkisstj., að þetta sé aðeins til bráðabirgða, á ég hér við þessar ráðstafanir í heild sinni. Hvaða frambúðarráðstafanir hefur hæstv. ríkisstj. þá hugsað sér? Er það gengislækkun og kaupbinding? Eða er það eitthvað annað? Það væri varla til of mikils mælzt að fara fram á upplýsingar um það. Þetta frv., sem nú er til umræðu í þessari hv. d., er aukageta, og þó hefur það enga smáræðishækkun í för með sér, álag á vörumagnstollinn á að hækka úr 250% í 340%, það mun vera 25% hækkun á tollinum eða nálægt því. Verðtollsálagið hækkar úr 45% í 80%, þ. e. langleiðis tvöföldun á álaginu og mun vera, að mér skilst, yfir 22% hækkun á tollinum. Svo kemur 20 aura hækkun á aðflutningsgjöldum á benzíni; það er hækkun um 2/3. Og síðan eru enn lagðir skattar á sjálfa tollana, sem sagt tollur á toll ofan. Enn fremur er tvöföldun bifreiðaskattsins og nýr skattur á bifreiðagúmmí.

Samtals á þetta að gera samkv. áætlun hæstv. fjmrh. 48 millj. Þó held ég, að hann hafi þar ekki talið með hækkunina á gúmmíinu og tollálagið. Er það ekki rétt? (Fjmrh.: Hækkunin á gúmmígjaldinu er innifalin í því, sem ég kalla bifreiðaskatt, 6 millj.) Er áætlunin þá 48 millj. samtals á þessu öllu saman? (Gripið fram í.) Allir skattarnir í frv. um 49 millj.? (Fjmrh.: Að undanskildu því, sem fer í brúasjóðinn o. fl., þ. e. það, sem ríkissjóður fær.) Samkvæmt reynslunni er hitt þó líklegra, að skattar þessir muni nema a. m. k. hátt á sjötta tuginn í rauninni, þegar maður aðgætir þær aðferðir, sem hæstv. fjmrh. hefur við áætlun skatta, og leggur svo ofan á nokkuð í samræmi við það, sem reynslan hefur sýnt.

Við þetta bætist svo hækkun á póst- og símagjaldi um 5 millj. og aukaskattur á tóbak, sem lagður var á vegna Faxasíldarinnar og nemur 6.3 millj. og nú rennur í ríkissjóð, svo að alls verða þá skattahækkanirnar, sem renna í ríkissjóðinn, ekki 48 eða 49 millj., heldur yfir 60 millj., þó að farið sé eftir áætlun hæstv. ríkisstj.

En það, sem er aðalatriði þessa máls, er það, að þessir skattar eru gersamlega óþarfir. Hæstv. ríkisstj. þarf ekki á auknum tekjum að halda í ríkissjóðinn; það er tilbúningur hæstv. fjmrh.

Samkv. áætlun meiri hl. fjvn. er tekjuhallinn nú 45 millj. á fjárl., en samkv. áætlun minni hl. er enginn tekjuhalli. Minni hl. hafði áætlað, að tekjurnar væru a. m. k. 45 millj. kr. of lágt áætlaðar, og taldi þá áætlun þó gerða með hinni ýtrustu varkárni. Síðan hefur meiri hl. þó hækkað áætlunina um 8 millj. vegna nýrra upplýsinga. Tekjuskatturinn mun reynast allmiklu meiri en þá var gert ráð fyrir. Hefðu þær upplýsingar legið fyrir, mundi minni hl. einnig hafa hækkað sína áætlun um 8 millj. Við þetta bætist svo, að vegna hinna nýju verðhækkana, sem hlýtur að leiða af þessum frumvörpum, sem nú á að fara að samþykkja, er ljóst, að söluskatturinn verður miklu meiri en áætlað var. Nú hefur reynslan orðið sú, að tekjurnar hafa á hverju ári reynzt miklum mun meiri en minni hl. hefur áætlað, og alltaf hefur ríkissjóður komið út með stórfelldan greiðsluafgang, og nú leggur hæstv. ráðh. t. d. fram till. um ráðstafanir á greiðsluafgangi s. l. árs, sem mun vera yfir 50 millj. kr. Það er því alveg víst, að þetta skattafrv. er gersamlega óþarft. Þess vegna munum við sósíalistar ekki koma með neinar brtt. við það. Hið eina rétta er að fella það eins og það kemur fyrir.

Rökstuðningurinn fyrir þessu frv. er mjög athyglisverður, fyrir nú utan þetta sama sem maður heyrir frá ári til árs, að hæstv. ráðh. heldur fram, að það þurfi að auka tekjur ríkissjóðs miklu meira en reynslan sýnir og hefur sýnt að þörf er á. Hæstv. ráðh. lætur hagstofuna reikna út, að þessar hækkanir séu aðeins í samræmi við hækkanir á framfærsluvísitölu. Það er alveg ný kenning, að tollar eigi að hækka samkv. framfærsluvísitölu eins og kaupgjald, alveg án tillits til þess, hvort þörf sé á hækkuninni eða ekki, og án tillits til þess, hvort tolltekjurnar hafi hækkað í raun og veru. Ætli það verði ekki næsta skrefið að setja lög um það, að tollar skuli innheimtir með vísitöluálagi, svona til þess að spara sér ómak? En þó tekur fyrst í hnúkana, þegar þessi röksemd er notuð um verðtollinn, sem auðvitað hækkar af sjálfu sér í hlutfalli við hækkun verðlags á aðfluttum vörum. En þetta á ekki að duga. Til viðbótar á að koma hækkun samkv. framfærsluvísitölu. Sem sagt, það er rétt eins og þessir skattar séu lagðir á af einhverri áráttu til þess að skattpína landsfólkið, og maður kemst ekki hjá að velta fyrir sér þeirri spurningu, hver sé tilgangurinn með þessu öllu saman. Er það sú undarlega hagfræðikenning, sem maður hefur heyrt, að það sé ráð til þess að draga úr verðþenslu að leggja á háa skatta til þess að safna í sjóði, enda þótt þessir sömu skattar skrúfi upp dýrtíðina í landinu? Eða er vitandi vits verið að skrúfa upp dýrtíðina til þess að nota hana sem röksemd fyrir öðrum aðgerðum?

Við minnumst þess, að þegar skattarnir miklu voru lagðir á 1947 og 1948, var því haldið mjög á loft, að með þessu hefði gengi krónunnar raunverulega verið fellt og með gengisskráningarlögunum hefði ekki verið gert annað en að skrá rétt gengi á gjaldeyri, sem þegar hafi verið fallinn í verði. Ef þessi röksemd hefur verið rétt þá, gildir hún auðvitað líka um þessar ráðstafanir. Nú vildi ég spyrja: Verða þessar röksemdir að nýju bornar á borð til þess að réttlæta nýja gengisfellingu?